Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Við upphaf þessarar umræðu gerði flm., formaður fjvn., góða og nákvæma grein fyrir frv. sjálfu og tilgangi þess. Markmið þessa frv. er að sporna við þeim, ég vil segja stundum óhóflegu greiðslum úr ríkissjóði umfram fjárlög sem tíðkast hafa í sívaxandi mæli undanfarin ár. Ég minnist þess að þegar ég fór fyrst að fylgjast með stjórnmálum og störfum Alþingis, en það er nú orðið nokkuð langt síðan, þá virtist mér að yfirleitt væru fjárlög virt og nánast talin óhæfa að bregða verulega út af þeim nema í sérstökum tilvikum. Ég get ekki sagt um hvenær sú þróun fór af stað sem á seinni árum hefur orðið á þann veg að ráðherrar og ríkisstjórnir virðast nánast hafa talið sig hafa sjálfdæmi um ráðstafanir fjár úr ríkissjóði sem er sameiginlegt fé okkar allra. Þessi þróun er engan veginn æskileg og hún er beinlínis hættuleg þingræði og lýðræði. Það er tvímælalaust brot á 41. gr. stjórnarskrárinnar að greiða fé úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum eða fjáraukalögum. Og þó að hv. 1. þm. Norðurl. v. teldi hér áðan að stjórnarskrá okkar hefði verið sett í annars konar þjóðfélagi og við aðrar aðstæður en nú ríktu, þá breytir það ekki því að meðan stjórnarskránni er ekki breytt eigum við að breyta samkvæmt henni.
    Það er nú svo að Alþingi samþykkir og gefur út fjárlög, lög um tekjur og gjöld ríkissjóðs, og eftir þeim er ætlast til að sé farið. Þessi þróun sem ég lýsti áðan um greiðslur án heimilda sýnir sívaxandi virðingarleysi ráðherra og ríkisstjórna, hvar í flokki sem þeir hafa verið, við vilja Alþingis á hverjum tíma sem er út af fyrir sig býsna alvarlegt mál.
    Eitt af markmiðum þessa frv. er að stuðla að markvissari og raunhæfari fjárlagagerð. Fjárlög eru í eðli sínu áætlun um tekjur ríkissjóðs og ákvörðun um umfang útgjalda hans. Þá skiptir höfuðmáli að hvort tveggja sé sem næst lagi og tekjukröfur ofbjóði ekki gjaldþoli skattgreiðenda og útgjöldin séu ríkissjóði ekki um megn. Þær raddir eru þó oft háværar sem telja að yfirleitt
sé hvorugt þessara atriða haft að leiðarljósi við fjárlagagerð. En hvað sem um það má að öðru leyti segja þá hlýtur að vera ljóst að þarna sem víðar er meðalhófið vandratað og við fjárlagagerð er mikils um vert að vandað sé sem best til þeirra áætlana sem ríkisstofnanir gera um rekstrarkostnað, tekjur og gjöld og að vanáætlanir séu ekki innbyggðar sem síðar kunna að kalla á fjárútlát umfram fjárlög og valda því að ráðherrar og ríkisstjórnir í heild telji sig í rétti til að breyta þeim ákvörðunum sem Alþingi hefur samþykkt. Þetta leiðir svo til glundroða í ríkisfjármálunum og rýrir virðingu Alþingis. Virðing Alþingis setur ofan í augum manna út á við.
    Þessi atriði urðu þess valdandi að fjvn. settist að vinnu við að semja reglur um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Afrakstur þeirrar vinnu er það frv. sem er til umfjöllunar nú, frv. sem í raun fjallar um það að framkvæmdarvaldið skili fjárveitingavaldinu aftur til löggjafarvaldsins þar sem þess löglegi staður er.

    Ég talaði áðan um vanáætlanir, vanáætlanir af ýmsum toga, vanáætlanir sem verða til vegna þess að menn áætla af einhverjum ástæðum útgjaldaþætti lægri en þeir reynast. Vanáætlanir vegna þess að menn vildu ná jöfnuði á fjárlög á pappírnum svo að fjárlögin litu betur út og kærðu sig þá kollótta þó að seinna meir kæmi raunveruleikinn í ljós. Þetta hefur gerst og það oftar en einu sinni og hefur orsakað deilur og misklíð milli manna og flokka. En það sem er alvarlegast í þessum efnum er að upp er að þróast vaxandi halli í fjárlögunum. Athugun sem gerð hefur verið um þróun fjárlaga í um það bil hálfan annan áratug hefur leitt í ljós viðvarandi vaxandi halla á fjárlögum sem nú er orðinn um 3 milljarðar, þriggja milljarða fastur halli nú. Að vísu hafa verið nokkrar sveiflur milli ára en þetta er sú staða sem við okkur blasir núna. Fjárlagagerðin sýnir yfirleitt betri afkomu ríkissjóðs en reyndin er sem sagt þessi. Ég tel að full þörf sé á að menn horfist í augu við þennan raunveruleika og taki á honum.
    Ég tel víst að menn geri sér ljóst að um þetta frv. kann að verða meiningarmunur og það hefur reyndar komið í ljós nú þegar. Slíkar ákvörðunartökur munu ekki renna hindrunarlaust í gegnum þingsali, en þingmenn ættu þó vissulega að fagna því að hið raunverulega fjárveitingavald komi aftur til löggjafans, að löggjafinn sé varinn fyrir ásælni framkvæmdarvaldsins. Það er það sem þetta frv. miðar að ásamt öðru. Ég vil hér árétta það sem áður hefur komið fram að fullkomin samstaða er meðal nefndarmanna, hvar í flokki sem þeir eru, um þá skipan mála sem þetta frv. boðar.
    Hæstv. fjmrh. hefur að undanförnu verið ötull við að leggja fram fjáraukalög bæði fyrir liðin ár og yfirstandandi og er það góð og nauðsynleg regla og ber honum heiður fyrir. Sé þessi regla tekin upp nú, eins og lagt er til í frv. sem við ræðum og er raunar skylt að gera, er auðveldara að fylgjast með stöðu ríkissjóðs á hverjum tíma og taka mið af því við fjárlagagerð hvernig fjárlög fyrra árs hafa staðist. Með þessu ætti að nást betri yfirsýn og staða til að gera raunhæfari áætlanir, a.m.k. um útgjöld, en áður hefur verið og væri vel ef sú aðstaða yrði nýtt.
    Það er ljóst að hæstv. fjmrh. hefur sitthvað við þetta frv. að athuga og hefur lagt hér fram tillögur um umbætur við fjármálastjórn ríkisins og nýskipan í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds á vettvangi ríkisfjármála og aukið aðhald í ríkisrekstri, eins og fyrirsögnin er á þeim blöðum sem var dreift hér meðal okkar þegar frv. var lagt fram. Þetta er athyglis- og umræðuvert þó það sé í mörgu óskylt því frv. sem hér er til umræðu. En það sýnir að hæstv. ráðherra vill hafa hönd í bagga með hvernig umræðan þróast og hver afdrif þessa máls verða. Eða e.t.v. vill hann drepa málinu á dreif, sem ég þó vona að ekki sé raunin. Þessar tillögur, ef fram næðu að gagna, hlytu að valda mjög breyttum starfsháttum hér innan þingsins og yrðu slíkar breytingar varla gerðar átakalaust. E.t.v. hefur hæstv. fjmrh. þótt sem frumkvæði að breytingunum ætti að vera hjá honum

en allt um það hlýtur hann sem forsjármaður ríkiskassans að fagna því ef alþingismenn vilja aðstoða hann við að hafa hemil á útgjöldum. Enda tekur hann í 9. punkti þessara tillagna sinna undir meginatriði frv. En svo mætti spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist leggja fram frv. eða þingmál um það sem hann leggur til í þessum tillögum og hvort eða hvernig hann hyggst ná þeim fram. Það væri gott að hann gerði grein fyrir því.
    Það er mikilsvert að hér fari fram umræða um fjárlög ríkisins án þess að það sé gert í hita afgreiðslunnar eins og stundum gerist og er þá ýmislegt stundum ofsagt eða vansagt. Og það er gott að menn geri upp hug sinn um það hvaða skoðanir þeir hafa á því hvernig eigi að standa að umfjöllun og meðferð þeirra mála því það er nú svo að skipuleg og góð nýting almannafjár er ein af meginforsendum fyrir góðri stjórnun og meðferð opinberra fjármála og þess að ákvarðanataka viðkomandi yfirvalda beri árangur. Meginmálið er að hér er verið að móta reglur sem stuðla að því að svo megi verða.