Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ég er kominn hér í ræðustól til að mæla með frv. fyrir hönd þingræðis. Það er skemmst frá því að segja að í kringum þetta frv. ríkir eins konar þjóðstjórnarstemmning. Hér standa að allir flokkar þingsins utan einn, allir flokkar sem eiga fulltrúa í fjvn. og allir fjárveitinganefndarmenn, níu að tölu. Að mínu mati er sú þjóð ekki fullvalda þar sem framkvæmdarvaldið ríkir yfir löggjafarvaldinu.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um frv. eða ástæðurnar fyrir því að ég styð það. En mikilvægastar eru þó sennilega aukafjárveitingarnar í þessu sambandi. Menn hafa bent á það hér að ráðherrar verði að geta greitt út peninga án þess að kalla saman Alþingi. Ég er á móti því að ráðherrar hafi það vald. Hins vegar hafa allir ráðherrar lið á fjárlögum sem er kallaður Óráðstafað. Þurfi þeir að grípa skyndilega til peninga geta þeir notað peninga samkvæmt þessum lið og ef upp á vantar geta þeir leitað til Alþingis næst þegar það kemur saman með beiðni um að endurnýja sjóðinn.
    Íslenska löggjafarvaldið, Alþingi, er 973 árum eldra en framkvæmdarvaldið. Alþingi er 1059 ára gamalt en það eru ekki nema 86 ár síðan fyrsti ráðherrann kom til starfa. Við sjáum af því að Alþingi hefur getað vel verið án framkvæmdarvaldsins en framkvæmdarvaldið á mjög erfitt með að vera án Alþingis, enda starfar framkvæmdarvaldið á vegum löggjafarvaldsins.
    Flm. þessa frv. hefur borist óvæntur liðsauki sem er sjálfur hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson. Hann hefur skilað inn punktum sem eru efnislega þeir sömu og við fjárveitinganefndarmenn höfum flutt hér. Hann hefur aðeins notað annað orðalag. Vill hann nú líka þessa Lilju kveðið hafa og hljótum við að bjóða hann velkominn í hópinn og vonum að með því styrkist flutningur þessara breytinga sem frv. boðar hér í þingsölum.
    Virðulegi forseti. Á sínum tíma sagði þjóðin: Handritin heim. Í dag segjum við: Fjárveitingavaldið heim.