Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar eykur hvorki rétt ráðherra né takmarkar. Það frv. sem hér er verið að fjalla um breytir aftur á móti verulega réttarstöðu þingsins til þess að láta á það reyna hvort ráðherra hefur brotið af sér í starfi gagnvart þeirri fjárumsýslu sem honum hefur verið falin. Það ætti að vera öllum þingmönnum ljóst að ákvæði stjórnarskrárinnar, 41. gr., verður ekki breytt með almennum lögum. 41. gr. skýrir frá því svo að ekki verður um villst hver sé réttur ráðherrans en vegna mikils misskilnings, sem kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v., þykir mér rétt að fara yfir þá grein.
    ,,Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``
    Þetta er svo skýlaust að það verður ekki hægt að segja í styttra máli meira um rétt ráðherrans. Hans réttur er sem sagt að ráðstafa fjármunum ríkisins innan þess ramma sem Alþingi hefur samþykkt. Hann hefur það aftur á móti í hendi sér hvort hann ber fram ein fjáraukalög, tvenn eða þrenn. Og svo gæti farið að það yrði að kalla þing saman á miðju sumri ef allt færi gersamlega úr böndunum og allar áætlanir fjmrn. um fjárþörf hefðu reynst rangar í því fjárlagafrv. sem ráðherrann hefði leitað eftir að yrði samþykkt af Alþingi. Ég get vissulega tekið undir að það væri æskilegt að hv. 1. þm. Norðurl. v. heyrði mál mitt en má vera að hann hlusti þó hann sé ekki hér í þingsölum.
    Ég tel rétt að víkja næst að 47. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Sérhver nýr þingmaður skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni þegar er kosning hans hefur verið tekin gild.``
    Það er alveg á hreinu að sérhver þingmaður hefur þurft að vinna þennan eið (Gripið fram í.) og það þýðir ekkert að tauta ofan í barminn að stjórnarskráin sé orðin gömul og úrelt og ástæðulaust að virða eiðinn. Hans er krafist, hann hafa menn unnið og eftir honum ber að fara.
    Nú er það svo eins og hér hefur komið fram að þessi grein, 41. greinin, hefur vissulega verið margbrotin. En jafnvel þó að þetta frv. yrði fellt hefur ráðherra engan rétt samkvæmt stjórnarskránni til þess að hegða sér á annan veg en þar er gerð grein fyrir í öllum aðalatriðum. Og með leyfi forseta ætla ég að lesa 14. gr. stjórnarskrárinnar:
    ,,Ráðherra ber ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir um þau mál.``
    Og hvað segir stjórnarskráin meira um þetta atriði? Jú, við skulum ögn aðgæta betur hvað kemur fram í þeim efnum. Í 13. gr. segir svo:
    ,,Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra skal gerð með þingsályktun í sameinuðu þingi, og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni, enda sé sókn málsins bundin við þau. Jafnframt kýs Alþingi mann til að sækja málið af

sinni hendi og annan til vara ef hinn kynni að forfallast. Enn fremur kýs sameinað Alþingi fimm manna þingnefnd með hlutfallskosningu til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar.``
    Samkvæmt 14. gr. sem ég, með leyfi forseta. óska að fá að lesa einnig:
    ,,Forseti sameinaðs Alþingis sendir hæstaréttarforseta tafarlausa tilkynningu um málshöfðunarákvörðun Alþingis, en hann tilkynnir síðan, svo fljótt sem tök eru á, ákærðum málshöfðun og sendir honum eftirrit af þingsályktun Alþingis.``
    Það fer ekki á milli mála að þeim sem sömdu stjórnarskrána er ljóst að hættan á brotum á stjórnarskránni liggur fyrst og fremst hjá framkvæmdarvaldinu. Stjórnarskráin er í grundvallaratriðum samin til þess að framkvæmdarvaldið taki sér ekki alræðisvald í landinu. Stjórnarskrárnar urðu til eftir að einvaldskonungar, sem þóttust hafa vald sitt frá guði, urðu að gefa eftir fyrir þingum þjóðanna og aðalátakamálið í átökunum á milli þingsins og hinna sem höfðu áður ráðið öllu var ákvörðunin um réttinn til að skattleggja þegnana og hvernig ráðstafa skyldi því fé. Það er meira að segja svo kyrfilega niðurneglt að forsetinn sem hefur náðunarvaldið hefur ekki náðunarréttinn sé um ráðherra að ræða. Og með leyfi forseta vil ég lesa upp 29. gr.:
    ,,Forsetinn getur ákveðið að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.``
    Það fer ekkert á milli mála gegn hverjum stjórnarskránni er beitt. Stjórnarskránni er beitt til þess að valdhafarnir á hverjum tíma taki sér ekki alræðisvald. Ég fer út af fyrir sig ekkert dult með það, þó að fjvn. öll standi að þessu frv. sem ég fagna, að ég tel mig á vissan hátt vera guðföður að því að það er komið hér inn í sali þingsins. Og ástæðan er einföld. Ég hef setið sem stjórnarsinni hér um bil allan þann tíma sem ég hef verið á Alþingi. En ég hef mátt horfa upp á það að samþykktir þingsins hafa verið þverbrotnar
varðandi meðhöndlun fjmrh. á fjáraukalögum. Það grundvallaratriði að afla sér heimilda fyrir fram hefur verið brotið. Menn hafa komið á eftir og óskað eftir því að greiðslur sem greiddar hefðu verið væru samþykktar, stundum eftir mörg ár, stundum fyrr. Og þá hefur venjulegum þingmanni nánast verið stillt upp við vegg. Ætlar þú að samþykkja eða ert þú að leggja til að 15 manna dómur taki þennan ráðherra fyrir og dæmi hann? Og hvað þýðir það í reynd? Það þýðir að ef slíkt yrði upp tekið, þá mundi viðkomandi ríkisstjórn á þeirri stundu splundrast. Meiri hlutinn sem þyrfti til að fá samþykktina inn í sali þingsins, sá sami meiri hluti væri að sjálfsögðu brostinn og framkvæmdin þess vegna í reynd vonlaus nema ef þannig stæði af sér að fráfarandi ríkisstjórn hefði

skilið eftir sig stóran slóða og nýr meiri hluti hefði myndast sem hefði þá viljað hefna sín á þeim sem á undan voru. Ég tel að svona ákvarðanir eigi ekki að stjórnast af neinni hefnigirnd. Ég tel að svona ákvarðanir eigi að stjórnast af því að menn komi sér í sátt saman um það að breyta leikreglunum aftur til þess sem þær eiga að vera. Ég fagna því þess vegna að samstaða hefur náðst um það frv. sem hér er til umræðu. Ég segi samstaða vegna þess að það hefur náðst samstaða fjárveitinganefndarmanna hvar í flokki sem þeir eru.
    Ég hef hlustað á ummæli um það að með þessu móti væri fjvn. orðin ríkisvaldinu æðri. Það skal játað hér og nú að mig brestur vitsmuni til að átta mig á því hvernig sú niðurstaða er fengin enda rökstuðningurinn harla stuttur og erfitt að átta sig á þeim vörðum sem þar komu fram en mikið hlýtur sú náðargáfa að vera mikil sem getur náð slíkri niðurstöðu eins og þar hefur komið fram. Ég fæ ekki séð að fjvn. sem tekur við fjárlagafrv. á haustdögum úr hendi fjmrh., situr yfir athugasemdum mestmegnis frá embættismannakerfinu um það hverju beri að breyta og hverju sé skynsamlegt að breyta, tekur á vinnslutímanum við óhemjufjölda af tillögum frá fjmrh. um breytingar og að síðustu, eins og allar aðrar nefndir þingsins, leggur fram á Alþingi tillögur sínar um breytingar, ég skil ekki hvernig hægt er að segja að hún ráði þessu. Auðvitað ræður hún því ekki, auðvitað er það Alþingi Íslendinga sem ræður. En það er einmitt það sem sumir vilja að snúist við. Þeir telja eðlilegt að frumréttur þingsins sé afhentur ráðherrunum og þeir ráði þessu. Ég fæ ekki séð að ef sú regla ætti að taka yfir sé nokkurt vit í öðru en að breyta stjórnarskránni til samræmis og hætta þeirri vitleysu að leggja fram frv. til fjárlaga hér á þingi. Auðvitað væri æskilegt að ráðherra gæfi þá skýrslu um hvað hann hefði eytt miklum peningum, hliðstæða skýrslu og utanrrh. gefur eða einhver slíkur um sín afreksverk. En hitt er svo annað mál að sumt er í þessu frv. sem gengur það langt í að veita ráðherra réttindi að það er ekki einu sinni víst að það standist. Það er ekki víst að sá réttur að inna greiðslur af hendi með samþykki fjvn. á þeirri forsendu að hún þoli ekki bið, að það standist skv. stjórnarskránni. Svo einfalt er það mál. Og það er ekki þingsins að skera úr um það með réttu heldur dómstólanna. Enda er það grundvallaratriði í hverju lýðræðisríki að virða þrískiptingu valdsins.
    Ég hef fengið hér í hendur frá hæstv. fjmrh. tillögur í 14 liðum sem hann hefur viljað koma á framfæri undir þessari umræðu. Ég hygg að eitt og annað í þessum tillögum geti verið til bóta. En það breytir ekki því að sumt í þessum tillögum kallar að sjálfsögðu á breytta skipan Alþingis, m.a. sú hugmynd að sama nefndin eigi að fara yfir skattalög og fjárlög. Til þess þyrfti að vera hér ein deild í þinginu og sú deild að hafa löggjafarvaldið. Eins og menn vita í dag þá starfa tvær deildir og svo sameinað þing. Satt best að segja finnst mér þegar ég fer yfir þessi drög að hæstv. fjmrh. hefði haft mjög gott af því að hafa svo

sem 10 ára þingsetu eða meir áður en hann settist niður við að semja sumt af því sem hér hefur verið sett á blað. Það er nefnilega svo að ýmsar hugmyndir geta verið fallegar við fyrstu sýn en þær standast kannski ekki að öllu leyti í framkvæmd.
    Hér eru uppi hugmyndir um að tryggja aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og samkvæmt þeim hugmyndum virðist aðalskörunin eiga að liggja í því að fulltrúi fjvn. situr í framkvæmdanefnd um opinberar framkvæmdir. En ætli aðalskörunin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds liggi ekki í því að fulltrúar löggjafarþingsins sitja sem ráðherrar og þingmenn samtímis? Ég held að það sé líka óraunhæft að gera ráð fyrir því að með hverri einustu tillögu sem menn flytja á Alþingi Íslendinga eigi að flytja tillögur um útgjöld, um tekjustofna. Ég hygg að það væri auðvelt fyrir marga að benda á einhvern tekjustofn sem þeir vildu koma á framfæri en enn þá auðveldara vær að sjálfsögðu að benda á eitthvað sem þeir vildu skera niður þannig að tillöguflutningurinn yrði alveg sá sami þó að þetta kæmi inn. En eitt vil ég segja hér aftur af því að hv. 1. þm. Norðurl. v. er hér mættur, að ég hygg að honum væri stjórnarskráin holl lesning þannig að hann gæti rifjað það upp fyrir sér hvað það var sem hann vann eið að að halda.