Landgræðsla
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Frsm. atvmn. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt leiðrétting vegna orða hv. síðasta ræðumanns, 2. þm. Vestf. Hann gerði athugasemd við það að í ályktun hefði komið fram eitthvað sem hann kallaði tvöfalt áburðarverð, þ.e. eitt verð lægra til landgræðslu og annað hærra til bænda. Þetta er á miklum misskilningi byggt. Það sem gerðist í þessu máli var það að umsagnar var leitað hjá Áburðarverksmiðju ríkisins varðandi þá tillögu sem hér er til umræðu. Frá henni barst síðan bréf sem ég gerði grein fyrir við framsögu í málinu. Í bréfi þessu kemur fram tilboð frá Áburðarverksmiðju ríkisins um eftirfarandi: Að Áburðarverksmiðjan sé tilbúin að lækka áburðarverð um 20% ef keypt er umfram það magn sem Landgræðslan hefur keypt að meðaltali á ári á undanförnum árum, sem eru 1680 tonn, eða lestir á góðri íslensku.
    Ég sagði í framsöguræðu minni með þessari tillögu að ég teldi þetta mjög rausnarlegt tilboð en það byggir einfaldlega á því að Áburðarverksmiðjan hefur orðið að draga saman í sínum rekstri á undanförnum árum vegna þess að áburðarnotkun hefur stórminnkað eftir að fækkað hefur verið í sauðfjárstofni og fækkað búpeningi á landinu upp til hópa. Sá áburður sem Áburðarverksmiðjan mundi selja með 20% afslætti væri áburður sem verksmiðjan framleiddi á þeim tímum þegar annars væri ekkert að gera þar. Þetta er sem sagt sá áburður sem hún gæti framleitt umfram það sem hún gerir um þesssr mundir. Sjálfum finnst mér þetta tilboð ákaflega rausnarlegt af hálfu Áburðarverksmiðjunnar og gæti komið landgræðslu á Íslandi að mjög góðu gagni.
    Ég ætla ekki að ræða það sem kallað er einokunarréttur Áburðarverksmiðju ríkisins en eitt vil ég segja varðandi þetta mál. Ég ætla ekki að blanda gæsum inn í það vegna þess að ég hef enga vitneskju skriflega frá sérfræðingum eða öðrum um áhrif gæsarinnar á uppgræðslu í landinu. Allir vita auðvitað að stórir gæsahópar geta skilið eftir sviðna jörð þegar þeir fara yfir, en um
heildaráhrifin veit ég ekki. Hins vegar er ég ákveðið þeirrar skoðunar og mjög þess fýsandi að við stefnum nú að því allir sem einn að banna lausagöngu sauðfjár og að menn hætti þeim tiltektum sem verið hafa uppi á undanförnum árum, að girða af land til þess að sauðfé komist ekki að landinu. Það á að snúa þessu við. Það á að girða sauðféð af og það á að gera í heimalöndum. Það á að gera bændum kleift að rækta upp heimalönd til þess að geta haft fé sitt og búpening á beit í heimalöndum og afréttaruppreksturinn á að stöðva. Svo einfalt er það mál.
    Við stöndum frammi fyrir því núna eins og ég gat um í upphafsorðum mínum þegar ég ræddi um þessa tillögu og gerði grein fyrir henni, við stöndum frammi fyrir því að margir af helstu afréttum þessa lands eru með öllu ónýtir. Ég get endurtekið upptalninguna á þeim. Við getum tekið Biskupstungnaafrétt sem er eyðimörk. Við getum tekið Landmannaafrétt sem er að

verða eyðimörk. Við getum tekið Mývatnsafrétt sem er orðin eyðimörk. Þannig hefur þetta farið. Stóraukin hrossabeit hefur ekki bætt úr og eru mörg dæmi þess hvernig hross hafa farið með afréttarlönd þar sem þau hafa verið rekin upp. ( ÓÞÞ: Hvar er það?) Ég held að hv. þm. ætti að ræða við hv. 1. þm. Norðurl. v. um það mál en ekki þann sem hér stendur.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en eingöngu ítreka það að ég tel það fréttnæmt og mjög rausnarlegt af Áburðarverksmiðju ríkisins að bjóða til sölu áburð til landgræðslu hér á landi á verði sem er 20% lægra en það verð sem gildir nú í dag. En þau takmörk eru á þeirri sölu að afslátturinn verður aðeins veittur á því magni sem er umfram þau 1680 tonn sem Landgræðsla ríkisins hefur keypt af Áburðarverksmiðju ríkisins að meðaltali á ári á undanförnum árum.