Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Ég fagna áliti nefndarinnar sem um þetta mál hefur fjallað á mjög jákvæðan hátt. Ég vil vekja athygli á umsögnunum sem hv. síðasti ræðumaður las hér nokkuð upp úr, því þær eru út af fyrir sig mjög merkilegar og benda á margt það sem aflaga fer í íslensku atvinnulífi og eins þá möguleika sem fyrir hendi eru.
    Það blasir nú við öllum að brýnna aðgerða er þörf í atvinnumálum landsbyggðarinnar og ekki síst er brýnt að sinna atvinnuþörf kvenna. Þær hugmyndir um atvinnusköpun sem efstar eru á baugi hjá ráðamönnum eru einkum stóriðja og ekki leysir hún atvinnuvanda kvenna, hvar sem hún verður staðsett. Í þeirri ofurtrú á gildi stóriðju til lausnar á atvinnuvandanum gleymist að huga að því sem smærra er en gæti þó á ýmsan hátt reynst hagkvæmt ekki síður en annað. Í Skandinavíu kom tölvubyltingin nokkru fyrr en hér og mér virðist einnig að frændur okkar hafi áttað sig á því tiltölulega fyrr en við hvaða gildi þessi tækni hefur til atvinnusköpunar í dreifbýli.
    Ég hafði hugsað mér í framhaldi af þessu að vitna til umsagnanna en ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem hv. þm. Árni Gunnarsson ræddi hér um áðan. En ég vil undirstrika það að möguleikar landsbyggðarinnar til að nýta sér þessa fjarskiptabyltingu sem orðin er eru næstum ótæmandi ef rétt er að málum staðið. Ég vil minna á það líka að það er vissulega áhugi fyrir því á landsbyggðinni að nýta sér þessa tækni. Norður á Kópaskeri er kennari sem þegar hefur komið sér upp tölvubanka í sambandi við kennslugögn og nám og annað slíkt og er í sambandi við erlendar þjóðir um það. Þarna er strax vísir að því sem gæti orðið.
    Ég vil líka minna á það að mér barst frásögn af því fyrir nokkrum dögum síðan að í Þrándheimsfirði í Noregi, í afskekktum bæ þar sem heitir
Brönnoysund er í tölvu haldið utan um alla hlutafélagaskrá Noregs og þar eru unnin verkefni sem tengjast því. Þetta veitir umtalsverða atvinnu í þessum bæ þar sem byggðin var að því komin að lognast út af.
    Í þessu sambandi dettur mér í hug að umræða var uppi fyrir nokkru síðan um að samræma bæri allar hafnarvogir á landinu og þær yrðu tölvutengdar sín á milli í sambandi við útflutning. Ég sé ekkert sem mælir á móti því að móðurtölva þessa fyrirtækis sé staðsett einhvers staðar úti á landi. Það er ekkert náttúrulögmál sem segir að hún þurfi nauðsynlega að vera í Reykjavík. Þetta gæti með öðru skapað þó nokkur atvinnutækifæri sem gætu komið sér vel úti í dreifbýlinu.
    En það er annað sem mig langar til að minna á í þessu sambandi. Árið 1972 var skipuð nefnd til þess, eins og segir í erindisbréfi hennar, að kanna staðarval ríkisstofnana og athuga hvaða breyting komi helst til greina í þeim efnum að þær verði staðsettar víðar um landið. Nefndin skilaði áliti árið 1975, vönduðu og vel unnu áliti. Það var unnið af metnaði til að skila

traustum niðurstöðum því á þeim átti að byggja framkvæmdir. Framkvæmd eins þáttar í þeirri byggðastefnu sem þá var ofarlega á baugi var að flytja ríkisstofnanir út á land með það fyrir augum að draga úr miðstýringu og byggja upp atvinnu fyrir landsbyggðarbúa. Mér virðist nú að margt væri á annan veg um atvinnumál á landsbyggðinni ef vinna þessarar nefndar hefði verið nýtt. Hún lagði til að fjölmargar stofnanir og stofnanadeildir yrðu fluttar út á land. Þar hefðu skapast ótal atvinnutækifæri og uppbygging í meira mæli en hefur verið hingað til. Fólk með sérþekkingu og sérmenntun hefði sest að vítt um landið og menntun þess hefði nýst á margvíslegan hátt og e.t.v. orðið til þess að þar hefði orðið atvinnuþróun á annan hátt en raunin hefur orðið.
    Við sjáum hvað hefur orðið um hitt atriðið, að draga úr hinni sívaxandi miðstýringu, því miðstýringin blómstrar nú sem aldrei fyrr. Tveir núv. hæstv. ráðherrar sátu í þessari nefnd og nú hefðu þeir tækifæri til að láta hin góðu verk sín tala því margt í tillögum nefndarinnar er enn í fullu gildi og ekki síst nú þegar litið er til þeirrar byltingar sem orðin er í fjarskiptatækninni.
    Ég vil benda þeim á það, þessum hæstv. ráðherrum, að hafi þeir á annað borð áhuga fyrir atvinnumálum landsbyggðar eða áhyggjur af stöðu þeirra mála þá er tækifærið núna að dusta rykið af þeirra gömlu áhugamálum og tillögum og koma þeim til framkvæmda. Ég vil leggja áherslu á gildi þessarar þáltill. sem hér liggur fyrir um nýja sókn og ný viðhorf í atvinnumálum á landsbyggðinni, þar sem hugað er að verkefnum sem e.t.v. virðast ekki stór í sniðum en geta þó veitt umtalsverða atvinnu vítt um landið, einkum fyrir konur, konur sem skortir sárlega vinnu. Og nú þegar búseta í dreifbýli á í vök að verjast skiptir öllu máli að konur þar hafi vinnu. Það skiptir öllu máli um byggðafestu að konum sé tryggð vinna. Þessu hafa Norðmenn og Svíar sannarlega gefið gaum því þar er í byggðamálum lögð áhersla á að leitað sé atvinnu fyrir konur. Það þarf að standa skipulega að málum því það er skipuleg sókn öðru framar sem þarf að koma til ef takast á að mynda það þéttriðna net stærri og smærri atvinnutækifæra sem víðast um landið sem þarf að vera svo byggðin haldist og blómgist og fólk eigi þess kost að velja sér búsetu þar sem það kýs
að vera.
    Stóriðja er nú mjög í umræðu sem mikið nauðsynjamál varðandi atvinnusköpun og þá er það einkum nýtt álver sem menn horfa til. Menn virðast ekki með nokkru móti geta séð annan atvinnukost heppilegri og líta þá ekki á þá óhjákvæmilegu byggðaröskun og vandamál sem slíkt hefur í för með sér. Önnur stóriðja kemur ekki til greina að mati manna, þ.e. karlmanna. Í mínum huga eigum við kost á annars konar stóriðju --- stóriðju sem getur dreifst víðar um landið, einkum í ljósi þeirra breytinga sem virðast fram undan í markaðsmálum Evrópu. Það er stóriðja á ýmsan hátt. Það er stóriðja í því að flytja út ferskan fisk, eldisfisk á borð neytenda. Það er stóriðja

við fullvinnslu sjávarafurða, okkar dýrmætustu auðlindar í heimi sem hrópar á ómengaða fæðu. Fullvinnsla fisksins okkar, og þá fleiri tegunda en enn hafa verið nýttar, jafnvel tegunda sem nú er kastað fyrir borð án þess að nokkur vilji við það kannast. Fullvinnsla fisks í gómsæta og girnilega íslenska sjávarrétti, e.t.v. í samvinnu við erlendar matvælasölukeðjur sem gæfu þeim gæðastimpil. Þetta er stóriðja sem við eigum og verðum að vinna að. Það er ekki eftir neinu að bíða með að hefjast handa um uppbyggingu hennar. Það er hneisa og til smánar fyrir okkur sem teljum okkur hafa vald á nútímatækni og stjórnun að flytja fiskinn okkar, þetta dýrmæta hráefni, óunnið eða lítt unnið út til atvinnusköpunar fyrir útlendinga á meðan við sjálf berjumst við atvinnuskort. Þetta bið ég menn að hugleiða. Að öðru leyti fagna ég hverri þeirri viðleitni sem viðhöfð er til að styðja við búsetu á landsbyggðinni og þar leggur þessi þáltill. sem hér er til afgreiðslu sitt lóð á vogarskálina.