Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Rannveig Guðmundsdóttir:
    Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma hér og segja örfá orð og lýsa ánægju minni með niðurstöðu hv. atvmn. Það kom fram við fyrri umræðu þessa máls að áhugi hefur mjög aukist á atvinnuúrbótum kvenna í dreifbýli og kom það fram við þá umræðu hvað hefur verið reynt að gera eða byrjað að gera í þeim efnum: Áhugi sem birst hefur, t.d. á síðasta þingi í formi þál., starfshópar sem unnið hafa í afmörkuðum þáttum og ekki síst samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta sem sett var á laggirnar á sl. hausti.
    Nú hefur verkefnisstjóri þess samstarfsverkefnis skilað skýrslu. Afskaplega mikilvægt er að vel takist til um framhald þess máls og að samvinna allra þeirra aðila sem hafa verið að taka smá spor í þessum efnum, og þá á ég bæði við félagasamtök og stofnanir, takist í framhaldinu. Og ekki síst að leitað verði til og hafðar verði með í ráðum þær konur í dreifbýli sem vissulega hafa sýnt mikið frumkvæði heima fyrir.
    Í umfjöllun um atvinnumál kvenna í dreifbýli er oft mjög talað um atvinnuleysi og þörf á úrbótum vegna atvinnuleysis. Ekki geri ég lítið úr því og ég vil nefna hér að það var ánægjulegt sem komið hefur fram að atvinnuleysi kvenna í febrúar var minna en karla. Það er sérstakt því að venjulega er því alveg öfugt farið. En þegar ég tala um að umfjöllun snúist kannski of mikið um atvinnuleysi þá er það ekki stóra málið því það er fjölbreytni, eins og hér hefur komið fram, fjölbreytni í atvinnumálum og atvinnutækifærum sem skiptir máli fyrir konur á landsbyggðinni. Og því lýsi ég ánægju minni með þetta mál eins og ég gerði við fyrri umræðu að hér er einmitt um að ræða breytingu í þessa átt og liður í að auka fjölbreytni í störfum kvenna á landsbyggðinni.
    Það sem ekki síst fékk mig til að koma hér upp var að það kom fram að mjög áhugaverðar ábendingar hefðu verið í þeim umsögnum sem bárust um þessa þáltill. Ég teldi það afar brýnt, virðulegur forseti, að þær ábendingar kæmust t.d. í hendur samstarfsnefndar, eða þess verkefnis sem er í gangi á vegum ráðuneytanna, þannig að alveg öruggt sé að það sé nýtt allt það efni sem fyrir liggur því við verðum að halda áfram á þeirri braut. Það sem hér er til umfjöllunar er einn angi þess, mjög góður. Og vissulega treysti ég því að þessi till. verði samþykkt.