Atvinnumöguleikar á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með þá meðhöndlun sem þetta mál hefur fengið hjá atvmn. Sþ. Ég tók hér til máls þegar þetta mál var tekið fyrir í haust og lýsti þá yfir ánægju minni með að það væri komið fram. Ég hafði velt þessum málum töluvert fyrir mér og tel að við eigum mikla möguleika á landsbyggðinni. Ég held reyndar að málin standi núna þannig að þær hindranir sem eru í vegi fyrir því að við getum tekið upp atvinnustarfsemi á þessu sviði á landsbyggðinni séu kannski miklu fremur huglægar en tæknilegar. Tæknilega erum við að verða í stakk búin til þess að framkvæma þessa hluti en það þarf hugarfarsbreytingu.
    Ég þekki margt vel menntað fólk, ungt vel menntað fólk, af landsbyggðinni sem hefur sest að hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja þó menn kjósi sér það, en þetta fólk vildi gjarnan flytjast út á land og nýta sína menntun og sína færni til þess að byggja þar upp atvinnulífið á nýjan hátt. Og þetta er einmitt liður í að svo geti verið.
    Ég ætla að nefna hér annan þátt í þessu sem hefur líka breyst mikið á síðustu árum. Það er samgönguþátturinn. Þó svo að sú atvinnustarfsemi sem hér er rætt um byggist að mestu leyti á fjarskiptum fylgja henni óhjákvæmilega einhver ferðalög starfsmanna, ferðalög þess fólks sem mundi nýta sér þjónustu ríkisstofnana og annarra hér sem þyrftu að eiga fundi með sínum vinnumönnum úti um land. Samgöngum hefur fleygt fram, bæði í lofti og á landi. Okkur utan af landi, sem höfum tekið þátt í félagsmálum og atvinnulífinu, finnst það ekkert mikið mál að vinna hlutastarf hér á höfuðborgarsvæðinu, hlutastarf sem felst í því að mæta hér á fundum, bæði stærri og smærri. Fyrir mína parta get ég fullyrt að þetta eykur okkur víðsýni og skilning á þörfum, ekki bara okkar byggðarlags heldur landsins alls. Það vex höfuðborgarbúum hins vegar óskaplega mikið í augum að þurfa að fara til vinnu, þó ekki sé nema einn dagur út á land. Þeir eru logandi hræddir um að verða veðurtepptir og komast ekki strax til baka og svo mætti lengi telja. Ég vil benda á að þessi þáttur er fyrir marga landshluta kominn í gott horf, til að mynda fyrir mitt byggðarlag, þ.e. Mið-Norðurland þannig að við förum orðið á hálfs dags fundi til Reykjavíkur, förum í hádegi og erum komnir að kvöldi. Þetta á ekki að vera hindrun í þessu og á að geta gilt í báðar áttir.
    Ég ætla líka að minnast á annan þátt sem hér var komið inn á áðan. Það er flutningur ríkisstofnana sem hefur verið í umræðunni um árabil en árangur lítill. Sú tækni sem menn tala hér um í fjarskiptum opnar nýjan möguleika, opnar þann möguleika að við getum flutt ríkisstofnanir í áföngum, byrjað á því að flytja vissa þætti starfseminnar og haldið áfram skref af skrefi og síðan að lokum, ef mönnum sýnist það skynsamlegt, flutt stofnunina alla. Við þekkjum öll söguna af því þegar fara á að flytja slíkar stofnanir í

heilu lagi. Þá er oft leitað álits og umsagnar starfsmanna og yfirmanna viðkomandi stofnana og við vitum hvernig það hefur farið.
    Ég ætla að nefna eitt fyrirtæki sem hér starfar á vegum opinberra aðila og er nokkuð stórt í sniðum. Það eru Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar. Mikill hluti af þeirri starfsemi gæti farið fram hvar sem er á landinu þó svo að SKÝRR yrði áfram með sínar höfuðstöðvar í Reykjavík.
    Í ræðu frsm. atvmn. áðan kom fram nokkuð merkilegur hlutur að mínu mati. Það var þegar hann ræddi um þekkingu eða þekkingarleysi okkar Íslendinga á atvinnulífi okkar og hvernig skólakerfið hefði brugðist þar. Þetta er hlutur sem maður leiðir hugann ef til vill ekki að dags daglega en þegar þetta er sagt við mann þá sér maður að þetta er rétt. Ég hef á undanförnum tíu árum öðlast mikla reynslu af atvinnulífi okkar og oft og tíðum hefði maður gjarnan viljað hafa betri undirstöðu úr sinni skólamenntun og þurfa ekki að reka sig á og læra allt upp á nýtt. En ég hef líka fundið það og finn það núna að það er alveg rétt sem hér kom fram áðan að það er ekki stór hópur sem hefur haft tækifæri til að öðlast þessa reynslu og nýta hana sér og öðrum til góðs.
    Mér finnst þetta þekkingarleysi koma víða fram, m.a. í umræðunni um stóriðju þar sem menn segja alltaf annaðhvort eða. Annaðhvort fáum við stóriðju eða eitthvað annað. Þetta er bara ekki svona. Þetta á að vera bæði og. Og stóriðja á bara að vera einn þáttur í því að skapa okkur fjölbreytt atvinnulíf hér og á ekki að þurfa að koma á nokkurn hátt niður á öðru því sem við vildum byggja upp. Mér finnst viðhorf gagnvart þessu hafa nokkuð breyst á síðustu árum. Menn fóru af stað með mikilli bjartsýni með nýja þætti í okkar atvinnulífi á undanförnum árum. Margt fór verr en hefði þurft að fara, kannski m.a. vegna þess sem hér kom fram áðan að okkur skortir svo mikið þekkingu á uppbyggingu og eðli okkar atvinnulífs. Það hefði margt getað farið betur ef almenningur, sem betur fer er það þó enn sem komið er hinn almenni borgari í landinu sem stendur fyrir miklu í atvinnurekstrinum, ef hann hefði haft betri grunnþekkingu á sínu umhverfi og því sem þar er að gerast.
    Þetta kemur fram á margan hátt. Þetta kemur m.a. fram í því sem er að koma fram á sjónarsviðið núna og ábendingar um það komu úr þeirri átt sem maður
átti síst von á. Þá á ég við þá tímamótagrein sem var skrifuð í Morgunblaðið um síðustu helgi, þar sem var Reykjavíkurbréfið. Hér var það að gerast að örfáir aðilar voru og eru hægt og hljótt að ná algerri yfirburðastöðu í okkar atvinnulífi og að manni finnst stundum ekki með almannaheill að leiðarljósi.
    Þetta er nú kannski orðin miklu lengri ræða en ég ætlaði að flytja en ég endurtek ánægju mína með þetta mál og treysti því að það verði samþykkt hér og ég treysti því líka að stjórnvöld fylgi málinu eftir.