Sala fisks í gegnum íslenska fiskmarkaði
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um sölu fisks í gegnum íslenska fiskmarkaði á þskj. 697, en tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning þess að allur fiskur veiddur í íslenskri landhelgi verði seldur í gegnum íslenska fiskmarkaði.``
    Miklar umræður hafa verið um vandamál sjávarútvegs undanfarin missiri og miklum fjármunum verið ráðstafað til að lina þær þrautir sem greinina hrjá. Aðallega hefur verið fengist við afleiðingar, svokallaða björgun, en minna verið unnið að því að styðja atvinnugreinina út úr þeirri skipulagskreppu sem hún er í. Meginvandamál sjávarútvegs er offjárfesting, offjárfesting vegna þess að afkastageta greinarinnar er langt umfram það sem nauðsynlegt getur talist miðað við þann afla sem við megum taka úr sjónum. Þetta á bæði við um veiðar og vinnslu.
    Þeir erfiðleikar sem við hefur verið að etja eru í flestum tilfellum tilkomnir vegna þess að keypt var of stórt eða dýrt fiskiskip sem ekki ræðst við að reka, allra síst nú þegar veiðiheimildir eru enn takmarkaðar eða að fjárfest hefur verið of stórt og dýrt í landi. Fasteignir og tæki nýtast ekki nema takmarkað og standa því engan veginn undir kostnaði. Þær ákvarðanir sem lágu að baki þessum fjárfestingum voru ugglaust allar fyllilega réttmætar á
þeim tíma sem þær voru teknar. Vandi okkar í dag stafar ekki hvað síst af því að ekki hefur verið brugðist við breyttum aðstæðum. Kerfið hefur ekki boðið upp á nógu fýsilegan möguleika þess að minnka flotann eða að betri nýting væri á fjárfestingum í landi.
    Þá hefur samkeppnin um kvótann leitt til þess að sífellt meira fjármagn er bundið í útgerð. Fyrirtæki og byggðarlög verja gífurlegum fjármunum til kaupa á fiskiskipum á háu yfirverði, í raun kaup á kvóta, og raunar einnig til fjárfestingar í fyrirtækjum í þeim tilgangi einum að reyna að tryggja það að fiskvinnslan eigi aðgang að hráefni og atvinnu sé borgið á staðnum. Við minnkandi veiðiheimildir verður útgerð æ erfiðari en enginn þorir að sleppa skipi vegna þess aðgangs að kvóta sem eign á skipsskrokk veitir.
    Allt of mörg sveitarfélög víða um land eiga í miklum fjárhagsörðugleikum vegna þessa, fjárhagsörðugleikum sem gera það að verkum að þau hafa minni möguleika á að sinna öðrum skyldum við íbúana. Byggðaröskun tengist ekki einungis atvinnumálum heldur einnig þeirri þjónustu sem sveitarfélögin geta boðið og íbúarnir gera kröfu um. Frysting og vinnsla um borð í skipum sem aukist hefur mjög undanfarin ár þýðir í raun að minna hráefni kemur til vinnslu í landi. Aukinn útflutningur á ísvörðum fiski í gámum hefur sömu áhrif, þ.e. minni vinnslu í landi. Öfugt við það sem ætla mætti eykst ásóknin í siglingar eða sölur á ísvörðum fiski erlendis við minnkandi kvóta. Öfugt segi ég vegna þess að langstærsti hluti útgerðar er á sömu hendi og fiskvinnslan í landi. Fyrirtæki sem berst í bökkum

freistast til að reyna að ná í skjótfenginn gróða með happdrættissölu erlendis. Ásóknin í sölur erlendis og þeir hagsmunir sem í veði eru hafa skýrast komið fram undanfarið þar sem um fátt hefur meira verið talað í fréttum en átök um fiskmiðlun. Aflamiðlun sem á að miðla afla á erlenda fiskmarkaði, takið eftir, ekki íslenska heldur erlenda og fiskvinnslunni þar áfram séð fyrir stöðugu framboði á fiski af Íslandsmiðum. Og enn minnka umsvifin í okkar fiskvinnslu. Meint þörf hennar fyrir eign á fleiri bátum eða togurum gæti orðið kosningamál í ýmsum illa stöddum sveitarfélögum nú í vor og fleiri bátar eða togarar síðan keyptir á uppsprengdu verði og kaupin studd af fátækum sveitarsjóði sem ef til vill er á sama tíma til sérstakrar skoðunar hjá félmrn. Síðan þarf enn að drýgja tekjurnar með sölum erlendis til að endar nálgist. Við erum sem sagt stödd í vítahring. Arðsemisfjármagn sem svona er verið að binda verður frá fjárhagslegu sjónarmiði harla lítið.
    Sama gildir um það fjármagn sem notað er til að fjárfesta í allt of stórum fiskiskipaflota. Við verðum þvert á móti að finna leiðir sem auðvelda minnkun flotans, leiðir sem tryggja fiskvinnslunni aðgang að hráefni þó fyrirtækin sjálf hafi ekki eða takmarkaða útgerð á hendi. Sú leið sem ég mæli hér fyrir að farin verði gæti leyst bæði þann vanda vinnslunnar að vera með svo mikið fjármagn bundið í útgerð og einnig að hún fengi aðgang að mun meira hráefni sem hún ætti möguleika á að sérhæfa sig í að vinna úr. Ef fiskvinnslan ætti í auknum mæli aðgang að hráefni á mörkuðum gæti fiskiskipum fækkað og arðsemi þeirra sem eftir yrðu mundi aukast. Það yrði mikil framför fyrir vinnsluna að geta einbeitt sér að framleiðslu en þurfa ekki einnig að vera að brasa í útgerð til að tryggja sér hráefni.
    Það er líka virkasta aðgerðin til að vinnslan geti bætt sinn hag. Hún þarf að eiga þess kost að sérhæfa sig og að kaupa á hverjum tíma það hráefni sem best hentar. Á markaði getur fiskvinnslan valið um tegundir sem henta til vinnslu hverju sinni, keypt það magn sem auðveldlega ræðst við að vinna í verðmætustu vinnslu með tilliti til eigin aðstæðna og eftirspurnar kaupenda og
neytenda erlendis. Því fylgir að framleiðandi verður að fylgjast grannt með verðfalli og markaðsbreytingum bæði á fiskmörkuðum innan lands og á mörkuðum erlendis. Meiri líkur eru því á því að hráefnið í heild sinni verði unnið í verðmætustu vinnslu hverju sinni og að verðmætishugsun verði magnhugsun yfirsterkari. Þetta eru engin smáviðbrigði frá því sem nú hefur lengi tíðkast að fiskvinnslan þurfi að taka á móti heilum togaraförmum af blönduðum misgömlum afla. Þá er gjarnan byrjað að vinna elsta fiskinn og sá nýi geymdur þar til hann er orðinn gamall og verðminni. Sjónarmiðið við þessar aðstæður er að bjarga verðmætum frá skemmdum. Þetta sjónarmið á að leysa af hólmi með sjónarmiðinu: Hvernig getum við aukið verðmæti aflans sem við megum taka? Þetta sjónarmið kemur með fiskmörkuðum.
    Fiskmarkaðir áttu einnig að bæta meðferð aflans.

Það má reikna með að áhafnir og útgerð örvist við hærra verð sem hægt verður að fá fyrir nýjan og vel með farinn fisk. Þeir fiskverkendur sem hafa haslað sér völl á ferskfiskmarkaði eða með nýjum og dýrum neytendapakkningum kaupa nær eingöngu sitt hráefni á fiskmörkuðum og telja sjálfir að fiskmarkaðir séu nær alger forsenda þess að hægt sé að halda áfram á braut verðmætisaukningar. Það er því í þágu allra að fiskmarkaðir eflist og dafni um landið.
    Eins og hér hefur áður verið lýst býr íslensk fiskvinnsla við mikið óöryggi og sveiflur í hráefnismálum. Framboð á fiskmörkuðum hér er lítið og markaðirnir eru aðeins staðsettir á suðvesturhorni landsins. Hins vegar hefur skipulagður útflutningur á ísvörðum fiski með skipum og í gámum séð til þess að fram í tímann eru lagðar línur um framboð á ísfiski á fiskmarkaðina í Englandi og Þýskalandi. Sá fiskur er aldrei til sölu fyrir fiskvinnsluna hér heldur fer óseldur úr landi. Fiskkaupendur og fiskverkendur sem aðgang eiga að mörkuðum þar búa við jafnara og stöðugra hráefni en nokkur fiskvinnsla hér á landi af fiski af Íslandsmiðum. Þannig er skipulagsmálum háttað í sjávarútvegi okkar þrátt fyrir okkar landhelgi.
    Sú skipulagskreppa sem er í sjávarútveginum bitnar ekki hvað síst á sjávarplássum út um landið og er ein af ástæðum þess að fólk flýr í stærra þéttbýli eða til höfuðborgarsvæðisins. Fátæk sveitarfélög sem ekki geta sinnt þjónustu við íbúana vegna skulda stærstu atvinnufyrirtækjanna við sveitarsjóð, skulda sem e.t.v. er síðan smám saman breytt í hlutafé sem litlum eða engum arði skilar, og sveiflur og óöryggi í atvinnumálum þrátt fyrir miklar fórnir í þágu kaupa á skipsskrokkum eru ekki beinlínis aðlaðandi eða hvað? Þau hafa ekki sýnt sig að vera það.
    Menn hafa áhyggjur af því að sú leið sem ég er hér að mæla fyrir muni raska byggð og vegna erfiðra samgangna mismuna sveitarfélögum og fyrirtækjum. Þegar er til staðar í landinu nokkur reynsla af bæði fjarskiptamörkuðum og góðmörkuðum og þá reynslu ber auðvitað að nýta. Það fyrirkomulag sem við búum við núna tryggir ekki að fiskvinnslan hafi jafnan aðgang að hráefni.
    Það munstur sem varð við þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna varð m.a. vegna nálægðar við fiskimið. Þau verða áfram á sínum stað og þegar flotinn hefur minnkað og náð sinni eðlilegu stærð að verða fyrst og fremst tæki til að ná í fiskinn með sem hagkvæmustum hætti, en ekki flutningaskip eða aðgerðarlaus við bryggju eins og nú er, mun auðvitað verða ásókn í að landa í næstu höfn, á næsta markaði. Jafnframt því að skipulagskreppa sjávarútvegsins hefur verið að dýpka hafa forsendur til róttækrar breytingar verið að batna. Samgöngur í landi hafa stórbatnað undanfarið og á dagskrá eru enn bættar samgöngur með gerð jarðganga til að tengja byggðarlögin í stærri félagsheildir. Í öðrum flutningum en á landi hafa líka skapast nýir möguleikar og fjarskiptatækni hefur tekið þeim breytingum að fiskverkandi t.d. á Djúpavogi getur fylgst með markaðsbreytingum á sinni skrifstofu og samið um verð og kaup án þess að hafa marga

milliliði og sem betur fer erum við aðeins farin að sýna viðleitni í þá átt að byggja upp víðtækari sjávarútvegsfræðslu. Menntun, samgöngur, tækniþróun og markaðsþekking eru lyklarnir að bjartari framtíðarsýn, en þeir lyklar koma að litlum notum í sjávarútvegi ef við ekki þorum eða getum rifið okkur út úr skipulagskreppunni. Auðvitað óttast margir breytingar og hið óþekkta veldur óöryggi. Sumir kunna jafnvel að hafa af því hagsmuni að viðhalda nánast óbreyttu ástandi. En hversu lengi mun þjóðin una því að lífskjör hennar verði skert til að viðhalda nánast óbreyttu núverandi ástandi?
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að á þingi Verkamannasambandsins í haust var samþykkt tillaga í atvinnumálum undir yfirskriftinni ,,Rífum okkur út úr stöðnuninni.`` Í henni segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Meginskilyrði þessara breytinga eru að íslenska fiskvinnslan eigi ávallt kost á að fá gott hráefni til vinnslu og að hún njóti þess til fullnustu að fiskurinn er veiddur í íslenskri landhelgi. Því er eðlilegt að kanna rækilega hvort ekki sé rétt að setja á stofn öfluga fiskmarkaði víða um landið í samræmi við nýja og breytta atvinnuhætti og vaxandi mikilvægi markaðsstarfseminnar. Þar með bætast þúsundir nýrra starfa inn í íslenskt
atvinnulíf. Jafnframt opnast möguleikar til að semja við Evrópubandalagð um verslun með fisk og fiskafurðir.``
    Ef við seljum allan fisk veiddan í íslenskri landhelgi gegnum markaði hér á Íslandi þá er eðlilegt að útlendingar eigi þess kost að koma hingað og bjóða í fiskinn unninn eða óunninn. Með íslenskum fiskmörkuðum flytjum við milliliði sem nú starfa erlendis inn í landið. Verslun og viðskipti með fisk munu stóraukast hér, gjaldeyrir mun skila sér fyrr og betur inn í landið og margfalt fleiri munu hafa atvinnu sína af fiskvinnslu ýmiss konar og þjónustu við sjávarútveginn.
    Hér var fyrr í morgun rætt nokkuð um atvinnumál á landsbyggðinni og þá fábreytni sem í þeim ríkir og hvernig hún getur valdið því að ungt fólk hafi ekki þann áhuga á að koma til starfa á landsbyggðinni sem æskilegt væri. Með því að bjóða upp á fjölbreytni í atvinnumálum, í sjávarútvegi og bjóða upp á nýjungar sem ungt fólk hefur áhuga á og hefði áhuga á að nýta sína menntun til væri það vel og breytingar í sjávarútvegi eru ekki hvað minnsta atriðið í þeim efnum. Ef íslensk fiskvinnsla nær að sérhæfa sig og vinna ávallt í verðmætustu pakkningar og selur á þá markaði sem best gefa má ætla að til lengri tíma verði fiskverð á íslenskum mörkuðum engu lakara en það sem gerist best á þeim erlendu.
    Það liggur fyrir að Evrópubandalagsríkin vilja gjarnan að við höldum áfram að flytja þeim hráefni til vinnslu. Þau stýra því svo með sinni tollastefnu að hagkvæmara kann að vera að flytja fiskinn út ísvarinn í gámum, ómeðhöndlaðan, en að hann sé unninn fyrir neytendur hér á landi og síðan fluttur út. Þau eru, þ.e. Evrópubandalagsríkin, að sækjast eftir fiski en einnig

atvinnu fyrir sitt fólk. Við hljótum að stefna að því að komast sjálf sem næst neytandanum með þá vöru sem hann kýs hverju sinni og að þeir framleiðendur og milliliðir sem nauðsynlegir kunna að vera til þess séu á Íslandi. Þannig höldum við best forræði yfir þessari okkar mikilvægustu auðlind. Samningsstaða okkar við Evrópubandalagsríkin verður önnur þegar við höfum tekið ákvörðun um að selja allan fisk veiddan í okkar landhelgi í gegnum íslenska fiskmarkaði. Þá þurfa þeir að semja um leyfi til að versla á mörkuðunum og samningsstaða okkar varðandi niðurfellingu tolla batnar.
    Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur nú frv. til laga um stjórn fiskveiða. Sú tillaga sem ég mæli hér fyrir er óháð því að hvaða niðurstöðu Alþingi kemst í þeim efnum. Mín tillaga lýtur fyrst og fremst að þeim skipulagsramma sem við þurfum að hafa varðandi meðferð þess afla sem leyfilegt verður að taka í íslenskri landhelgi, að hann fari ekki óseldur úr landi og að breyta aðstöðu íslenskrar fiskvinnslu okkur öllum til hagsbóta.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu vænti ég að þessari tillögu verði vísað til atvmn. og til síðari umræðu.