Sala fisks í gegnum íslenska fiskmarkaði
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Hér er vissulega hreyft mikilsverðum málum, en þessi mál hafa verið rædd hér á hv. Alþingi fyrr. Þetta er ekki í fyrsta skiptið. Ég vil ekki taka undir það að hv. þm. hafi ekki áhuga á að ræða þessi mál, hvaða skoðunar sem þeir eru.
    Nú er það einu sinni svo að hv. þm. vita ekki alltaf hvaða mál verða til umræðu hverju sinni og röð riðlast --- röð riðlast, hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson --- án þess að ég sé neitt að afsaka fjarveru þingmanna. En varðandi þessi tvö mál: Auðvitað er það nauðsynlegt að menn ræði svo mikilvæg mál sem hér eru nú til umræðu. Ég hygg hins vegar að flutningur á þáltill. muni segja afskaplega lítið í þessum efnum.
    Ég er að vísu ekki búinn að vera á Alþingi nema líklega 17--18 ár og ég efast um að það séu margar þingsályktanir sem hafa náð framgangi á þessum tíma. Það er nú einu sinni svo, því miður, að framkvæmdarvaldið vill ekki lúta ákvörðunum löggjafarvaldsins. Og það er með þingsályktunartillögusamþykktir eins og nánast lagafrumvörp að framkvæmdarvaldið fer sínum málum fram sem því sýnist hvað sem löggjafarvaldið segir. Og þess vegna er enn þá brýnna að mál eins og hér eru til umræðu séu þó frekar flutt sem frv. til laga en að framkvæmdarvaldinu sé fengið það í hendur með þáltill. að fara frekar að sínum eigin hugmyndum en löggjafans.
    Ég ætla ekki að ræða sérstaklega efnislega um þetta nema örfá orð um fiskmarkaðina. Ekki hef ég á móti því nema síður sé að sjómenn geti fengið sem hæst verð fyrir sinn afla, en ástandið hjá okkur hefur a.m.k. verið þannig, það kann að breytast, að það verði unnt að koma fiskmörkuðum á sem víðast. Það er enginn vafi á því að fiskmarkaðurinn hér á höfuðborgarsvæðinu skilar sjómönnum sínu umfram það sem þeir hefðu fengið ella. En fiskmarkaðir hafa verið reyndir annars staðar líka og þar hefur verið gefist upp á
tiltölulega þokkalegu svæði eins og á Norðurlandi. Þar urðu menn að gefast upp. Og hvað þá með minni svæðin sem hafa miklu minni möguleika til markaðarins. Kannski finnst einhver lausn á því, að dreifa þessu miklu meira um landið en gert hefur verið, en enn sem komið er hef ég ekki heyrt neitt um það að slíkt væri fyrir hendi. Ef það er hins vegar fyrir hendi á auðvitað að koma fram með frumvörp til laga og á þann veg a.m.k. að reyna að skylda stjórnvöld, hæstv. ráðherra, sem mér heyrist hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson ekki hafa mikla trú á, sumum hverjum, til að framkvæma þá löggjöfina ef hún er þess virði að Alþingi vill samþykkja slíkt. Það er miklu meiri kvöð á framkvæmdarvaldið, þó að það bregðist oft, ef um frumvörp er að ræða sem gerð eru að lögum en þingsályktunartillögur sem í velflestum tilvikum eru lagðar til hliðar þó að þær séu samþykktar. Það er kannski þess vegna, án þess að ég vilji neitt fullyrða, sem þingmenn telja kannski ekki

nægilega langt gengið með flutningi á þáltill. í svo stórum málum sem hér um ræðir.
    Nú er það auðvitað í höndum stjórnvalda hverju sinni ef þau vilja beita sér fyrir slíkum málum. Það er auðvitað ekkert vandamál hjá núv. hæstv. ríkisstjórn að beita sér í þessum málum hafi hún vilja til þess. (Gripið fram í.) Það er auðvitað á verksviði hæstv. ráðherra að kanna vilja þingsins. Ekki hefur staðið á því í öðrum tilvikum en þessum og sem skipta miklu minna máli en þessi mál þannig að það er engin afsökun gagnvart hæstv. ráðherrum, hvorki í þessari ríkisstjórn né öðrum. Ef þeir hafa vilja í viðkomandi málum eiga þeir auðvitað að beita sér fyrir lausn á þeim. Og þáltill. af þessu tagi eru í mínum huga nánast vantraust á hæstv. ríkisstjórn. Á engan hátt hef ég á móti því, í þessu tilviki, því að bæði í þessum efnum og öðrum hefur hún ekki sýnt það sem menn vonuðust eftir að hún gerði og kannski verður þetta áminning til hæstv. ráðherra þegar einn af hv. stjórnarþingmönum flytur svona mál í þingsályktunartillöguformi hér inn á Alþingi sem staðgengill hæstv. ráðherra. Svona er nú málið einfalt.
    En aftur að fiskmörkuðunum. Það væri vonandi að hægt væri að finna þá leið þar sem þeir gætu verið betur gildandi á fleiri svæðum en nú er og skilað sjómönnum, og þá þjóðinni líka, meiri verðmætum en nú er. Og það er auðvitað illt við það að búa að nokkuð stór hluti sjómanna skuli vegna þessara misbresta í fiskmarkaðskerfi verða af verðmætum gagnvart fiskverði. Það eru margir sem búa við verðlagsráðsverðið sem er talsvert lægra en fiskmarkaðurinn gefur. Það er auðvitað spurning hversu lengi sjómenn líða það að þeim verði mismunað með þessum hætti, en þannig er dæmið í dag. Vonandi verður þetta hvetjandi fyrir hæstv. ríkisstjórn, áminning fyrir hana að standa betur í stykkinu og gera betur í þessum stórmálum og taka þá undir kröfu þeirra sjómanna sem hafa sent hv. flm. erindi þess efnis að þeir telji þetta nauðsynjamál. Ég tek undir að svo er, en við skulum þá knýja á hæstv. ríkisstjórn, að hún geri eitthvað í málinu því að það er auðvitað hennar, fyrst og fremst. Ég tala nú ekki um ef vilji Alþingis kemur fram með samþykkt svona mála. Þá er auðvitað hennar að láta málið ná fram að ganga. Á því hefur
hins vegar orðið mikill misbrestur, bæði hjá núv. hæstv. ríkisstjórn, svo og mörgum öðrum.