Flm. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 596, um könnun á stofnun alþjóðlegrar björgunarsveitar, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Jóhann Einvarðsson og Guðni Ágústsson.
    Tillgr. hljóðar á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna möguleika á stofnun alþjóðlegrar björgunarsveitar með aðsetri á Íslandi sem sinni björgunarmálum á Norður-Atlantshafi. Leitað verði samstarfs við þær þjóðir sem mestra hagsmuna hafa að gæta á þessu sviði.``
    Það þarf ekki að orðlengja það að mikilvægt er fyrir eyþjóð eins og Íslendinga sem á allt sitt undir fiskveiðum og samgöngum að sinna björgunarmálum á sjó sem allra best. Það er reyndar mikill áhugi á þessum málum hér á landi eins og sjá má af þeim umræðum og þeim söfnunum sem farið hafa í gang, m.a. til þyrlukaupa. Tilgangurinn með þessum tillöguflutningi er að nálgast þetta mál frá eilítið annarri hlið og reyna að hrinda því af stað að kannaðir verði möguleikar í þessum málum sem ekki hefur verið gefinn gaumur til þessa. Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir þennan mikla áhuga landsmanna hafa stjórnvöld ekki treyst sér til að ráðast í kaup á fullkominni björgunarþyrlu enn. Eins og segir í grg. með tillögunni er mjög aðkallandi að bæta þann tækjakost sem tiltækur er hér til björgunarstarfa á
Norður-Atlantshafi og koma skipulagi á þau mál til frambúðar. Vegna legu Íslands á miðju hafsvæðinu á milli Evrópu og Ameríku gegna björgunarsveitir hér á landi lykilhlutverki þegar slys verða á eða yfir þessu hafsvæði.
    Landhelgisgæslan gegnir meginhlutverki í björgun á hafsvæðinu umhverfis Ísland og vél Flugmálastjórnar hefur veitt mikilvæga flugleiðsögu í lofti einkum þegar litlar flugvélar lenda í erfiðleikum í ferjuflugi en leið þeirra liggur um Ísland þegar flogið er yfir Norður-Atlantshaf. Þá er ótalinn hinn mikli þáttur björgunaraðila hér, eins og Slysavarnafélags Íslands, Hjálparsveitar skáta, Flugbjörgunarsveitarinnar og annarra frjálsra samtaka sem sinna þessum málum. Ekki skal lítið úr honum gert og þessir aðilar hafa unnið ómetanlegt starf í þessu efni.
    Þá er ótalinn þáttur varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sem veitt hefur afar mikilvæga aðstoð með þyrlum sem það hefur yfir að ráða ásamt tankvél sem er forsenda þess að hægt sé að athafna sig á þyrlum langt á hafi úti. Þó mjög oft hafi björgun tekist farsællega við Ísland og unnið hafi verið afar gott starf á þessu sviði er tækjakostur og skipulag þessara mála annmörkum háð. Þyrlur verða æ mikilvægari á þessu sviði þó að ekki megi gleyma góðum skipakosti. Þyrlur Landhelgisgæslunnar og varnarliðsins eru allar á suðvesturhorni landsins og lengir það mjög viðbragðstíma ef slys verða á hafsvæðunum fyrir norðan og austan land.
    Þá má og geta þess að þyrlur eru mjög oft ekki til taks vegna bilana og eftirlits. Mönnum er í fersku

minni dæmi um staðsetningu þegar fyrir nokkrum árum fórst flutningaskip fyrir austan land við Skrúð í Fáskrúðsfirði. Það er ljóst að ef þyrla hefði þá verið staðsett t.d. á Austurlandi með greitt og hindrunarlaust flug til hafs hefði það getað skipt sköpum í þessu ákveðna tilfelli vegna viðbragðsflýtisins, en oft er það mjög annmörkum háð að fljúga á þyrlum yfir hálendið í misjöfnum veðrum og ísingu.
    Það er því ljóst að ef auka ætti öryggið í björgunarmálum á Norður-Atlantshafi þyrfti að staðsetja þyrlur víðar en á suðvesturhorninu, t.d. á Vestfjörðum og Austfjörðum, en það er ljóst að slíkt er mjög kostnaðarsamt og langur tími gæti liðið þangað til Íslendingar einir risu undir slíkri þyrluútgerð.
    Ég minntist á það í upphafi að enn, þrátt fyrir mikinn áhuga og mjög brýna þörf, hefur fjárveitingavaldið ekki treyst sér til að veita fé til kaupa á einni fullkominni björgunarþyrlu. Það hefur verið mikil umræða um kaup á henni, enda er mikið í húfi. Hér er um mjög háar upphæðir að ræða og stofnkostnaður á einu slíku tæki er upp á 750--900 millj. kr. auk reksturs. Leiga fyrir slíkt tæki mundi nema um 100 millj. kr. árlega. Þessar tölur hafa komið fram nýlega í umræðum og svörum við fyrirspurnum hér á Alþingi. En mergurinn málsins er að jafnvel þótt af slíkum kaupum yrði nægja þau ekki að fullu til að mæta þeirri þörf sem fyrir er í þessum efnum.
    Í hafréttarsáttmálanum frá 1958 er kveðið á um skyldur strandríkja varðandi björgunarmál og segir þar svo, með leyfi forseta:
    ,,Sérhvert strandríki skal stuðla að stofnun, rekstri og viðhaldi fullnægjandi og virkrar leitar- og björgunarþjónustu vegna öryggis á og yfir hafinu og skal ef aðstæður krefja hafa samstarf við nágrannaríkin um sameiginlegar svæðisráðstafanir í þessu skyni.``
    Íslenska Landhelgisgæslan hefur samstarf við danska sjóherinn um björgunarmál á hafsvæðinu við Grænland og Færeyjar, en eins og áður segir hefur björgunarsveit varnarliðsins gegnt mikilvægu hlutverki í björgun á hafinu og hefur samstarf nú orðið við Landhelgisgæsluna varðandi yfirstjórn.
    Alþjóðahyggja fer nú vaxandi og samstarf þjóða vex um hin ýmsu málefni. Það er skriður á umræðum um afvopnun í Evrópu og sá tími er e.t.v. skammt undan að tækjum og mannafla sem hingað til hefur verið beitt í varnarskyni verði í auknum mæli hægt að beita að borgaralegum verkefnum og þá eru öryggismál mjög nærtækt verkefni. Það er því fullkomlega tímabært að kanna hvort ekki sé lag til þess að gera Ísland að miðstöð björgunarmála á Norður-Atlantshafi eins og lega landsins er ákjósanleg til.
    Spyrja má: Hvaða ástæður eru fyrir þessum tillöguflutningi nú? Og spyrja má einnig hvaða líkur séu til að nágrannaþjóðir okkar vilji leggja fé til þessara mála. Þess má geta í þessu sambandi að nágrannaþjóðirnar, og vil ég þar fyrst nefna

samstarfsþjóðir okkar í NATO, hafa mikilla hagsmuna að gæta á þessu svæði. Hagsmunir Norðmanna og Dana eru miklir á þessum slóðum, auk Breta, og það mun í framtíðinni, hvernig sem mál þróast, verða rekið eftirlit hér á Norður-Atlantshafssvæðinu. Því er ástæða til að ætla að nágrannaþjóðir okkar muni huga að þessum málum í fullkominni alvöru ef eftir því væri leitað og Íslendingar hefðu frumkvæði um slíkt.
    Ég geri ekki tilraun til þess nú á þessu stigi að leiða getum að því hverjar lyktir slík athugun fengi. Till. er flutt til að koma af stað umræðum um þetta mikla mál og að þær umræður og samþykkt hennar, ef samþykkt verður á Alþingi, gefi ríkisstjórninni nauðsynlegan bakstuðning Alþingis til að hafa frumkvæðið í þessu máli.
    Það er nauðsynlegt, nú þegar till. fer til nefndar, að hún verði send til umsagnar þeirra aðila sem hafa sinnt björgunarmálum hérlendis og þeirra sem hafa haft samskipti við erlenda björgunaraðila og þar með talið varnarliðið. Ýmsa þessara aðila hef ég nefnt í grg. till. Sú athugun sem hér um ræðir er nauðsynlegur þáttur í framtíðarstefnumörkun á því sviði hver staða björgunarmála á að vera hér á komandi árum.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.