Flm. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir góðar undirtektir við þessa tillögugerð. Ég tek undir það sem hann sagði um eflingu Landhelgisgæslunnar, og ég er þeirrar skoðunar að við megum ekki gleyma henni og verðum að halda vöku okkar í þeim efnum.
    Hins vegar var þessi tillögugerð hugsuð út frá sjónarmiðum öryggismála og ég legg áherslu á þann þáttinn. Ég held að skynsamlegt sé að leita samkomulags og leita fulltingis nágrannanna við að tryggja öryggi umferðar og sæfarenda hér á Norður-Atlantshafssvæðinu sem er nú ekkert smáhafflæmi eins og allir hv. þm. vita.
    Ég fagna því að undirtektir hans við þessa tillögu eru góðar og ég vona og satt að segja veit að aðrir hv. þm. hugsa mikið um þessi mál og ég ætla engum það að vilja ekki gera ráðstafanir í þessum efnum sem duga. Eins og ég sagði áðan í framsögu fyrir tillögunni er hér hins vegar um afar mikinn kostnað að ræða, kostnað sem stjórnvöld og fjárveitingavald hafa ekki treyst sér til að leggja út í enn sem komið er þrátt fyrir mjög brýna nauðsyn á úrbótum í þessu efni.