Könnun á endurnýtanlegum pappír
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir efni þeirrar tillögu sem hér er flutt og þarf enginn að vera undrandi á því. Eins og fram kom í máli hv. flm. fluttu þingkonur Kvennalistans tillögu á 110. löggjafarþingi um svipað efni. Að vísu var sú tillaga víðtækari.
    Eins og menn vita hefur það færst mjög í vöxt að kanna möguleika á endurvinnsluiðnaði en allt of lítið hefur verið gert af því hér á landi. Það hefur verið talið of dýrt en ég held að kanna þurfi það mál miklu frekar og í miklu víðara samhengi en gert hefur verið hingað til. Þegar talað er um hvað borgi sig og hvað borgi sig ekki í þessum efnum þá verðum við að sjálfsögðu að taka tillit til þess að auðlindirnar eru takmarkaðar og við getum ekki endalaust gengið á þær. Það má geta þess hér til upplýsinga að til framleiðslu á einu tonni af pappír þarf fimm tonn af viði.
    Hér á landi fellur til mjög mikið af pappír og nú þegar eru fyrirtæki sem nýta pappír þó það sé í allt of litlum mæli. Í Garðabæ er t.d. fyrirtæki sem framleiðir eggjabakka svo það eru þó til fyrirtæki sem reyna þetta. Við höfum ekki farið út í framleiðslu á endurunnum pappír en Kassagerð Reykjavíkur hefur flutt út heilmikið af pappír til endurvinnslu erlendis en frekari endurvinnsla á pappír hefur ekki verið reynd hér á landi.
    Ef við tökum dagblaðapappír þá er miðað við að 5--6 þús. tonn falli til árlega og bara símaskráin er um 170 tonn, svo að það er mikið af pappír sem við gætum endurunnið. En að sjálfsögðu þarf að kanna fleiri möguleika á endurvinnslu, ekki eingöngu á pappír heldur fara í frekari könnun á því hvað við getum gert. Ég veit t.d. að mjög mikið fellur til af timbri sem fer á ruslahaugana bara hér í Gufunesi. Og ég veit að athugaðir hafa verið möguleikar á að verksmiðjan á Grundartanga nýti hluta af því timbri sem þangað fer þó ég viti ekki nákvæmlega hvar það mál stendur núna. Það hefur sem sagt örlítið verið reynt að athuga þessi mál. Ég vil endurtaka að ég lýsi stuðningi mínum við þessa till.