Könnun á endurnýtanlegum pappír
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að hér er á ferðinni mjög þarft og gott mál. En það fór fyrir mér eins og hv. 3. þm. Vesturl., það hvarflaði að mér að kannski væri meiri þörf á því og brýnni að taka strax til hendi en að bíða eftir slíkri könnun, þó hún sé að sjálfsögðu af hinu góða. Eins og hér kom fram í máli hv. 3. þm. Vesturl. höfum við hér á borðunum dæmi um það pappírsflóð sem rignir yfir okkur og ekki síst hér á hv. Alþingi. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér rennur oft til rifja þegar maður þarf að fleygja í ruslakörfurnar hér næstum daglega prentuðu máli á fallegum pappír, prentuðu máli sem okkur berst, því það eru ekki nokkur tök á að geyma og safna saman öllu því sem rignir yfir okkur. Þó þar sé að sjálfsögðu oft og kannski oftast nær margt gott í því prentaða máli sem okkur berst er útilokað fyrir okkur þingmenn að geyma það allt. Ég er áreiðanlega ekki ein um að hafa þurft að taka hvern sekkinn af öðrum og láta fjarlægja úr skrifstofu minni til þess að ég kæmist þar sjálf inn, því það er ekki hægt að safna öllum þeim pappír eða því prentaða máli sem berst til okkar.
    Þess vegna vil ég taka undir efni till. og ég held það sé mjög brýnt. Og ég vil beina því til hæstv. forseta, að það væri gott að byrja hér á Alþingi og athuga hvort ekki væri hægt, ef það hefur ekki nú þegar verið gert, að gera ráðstafanir til að safna saman þeim pappír sem fleygt er héðan úr húsinu svo hann geti farið í endurnýtingu.
    Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum var rætt um það hér innan Alþingis að pappír sem héðan væri fleygt yrði látinn fara í slíka endurnýtingu. Vel má vera að svo sé og væri það af hinu góða.
    En ég vildi fyrst og fremst taka undir þýðingu þessa máls. Það er nauðsynlegt að endurnýta þann pappír sem fer í súginn og ég held að það sé ekki síður brýnt að taka strax ákvörðun um að slíkt verði gert, samhliða því þó að könnun á magni fari fram.