Reglur um stjórnir peningastofnana
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli flm. þessarar þáltill. á því að bankamál og flestar peningastofnanir heyra undir ráðherra viðskiptamála. Það ætti því fyrst og fremst að vera hans verk að vinna að endurskoðun laga um það efni sem hér er fitjað upp á. Mig langar líka til að minna á að sá viðskrh. sem hér stendur hafði á síðasta þingi frumkvæði um setningu nýrra lagaákvæða um sérstakt hæfi eða vanhæfi bankaráðsmanna þegar fjallað er um mál sem þeir eiga hagsmuna í að gæta, en þetta er viðbótin við 33. gr. viðskiptabankalaganna sem vitnað er til í greinargerð með þessari þáltill. Þar er fjallað um það sem kallað er sérstakt hæfi eða sérstakt vanhæfi.
    Varðandi ákvæði um almennt vanhæfi eru í greinargerð með þessari þáltill. birtar nokkrar álitsgerðir um málið og tilefni tillögunnar sem eru þær umræður sem spunnust vegna vals fulltrúa Kvennalistans, Kristínar Sigurðardóttur, í bankaráð Landsbankans. Á það má benda að auðvitað hlýtur hver sá sem fyrir fram getur séð að oft muni verða um sérstakt vanhæfi að ræða ef einhver er valinn til trúnaðarstarfs eins og setu í bankaráði að hugleiða hvort samanlagt vongildi fyrirsjáanlegs vanhæfis geti ekki valdið almennu vanhæfi. Um þetta er ekki auðvelt eða jafnvel ekki mögulegt og kannski ekki heldur nauðsynlegt að setja almennar lagareglur. Eins og hv. flm. þessarar þáltill., 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir, nefndi munu lagaákvæðin ein aldrei geta skorið úr öllum vafaatriðum. Það verður að treysta á dómgreind og siðgæðisvitund þeirra sem velja menn til trúnaðarstarfa þegar um opinberar stofnanir er að ræða.
    Ég er sammála flm. um að það sé vissulega athugunarvert hvort gera eigi lagabreytingar varðandi almennt vanhæfi í stjórnsýslustörfum. Mér finnst að þá þurfi að gæta samræmis við ákvæði væntanlegs frv. til almennra stjórnsýslulaga en nú mun vera unnið að samningu slíks frv. Þar held ég að menn eigi að leiða vandlega hugann að þessum viðfangsefnum. Mér er til efs að sú nefndarskipun sem hér er gerð tillaga um sé nauðsynleg þótt ég vilji alls ekki leggjast gegn henni. Ég tel að vísu eðlilegra miðað við það verksvið sem henni er ætlað að það væri viðskrh. sem skipaði hana fremur en forsrh. en það er ekki það sem mestu skiptir í málinu. Ég vildi leyfa mér að vekja athygli flm. á því að þegar lagabreytingin um sérstakt vanhæfi bankaráðsmanna var gerð var nokkuð um þetta mál rætt og ég hef látið lögfræðinga, sem vel eru að sér í bankarétti, m.a. starfsmenn bankaeftirlitsins, kanna vandlega hvaða leiðir séu farnar í þessu efni í nálægum löndum. Niðurstaða þeirra varð sú, og ég er þeim sammála um það, að örðugt sé að setja almennar vanhæfisreglur af því tagi sem mér finnst að vaki í máli flm. Þetta er ekki sagt af því að menn vilji loka augunum fyrir hættum á hagsmunaárekstrum, heldur liggur það einfaldlega í eðli máls. Og þar kem ég að því að það þurfa að vera

í öllum lögum eins og þessum skýr ákvæði um sérstakt vanhæfi. Úr þeim ágalla bankalaganna hefur verið bætt. Ég er reiðubúinn að líta á það hvort þar megi bæta um betur en bendi á það sem hv. flm., 12. þm. Reykv., réttilega nefndi að ekki verður allt fest í lög en hins vegar er stefna og andi laganna þá ljós orðinn með þeim breytingum sem á þeim hafa verið gerðar.
    Ég vil líka taka skýrt fram að þær umræður sem spunnust vegna vals Kristínar Sigurðardóttur í bankaráð Landsbankans hafa verið mjög þarflegar og þær hafa leitt athygli manna að mikilvægum málum sem ekki hefur alltaf verið nægilega vel gætt. Þær umræður munu vafalaust stuðla að breyttum vinnubrögðum við val í stjórnir peningastofnana. Ég vil líka taka skýrt fram að ég tel að Kristín Sigurðardóttir sérstaklega og Kvennalistinn eigi heiður skilinn fyrir það hvernig þær leystu þann vanda sem reis vegna setu Kristínar í bankaráði Landsbankans.
    Ég kem þá að því sem kom fram í máli hv. flm. og var þar vitnað til ágætrar greinar eftir Sigríði Lillýju Baldursdóttur um það sem hún kallar lögbundna hagsmunaárekstra. Þar er líka hreyft mjög þörfu máli og þau dæmi sem þar eru til tínd og reyndar endurtekin hér af hv. 12. þm. Reykv. eru einkum á sviði fjárfestingarlánasjóðanna. Ég tel brýna þörf á því að setja almenna löggjöf um fjárfestingarlánasjóðina líkt og gildir um viðskiptabankana. E.t.v. væri eðlilegast að almenn lagaákvæði um fjárfestingarlánasjóði væru kafli í viðskiptabankalögunum þannig að nýta mætti allar almennar reglur þeirra laga, þar með um hæfi og vanhæfi, þar með eftirlit, skýrslugjöf og annað um upplýsingaskyldu sem eðlilegast er að hafa á sem fæstum stöðum í löggjöfinni, enda eru fjárfestingarlánasjóðirnir ekki annað en bankar sem að vísu veita sín lán yfirleitt til lengri tíma en viðskiptabankarnir.
    Þessar mikilvægu stofnanir á íslenska fjármagnsmarkaðinum hafa reyndar fengið að þróast án þess að settar væru almennar reglur um starfsemi þeirra. Eins og margt í okkar löggjöf eru þetta svona smáskrefaviðbætur sem verða til í tímans rás og það skortir á um almennar reglur um þeirra starfsemi og, þar kem ég að máli hv. flm., um tengsl þeirra við almenna fjármálastarfsemi, m.a.
við viðskiptabankana. Á vegum viðskiptaráðuneytis er unnið að samningu frv. um þetta efni og þar er m.a. hugað að þeim málum sem hv. flm. nefndi, hvernig skipað er í stjórnir þessara lánasjóða. Það er náttúrlega mörgum kunnugt að fjárfestingarlánasjóðirnir uxu fram sem viðbragð við neikvæðum raunvöxtum og rýrnun allra peningalegra eigna í landinu um margra áratuga skeið. Þá reyndi hver atvinnugrein að komast að þessari uppsprettu niðurgreiðslna á stofnfé atvinnuvega með því að stofna sinn eigin sjóð, stofna sinn eigin banka og raða sér þannig á jötuna hjá öllum sparifjáreigendum í landinu. Þetta er liðin tíð og forsendur fyrir starfsemi þessara sjóða aðrar. Ég tel að þetta þurfi þess vegna mjög rækilegrar skoðunar við

og það þurfi að rjúfa tengslin við sérhagsmunina sem hafa fengið að ráða of miklu. Ég vildi leyfa mér að lýsa yfir þeirri von minni að tímaskeið sérréttinda og sérhagsmuna á þessu sviði í okkar þjóðarbúskap sé nú á enda runnið.