Reglur um stjórnir peningastofnana
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Fyrst vildi ég, vegna orða hv. 18. þm. Reykv., segja alveg skýrt, sem ég hef greinilega ekki gert nógu skýrt áðan, að ég kann því alls ekki illa að vera viðstaddur eða taka þátt í þessari umræðu. Þvert á móti fagna ég því og vildi láta það koma fram að ég held að þetta sé í þriðja sinn sem ég mæti sérstaklega til að taka þátt í henni. Af ýmsum ástæðum hefur hún ekki farið fram fyrr. Þannig að ég hlýt að hafa talað mjög óljóst því ég tel reyndar rétt, eins og ég lét koma fram, að málið heyri fyrst og fremst undir viðskrh. og þess vegna ekki þörf á þeim ágætu ráðherrum öðrum sem þið gjarnan vilduð hafa hér með okkur þess vegna. En auðvitað er alveg rétt að af því málið varðar almenn stjórnsýslulög væri það kostur að forsrh. kynnti sér það og tæki þátt í því.
    Ég held að ekki þurfi að bæta miklu við þetta sem hér hefur fram komið og kom hér áðan, að menn verða að gera sér þetta ljóst að almennt hæfi eða vanhæfi er samlagning sérstaks hæfis eða vanhæfis í einstökum málum sem fyrir kann að bera. Það er af ýmsum ástæðum stundum ekki unnt að setja fyrir fram almennar hæfisreglur þegar um er að tefla stjórnvöld eins og stjórnir eða ráð í stofnunum sem sýsla með peninga. Þar kemur margt til en þar á að treysta á, eins og hv. 12. þm. Reykv. sagði réttilega, siðgæðisvitund og dómgreind þeirra sem velja menn til slíkra starfa í ljósi sérstakra hæfisskilyrða sem uppfylla þarf. Þetta er einfaldlega af því að það er ekki hægt að setja almennar lagareglur um alla hluti. Nú held ég því alls ekki fram að þær reglur sem eru í íslenskum lögum um þetta efni þarfnist ekki endurskoðunar, þvert á móti er ég sammála flm. um að það þurfi vandlega yfirferð yfir þau öll.
    Það er rétt að í lögunum um bankana eru almennar hæfisreglur fyrir þá sem eru fastir starfsmenn þessara stofnana, bankastjórana og aðra, það er eins og vera ber, það er líka unnt að setja þær. Það er erfiðara með bankaráðsmennina
eins og fram hefur komið og ekki endilega víst að það sé lögunum að kenna þótt lögfræðingunum beri ekki saman. Það er einfaldlega þannig að það eru erfiðu dæmin sem leiða í ljós takmarkanir löggjafarinnar. Það er nú það.
    Með þessu er ég ekki að halda neina afsökunarræðu fyrir íslenska löggjöf um þessi efni, það þarf svo sannarlega að huga að henni og er reyndar á stefnuskrá míns flokks og hefur lengi verið að setja almenn stjórnsýslulög þar sem skýrt verði girt fyrir hagsmunaárekstra eftir því sem það verður gert með lögum. Þess vegna tel ég brýnt að stjórnsýslulaganefndin ljúki sínu starfi og skili frv.
    Vegna þess sem fram kom hér hjá hv. 18. þm. Reykv. um svar mitt á þskj. 550 um stjórnir í peningastofnunum er það vissulega rétt hjá hv. þm. að svarið er ófullkomið. Það reyndist torvelt að fá í fljótu bragði svör frá stofnunum sem gæfu svör við spurningum um aukastörf. Viðskrn. ákvað að skila svarinu sem næst tilskildum tíma til þess að ekki

drægist úr hömlu en vel má freista þess að fá ítarlegri svör og ég get fullvissað hv. 18. þm. Reykv. og fyrirspyrjanda í þessu tilfelli, að þar er ekki vísvitandi verið að halda neinum upplýsingum frá þinginu, þvert á móti teldi ég æskilegt að betri upplýsingar verði gefnar um þetta í framtíðinni.
    Síðan kem ég að því sem kom fram í síðari ræðu hv. 1. flm., 12. þm. Reykv., og ég vildi upplýsa að sú frumvarpssamning sem nú er í gangi í viðskrn. um fjárfestingarlánasjóðina er ekki viðbragð við annars ágætum málflutningi Kvennalistans í þessu máli. Frumvarpssmíðin hafði að sjálfsögðu hafist fyrr og er reyndar á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar eins og sjá má af hennar málefnasamningi. Og sú almenna endurskoðun á lagaákvæðum um fjárfestingarlánasjóði mun ekki eingöngu fjalla um skipun í stjórnir þeirra en hún mun að mínu áliti gefa kærkomið tækifæri til þess að lagfæra ýmsa þá galla sem hv. 18. þm. Reykv. og hv. 12. þm. Reykv. og Sigríður Lillý Baldursdóttir, varaþingmaður Kvennalistans, hafa bent á. Þess vegna er mjög heppilegt að þessi umræða verður nú einmitt þannig að við fáum þar leiðsögn í málinu.