Meðferð mála á Alþingi
Fimmtudaginn 15. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Minnstu munaði að þetta mál fengi ekki þinglega meðferð í þetta sinn vegna þess hve seinn ég er í pontu. Á ég að doka við með að hefja mál mitt meðan þingsalurinn tæmist eða á að ég hefja málflutninginn strax? --- Hv. alþm. Skúli Alexandersson er kominn í salinn þannig að mér er ekkert að vanbúnaði að byrja.
    Ég mæli hér fyrir till. til þál. um þinglega meðferð allra mála á Alþingi. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að öll þingmál, sem lögð eru fram á yfirstandandi þingi fyrir 10. apríl 1990, skuli fá þinglega meðferð og sæta lokaafgreiðslu í þingsölum fyrir þinglausnir í vor.``
    Ég ætla að lesa grg. eins og hún kemur fyrir í heild sinni, með leyfi forseta:
    ,,Hvers vegna er alþingismönnum gefinn kostur á að leggja fram þingmál sem sæta aldrei lokaafgreiðslu á Alþingi? Hvers vegna er alþingismönnum gefinn kostur á að leggja fram þingmál sem verða ekki rædd í nefndum Alþingis? Hvers vegna er alþingismönnum gefinn kostur á að leggja fram þingmál sem ekki er einu sinni tími til að mæla fyrir á Alþingi? Hvers vegna?
    Alþingi er löggjafarþing og hlutverk þess er að setja íslensku þjóðinni lög. Alþingi lýsir líka vilja sínum með ályktunum sem eru bindandi fyrir þingið og aðra valdhafa í landinu. Alþingi er málstofa fyrir umræður og fyrirspurnir.
Þingheimur er kallaður saman til þessara verka og önnur verk alþingismanna eru því hjáverk. Alþingismenn fá greitt þingfararkaup fyrir setu í þingsölum og störf í þingnefndum. Þetta er hlutverk Alþingis og alþingismanna.
    Alþingismenn gegna líka ýmsum öðrum trúnaði á vegum þingsins. Ráðherrar eru oftast valdir úr hópi alþingismanna og þingmenn sitja einnig í fjölþjóðanefndum á borð við Norðurlandaráð og önnur þingmannasamtök. Ýmis annar trúnaður er alþingismönnum fenginn. Þessi trúnaðarstörf þingmanna eru hins vegar öll hjáverk og mega því ekki hafa áhrif á hlutverk Alþingis.
    Þinghald er með styttra móti í vetur vegna kosninga til sveitarstjórna í vor og þinglausnir verða 27. apríl samkvæmt starfsáætlun. Jólafrí alþingismanna var rúmar fjórar vikur og þinghlé stóð í heila viku vegna fundar Norðurlandaráðs í Reykjavík. Önnur vika fellur úr þinghaldi í aprílmánuði vegna páskahelgarinnar og fundir hafa fallið niður á Alþingi af öðrum ástæðum í nokkra daga, þar á meðal vegna skorts á verkefnum í þingbyrjun.
    Þá hafa þingmál verið tekin af dagskrá Alþingis þegar ráðherrar viðkomandi málaflokka hafa ekki séð sér fært að hlýða á málflutning alþingismanna og taka þátt í umræðum.
    Kosningar til sveitarstjórna eru ekki verkefni alþingismanna frekar en kosningar til Alþingis eru verkefni sveitarstjórnarmanna. Þess vegna á ekki að flýta þinglausnum fyrir þær sakir. Fjögurra vikna

jólafrí er nokkuð rífleg hvíld á milli funda, jafnvel þó alþingismenn noti tímann vel til að sækja heim kjósendur sína í kjördæmum og boða til funda um landið. Sumarleyfi Alþingis er bæði langt og gott og þá gefst þingmönnum nógur tími til að sinna kjósendum heima í héraði.
    Alþingismenn geta vel setið norræn þing og aðra mannfagnaði án þess að þinghald falli niður dögum saman. Hver alþingismaður hefur að baki sér varamann og nauðsynlegt er að varaþingmenn taki meiri þátt í störfum þingsins. Skipuleggja má annað félagslíf alþingismanna með hliðsjón af þinghaldi vetrarins svo að hjáverk þingmanna slíti ekki í sundur dagskrá Alþingis yfir þingtímann.
    Það er vel hægt að flytja mál á Alþingi án þess að ráðherra sitji í þingsalnum. Það ætti að nægja að formaður viðkomandi þingnefndar fylgist með málflutningnum hverju sinni. Öðru máli gildir þegar ráðherrar fylgja úr hlaði stjórnarfrumvörpum. Þá þurfa þeir að taka sjálfir þátt í umræðum sem fylgja.`` ( SkA: Það eru fjórar konur búnar að stela senunni alveg hreint í sambandi við þetta.) Hv. alþm. Skúli Alexandersson hefur bent á að það hefur verið framið stílbrot í salnum og það eru fjórar konur sem fylgjast með umræðunum í staðinn fyrir Skúla einan eins og venjulega og sú fimmta með hæstv. forseta og hv. alþm. Skúli Alexandersson kveður. Ég tek nú til óspilltra málanna við að tala um þinglega meðferð mála.
    ,,Flutningsmaður þessarar tillögu hefur talað fyrir mörgum þingmálum án þess að ráðherrar viðkomandi málaflokka hafi heiðrað hann með nærveru sinni í þingsal, enda kemur það ekki að sök. Flutningsmaður telur að málflutningur alþingismanna eigi fyrst og fremst erindi við íslensku þjóðina og aðra þingmenn. Tíma ráðherranna er betur varið í ráðuneytunum.
    Alþingismenn mega leggja fram ný þingmál á þessu þingi fram til 10. apríl í vor. Frá þeim degi og til þinglausna er þó aðeins einn fundur í sameinuðu þingi á dagskrá og fjórir þingdagar í deildum, sjá fylgiskjal. Þannig er ljóst að ekki gefst tími til að fylgja seint fram komnum málum úr hlaði og tala fyrir þeim á þingfundum, hvað þá að ræða þau í nefndum Alþingis og leita álits
og umsagna hjá fólki utan þingsins og ljúka málflutningi með lokaafgreiðslu í þingsölum. Sama má segja um þingmál sem lögð voru fram fyrr í vetur og jafnvel snemma á haustþingi. Mörg þingmál liggja enn óhreyfð í þingnefndum og sum hafa ekki enn þá verið tekin á dagskrá til umræðu.
    Samkvæmt yfirliti um stöðu þingmála frá 9. mars 1990 bíður nú eitt stjórnarfrumvarp framhaldsumræðu í efri deild og þrettán eru komin til nefnda. Átta stjórnarfrumvörp bíða umræðu í neðri deild og sjö eru komin þar til nefnda. Tólf þingmannafrumvörp eru í nefndum efri deildar og tvö frumvörp bíða þar umræðu. Tuttugu og átta þingmannafrumvörp eru hins vegar komin til þingnefnda í neðri deild og átta frumvörp bíða umræðu. Fjáraukalög fyrir árið 1988 bíða afgreiðslu til nefndar í sameinuðu þingi og

fjáraukalög fyrir árið 1990 bíða þar fyrstu umræðu.
    Af sextíu stjórnarfrumvörpum er búið að afgreiða tuttugu og níu sem lög frá Alþingi. Fimmtíu þingmannafrumvörp hafa hins vegar ekki verið afgreidd. Átta munnlegum fyrirspurnum er ósvarað og tuttugu og þremur skriflegum en sumar þeirra eru síðan á miðju haustþingi.
    Fjórtán þingsályktunartillögur frá alþingismönnum bíða umræðu í sameinuðu alþingi en sextíu og þrjár tillögur eru í þingnefndum. Ein var felld, en fjórar hafa verið samþykktar. Fram að þinglausnum eru fjórtán almennir þingfundir í deildum Alþingis og átta þingfundir í sameinuðu þingi samkvæmt áætlun. Þannig er alveg ljóst að fjöldi þingmála mun á því Alþingi sem nú situr aldrei fá svokallaða þinglega meðferð: Að vera borið upp til atkvæða í þingsalnum.``
    Þetta þingmál sem ég núna fylgi úr hlaði er hins vegar gleðileg tilbreyting því að það er flutt, það er talað fyrir því núna í sömu vikunni og það er lagt fram. Þetta er mjög til bóta og ég tel ástæðu til þess að óska forseta þingsins til hamingju með hvernig mál virðast nú vera komin á skrið og vonandi tekst okkur að ná því markmiði sem þessi tillaga lýtur að.
    ,,Andinn á bak við þingræðið er að Alþingi ráði málum til lykta með lögum. Þannig tryggir þjóðin lýðræðið sem Íslendingar hafa kosið í landi sínu og skipta í þrjá þætti: Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þingheimur velur sér svo ráðherra til að stjórna ríkinu í umboði Alþingis og framkvæma vilja þingsins. Alþingi er hin raunverulga valdastofnun fólksins í landinu og alþingismaðurinn er þar hornsteinn. Þetta er kjarni málsins.
    Nú stendur yfir 112. löggjafarþing íslensku þjóðarinnar og liðin eru 1059 ár frá stofnun Alþingis. Fyrsti ráðherrann tók hins vegar við embætti á Íslandi fyrir áttatíu og sex árum og fyrsta ríkisstjórnin fyrir sjötíu og þremur árum. Þannig er Alþingi miklu eldri stofnun en bæði ráðherrar og ríkisstjórnir. Alþingi getur vel stjórnað án ráðherra en ráðherrar ekki án Alþingis. Löggjafarvaldið er æðra en framkvæmdarvaldið. Þetta er andi þingræðis og honum mega alþingismenn aldrei glata.
    En framkvæmdarvaldið hefur því miður vaxið stöðugt í þjóðfélaginu á kostnað Alþingis, bæði í höndum ráðherra í ríkisstjórnum og eins hafa þingmenn löngum seilst í stærri hluta af framkvæmdarvaldinu fyrir sjálfa sig. Þannig hafa alþingismenn ekki staðið vörð um Alþingi sem löggjafarþing og afhenda sífellt stærri hluta af valdi þingsins umboðsmönnum sínum í ríkisstjórnum. Fyrir bragðið er komin slagsíða á löggjafann.
    Hér skal nefnt dæmi um undanhald alþingismanna fyrir fulltrúum sínum á ráðherrastóli: Þingmál ríkisstjórnarinnar ganga sífellt fyrir þingmálum einstakra alþingismanna á dagskrá Alþingis. Alþingismenn eru kallaðir til aukafunda svo að ríkisstjórnarmál fáist afgreidd og iðulega er brugðið út af eðlilegri meðferð mála til að svo megi verða. Þingmenn stjórnarflokka eru líka boðaðir sérstaklega

í þingsali þegar þingmál ríkisstjórnar eru borin undir atkvæði.
    Þingmál alþingismanna hljóta að öllu jöfnu ekki svo röska afgreiðslu á Alþingi. Þau sitja jafnan á hakanum þegar þingmál ríkisstjórna hafa forgang. Þingheimur er ekki kallaður saman til aukafunda svo að afgreiða megi þingmál einstakra alþingismanna. Þingmenn stjórnarflokka eða stjórnarandstöðu eru heldur ekki boðaðir sérstaklega í þingsali þegar þingmál alþingismanna eru á dagskrá. Alþingismaðurinn hefur því sjálfur afsalað sér réttinum til að hafa áfram aldagamalt frumkvæði á Alþingi samkvæmt andanum á bak við þingræðið.
    Má í þessu sambandi benda á frumvarp til laga frá þingmönnum fjárveitinganefndar í neðri deild Alþingis um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Frumvarpið bíður nú umræðu í deildinni en fyrsti flutningsmaður er Sighvatur Björgvinsson, formaður fjárveitinganefndar. Með því frumvarpi vilja flutningsmenn færa fjárveitingavaldið aftur í hendur Alþingis frá ráðherrum.
    Þetta frumvarp er prófsteinn á vilja Alþingis í dag: Vill þingheimur færa kjarna þingstarfanna aftur undir löggjafarvald Alþingis eða vill þingheimur áfram vera í húsmennsku hjá ráðherrum sínum? Það er spurningin.
    Á þingfundum á háttvirtu Alþingi í vetur hefur flutningsmanni stundum liðið eins og hverjum öðrum grip í eigu ríkisstjórnarinnar eða eins og bandingja í klóm stjórnarandstöðunnar. Þessar tvær fylkingar ráða framvindu mála í
þingsölum og alþingismaðurinn sjálfur má sín lítils með sín þingmál frammi fyrir þessu ofurefli. Þannig hefur yfirbygging þinghaldsins náð að sliga hornsteinana. Það eru döpur málalok.
    Af þeirri líðan flutningsmanns er þessi tillaga um breytta meðferð allra þingmála sprottin. Flutningsmaður telur það ekki í anda þingræðis að mál alþingismanna fái ekki þinglega meðferð hverju sinni og sæti lokaafgreiðslu í þingsölum. Hann sér ekki þingræðið í störfum Alþingis ef mál alþingismanna eru ekki borin undir atkvæði þingsins jafnt og mál ríkisstjórna. Það er frekar ríkisstjórnaræði en þingræði.
    Án meiri hluta á þingi eru störf Alþingis vissulega erfiðleikum háð og meiri hluta þarf í öllum málum til að tryggja þingræðið. En hér er bent á að án alþingismannsins fæst aldrei meiri hluti. Alþingismaðurinn er áfram hornsteinn Alþingis.
    Með flutningi þessarar þingsályktunartillögu gerir flutningsmaður þær kröfur að öll þingmál, sem fram koma fyrir 10. apríl 1990, fái þinglega meðferð og sæti lokaafgreiðslu á Alþingi Íslendinga sem nú situr: Frumvörp til laga, þingsályktunartillögur, beiðnir um skýrslur og fyrirspurnir, eða önnur þau mál sem Alþingi fjallar um, hverju nafni sem nefnast. Greidd verði atkvæði um frumvörp, tillögur og beiðnir og fyrirspurnum svarað. Forsetar Alþingis ásamt formönnum þingflokka tryggi alþingismönnum þessi málalok með breyttri skipan mála og dagskrár fram að

þinglausnum. Alþingi sitji lengur en til 27. apríl 1990 ef þess gerist þörf til að ná þessu markmiði.``
    Virðulegi forseti. Þetta mál er þess eðlis að það snertir eingöngu starf þingmannanna sjálfra og því er að mati flm. ekki ástæða til þess að leita álits utan þingsins. Því mæli ég ekki með að þetta mál fari til nefndar heldur mæli ég með að það fari beint til síðari umræðu.