Þingfundarstörf í efri deild
Föstudaginn 16. mars 1990


     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Það er í rauninni með ólíkindum hvað hæstv. forseti og þessi hv. deild sýna hv. 2. þm. Norðurl. e. og geðsveiflum hans óendanlega mikið langlundargeð hér á fundum. Mér þykir það satt að segja með ólíkindum. Það liggur fyrir að umræðunni var frestað á miðvikudaginn var að beiðni fulltrúa Sjálfstfl. Nú finnst mér alveg nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um það hvort sú beiðni sem hann bar hér fram var borin fram í nafni þingmanna Sjálfstfl. hér í þessari hv. deild. Það verður auðvitað að liggja fyrir.
    Hv. þm. harmaði það mjög að eiga ekki frí í dag. Ég geri fastlega ráð fyrir að hann geti fengið fjarvistarleyfi ef hann óskar þess. Mér þykir það hins vegar ákaflega miður að hinir gleðilegu atburðir sem gerðust í kjördæmi hans í gær, þegar þar var náð miklum og merkum áfanga í samgöngumálum, skuli ekki hafa haft betri áhrif á geðprýði og lunderni hv. þm. en raun hefur borið hér vitni í þessum umræðum í dag.