Þingfundarstörf í efri deild
Föstudaginn 16. mars 1990


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að þessi dagur virðist ekki ætla að byrja vel hjá þessari ágætu deild. Ég vil leggja það til við hæstv. forseta að hann verði við ósk hv. 2. þm. Norðurl. e. Mér finnst hún ekki fráleit, sú ósk hans að þessari umræðu ljúki ekki í dag. Hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal er talsmaður síns flokks í þessum málaflokki, hefur verið það og er það. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum í þessari deild hver talaði fyrir Sjálfstfl. í húsnæðismálum. Það hafa allir mátt heyra sem hér hafa verið að það er hv. þm. Halldór Blöndal.
    Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að svo verði stýrt hér fundi og við getum gengið til dagskrár þessa fundar og haldið honum áfram. Mér sýnist að það muni ekki skipta nokkru máli fyrir framgang þessa máls hvort við getum lokið þessari umræðu í dag. Og ég hef enga trú á öðru en að hv. stjórnarandstaða geti fallist á að þessu máli yrði þá alla vega lokið á þriðjudag. Það kæmist þá til nefndar á þriðjudag. Þannig að mér sýnist að það sé ekki um neitt stórt verið að biðja.
    Sem sé, þetta er mín ósk, hæstv. forseti, að orðið verði við þessari beiðni og að við getum gengið hér til þingstarfa.