Þingfundarstörf í efri deild
Föstudaginn 16. mars 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég vil sérstaklega bjóða velkominn aftur í deildina Halldór Blöndal, 2. þm. Norðurl. e., og óska honum og öllum Norðlendingum til hamingju með það stórvirki, sprengingalok við göngin í Ólafsfjarðarmúla, sem var verið að halda hátíðlegt í gær í Ólafsfirði og senda Ólafsfirðingum kveðju deildarinnar, er það ekki rétt, út af þessum stórviðburðum.
    En kannski fyrst vegna orða hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefáns Guðmundssonar, þá ætla ég ekki að taka undir þau eða hafna þeim. En það virðist vera þannig með framsóknarmenn núna upp á síðkastið að þeir séu að leysa vandamál, bæði ríkisstjórnarinnar og forseta, með því að koma með ábendingar um að í friðarins nafni skuli þetta og þetta gert á þennan veg. Þannig veit ég að ágætur framsóknarmaður og samþingmaður minn í Vesturlandskjördæmi leysti vandamál Nd. fyrir skömmu síðan og nú sýnist mér að það sé að koma geislabaugur á Stefán Guðmundsson líka og hann sé að leysa hér vandamál í deildinni og biðja forseta að stjórna í friðarins nafni og vera ekki að halda áfram deilum á milli manna.
    En mitt erindi hingað var það að biðja þá hv. þm. Halldór Blöndal og Eið Guðnason að halda ekki uppi þeim hætti stöðugt að vera að lýsa áráttu hvors annars héðan úr ræðustól í hv. deild.