Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 16. mars 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Á þessu kjörtímabili hafa verið gerðar ýmsar breytingar á þeim lögum sem sett voru um Húsnæðisstofnun ríkisins árið 1986. Við umræður um þær breytingar hafa kvennalistakonur ítrekað bent á nauðsyn þess að skoða þyrfti kerfið í heild sinni og þá fyrst og fremst með það fyrir augum að endurskoða hinn félagslega þátt þess og fá yfirsýn yfir húsnæðiskerfið. Því hlýt ég að fagna því að þetta frv., um endurskoðun á félagslega kerfinu, skuli nú hafa litið dagsins ljós.
    Málefni Húsnæðisstofnunar snerta hvern einasta íbúa þessa lands því allir verða fyrr eða síðar að koma sér þaki yfir höfuðið með einum eða öðrum hætti. Það er því ánægjulegt til þess að vita að svo góð samstaða náðist í nefndinni sem undirbjó þetta frv. en eins og fram kemur í greinargerð var hún m.a. skipuð fulltrúum stærstu stéttarfélaganna og Sambands ísl. sveitarfélaga. Þá kemur einnig fram í skýrslu nefndarinnar að margar tillagnanna koma beint frá þeim sem vinna við þessi mál og hlýtur að vera mikilvægt að reynsla þeirra skili sér inn í frv.
    Kvennalistinn hefur frá upphafi haft það á stefnuskrá sinni að leggja áherslu á félagslegt íbúðarhúsnæði og hverfa frá þeirri eignaríbúðarstefnu sem ríkt hefur hér á landi, bæði vegna þeirra sem alls ekki geta komið sér upp þaki yfir höfuðið, þeirra sem tímabundið þurfa á leiguhúsnæði að halda og loks þeirra sem kjósa frekar að leigja húsnæði en eiga sjálfir. Við teljum félagslegar lausnir hentugri fyrir þjóðfélagið þegar um svo stóran málaflokk er að ræða sem þennan.
    Eins og öllum er kunnugt er öflun húsnæðis nú ein aðalástæða mikillar vinnuþrælkunar í landinu. Þeir sem hvorki geta né vilja leggja á sig þá vinnuþrælkun sem húsnæðisbaslinu er samfara eða geta ekki þrátt fyrir vinnu myrkra á milli náð endum saman hafa í ekkert hús að venda. Aðeins lítill hluti
þeirra sem sækja um í verkamannabústöðum fær þar íbúð eins og ástandið er í dag. Því blasir ekkert annað við mörgum fjölskyldum en upplausn og vergangur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir einstaklingana í fjölskyldunni og þjóðfélagið allt.
    Hæstv. félmrh. hefur nú skýrt helstu áherslur sem fram koma í frv. og getum við kvennalistakonur í meginatriðum tekið undir þá stefnu sem þar kemur fram, þ.e. að leggja aukna áherslu á leiguhúsnæði, sameina byggingarsjóðina og skipa húsnæðisnefndir í sveitarfélögum. Það sem ég hnaut einna helst um var nafngift sjóðsins að hann skuli áfram kenndur við verkamenn þegar ætlunin er að leggja af orðið verkamannaíbúðir. Hefði e.t.v. ekki verið eðlilegra að ganga enn lengra?
    Mér er þó ljóst að rökin fyrir þessari nafngift hafa bæði sögulegt og tilfinningalegt gildi og þurfa alls ekki að vera verri en hver önnur rök. Það hefur hins vegar lengi verið svo að fólk úr ýmsum starfsgreinun hefur átt þess kost að fá íbúðir í svokölluðum verkamannabústöðum. Þannig er mér t.d. kunnugt um

tilvik þar sem afhentar voru níu íbúðir en fimm þeirra fóru til kennarafjölskyldna. Það er ljóst að miðað við þær meðaltekjur sem frv. gerir ráð fyrir að einstaklingar megi hafa á ári til að eiga rétt á úthlutun félagslegra eignar- eða kaupleiguíbúða mun fólk úr hinum fjölbreytilegustu starfsgreinum geta sótt um íbúðir í félagslega kerfinu. Þegar reynsla verður komin á þetta kerfi og viðskipti með húsbréf aukast hlýtur hins vegar að vera eðlilegt að stíga skrefið til fulls og sameina byggingarsjóðina endanlega.
    Mig langar til að minnast örstutt á atriði sem snúa að sveitarfélögunum og ég tel vera til bóta. Fyrst vil ég minnast á það sem fram kemur í 3. gr. frv., breytingu á 58. gr. núgildandi laga um að fella niður 10% óafturkræft framlag sveitarfélaga til félagslegra eignaríbúða en skylda sveitarfélög þess í stað til að lána sjóðnum 10% af kostnaðarverði hverrar eignaríbúðar. Með því er að mínu mati ekki einungis tryggð ábyrgð þeirra á byggingu félagslegra íbúða heldur fullyrði ég að eins og staðan er nú muni þetta ákvæði auðvelda mörgum sveitarfélögum að taka þátt í að koma upp félagslegum íbúðum. Víða úti á landi er þörfin fyrir húsnæði svo mikil að hún stendur eðlilegu atvinnulífi og uppbyggingu fyrir þrifum. Þar er reyndar ekki síður um að ræða skort á leiguhúsnæði, en nauðsynlegt er að fólk sem gjarnan vill flytja út á land eigi þess kost að hafa aðlögunartíma áður en það tekur ákvörðun um að setjast að.
    Þá tel ég einnig mjög jákvætt skref sem tekið er með stofnun húsnæðisnefnda. Með þeirri skipan eru öll húsnæðismál sveitarfélagsins á einni hendi og ábyrgð sveitarfélagsins tryggð. Ég hefði talið eðlilegra út frá sjónarhóli sveitarstjórna að þær hefðu sjálfar skipað alla fulltrúana en eins og fram kemur í greinargerð með frv. var þetta eitt af fáum atriðum þar sem uppi voru ólík sjónarmið og áherslumunur nefndarmanna.
    Hæstv. félmrh. minntist áðan í ræðu sinni á ýmsar aðrar tillögur sem nefndin hefur lagt fram án þess þó að þær komi fram í frv. og get ég tekið undir flestar þeirra. Mig langaði aðeins að minnast örlítið á eina sem varðar hugmynd um húsnæðisumdæmi. Langar mig af því tilefni að minna á frv. til laga
sem nú er til umfjöllunar í Nd. og er 347. mál þingsins, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Flm. þess frv. eru þingmenn allra flokka en Málmfríður Sigurðardóttir er 1. flm. Í því frv. er gert ráð fyrir að í hverju kjördæmi verði útibú frá Húsnæðisstofnun. Flestir verða einhvern tíma á ævinni að eiga viðskipti við Húsnæðisstofnun ríkisins vegna öflunar húsnæðis. Flestir sem húsnæði kaupa þurfa ráðgjöf og leiðbeiningar. En auðvitað er ljós sú staðreynd að ekki er allt fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu sem á þeim samskiptum þarf að halda. Allt frá því að Húsnæðisstofnun var komið á fót hefur það valdið því fólki sem fjarlægar býr ómældu óhagræði og kostnaði hve erfitt er að nálgast upplýsingar, ráðgjöf og þjónustu þá sem stofnuninni er skylt að veita. Þrátt fyrir þetta óhagræði og

óánægju manna með þetta fyrirkomulag hafa ekki verið gerðar umtalsverðar tilraunir til þess að færa þjónustu þessarar stofnunar nær fólkinu. Leyfi ég mér því að mega vænta þess að frv. hljóti jákvæða afgreiðslu hér á þinginu í vor.
    Í kjarasamningum undanfarin ár hefur oft verið samið um ýmis félagsleg atriði, eins og t.d. húsnæðis- og dagvistarmál, en það hefur verið heldur dapurlegt að sjá hvernig staðið hefur verið við slíka samninga. Ég tel að þetta frv. sé skref í þá átt að koma til móts við þann raunveruleika sem við búum við, en öllu máli skiptir auðvitað hvernig til tekst að bæta stöðu byggingarsjóðanna. Í umræðunni um félagslegt húsnæði eru oft notuð hugtök eins og láglaunahópar, barnafjölskyldur, öryrkjar og aldraðir en hvernig svo sem til tekst með uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins er það eftir sem áður eitt brýnasta verkefni verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda að sjá til þess að þessir hópar búi við stórum betri kjör en nú er. Þó svo að áfangar náist í húsnæðismálum bíða enn mörg verkefni til að bæta hag þessara hópa.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa langt mál um þetta frv. nú. Ég tel nauðsynlegt að það komist svo fljótt sem verða má til umfjöllunar í félmn. þar sem ég á sæti og sé því ekki ástæðu til að fara nánar út í einstakar greinar þess nú. Miðað við það ástand sem nú ríkir á húsnæðismarkaðinum hlýtur að vera brýnt að vinna ötullega að þessu máli næstu vikurnar til að reyna að koma málum fram á þann hátt sem nefndarmenn geta orðið sammála um. Og það má í því tilliti benda á þetta mikilvæga atriði með skipan húsnæðisnefnda sem þyrfti að gerast í kjölfar sveitarstjórnarkosninga í vor.
    Ég hef ekki fleiri orð um þetta að svo stöddu en lýsi stuðningi okkar kvennalistakvenna við meginhugmyndir þær sem fram koma í frv.