Hlutafélög
Föstudaginn 16. mars 1990


     Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Herra forseti. Frv. það sem hér er nú til umræðu kann að láta lítið yfir sér. Ég hygg þó að þegar fram í sækir geti það borið verulegan árangur ef samþykkt verður. Efni þess er einfalt, þ.e. að einungis þurfi 10% eða einn tíunda hluta hlutafjár til þess að krefjast hlutfallskosningar eða margfeldiskosningar við stjórnarkjör.
    Þetta er eingöngu að því er varðar stærri félög þar sem hluthafar eru 200 eða fleiri, en þau eru nokkur á Íslandi eins og menn vita og mörg fleiri eiga áreiðanlega eftir að rísa og þá þarf auðvitað að gæta þess að minni hluti í slíkum félögum sé ekki sniðgenginn heldur hafi ákveðinn rétt til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í stjórnum félaganna.
    Ég geri mér vonir um að hv. þm. muni kannski allir vera sammála þeirri hugsun sem í frv. felst en það hefur orðið að samkomulagi milli mín og hæstv. forseta þar sem fundartími er að renna út að þetta mál færi til nefndar ef hv. þingdeildarmenn samþykkja það og sætta sig við umræðulaust en umræða færi síðan fram á þriðjudag og vonandi þá að frv. yrði samþykkt hér út úr þessari hv. deild. Með þessum skýringum lýk ég máli mínu að sinni.