Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 16. mars 1990


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil í örfáum orðum ræða það frv. sem hér liggur fyrir og hefur nú loksins verið afgreitt út úr nefnd á nýjan leik, ekki síst þar sem ég skrifaði undir nál. með fyrirvara af ákveðnum ástæðum.
    Starf nefndarinnar var umfangsmikið og margir kallaðir til umfjöllunar um málið, enda stórt í sniðum. Þau atriði sem ég geri athugasemdir við snerta landbúnaðinn sem atvinnuveg. Því miður get ég ekki fylgt stjórnarliðum að málum hvað ákveðin atriði varðar. Mér leiðist nú heldur að geta ekki verið samstiga ríkisstjórninni í þessu máli því mér finnst að henni hafi tekist vel til á mörgum sviðum. Ekki síst við að skapa hér nýtt efnahagsumhverfi og taka á þeim miklu vandamálum sem við blöstu á haustdögum 1988. Þó það skuli viðurkennt að margt er óleyst og mörg ljón á veginum þá finnst mér að starf ríkisstjórnarinnar hafi í mörgum atriðum tekist mjög vel. En ég verð því miður að áskilja mér rétt í þessu máli til að flytja eða fylgja brtt. sem ég hygg að verði frekar niðurstaðan. Ég sé að við það sem ég hef gert athugasemdir eru komnar fram brtt. í ákveðnum atriðum sem ég mun fylgja.
    Ég vil á þessu stigi segja það að menn hafa deilt um hvort stofna bæri umhverfisráðuneyti. Ég hef stutt ríkisstjórnir sem hafa haft það á stefnuskrá sinni að stofna umhverfisráðuneyti. Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa íhugað þessi mál og rætt við marga að sú ákvörðun sé rétt. Við þurfum að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi í umhverfismálum. Við eigum meira undir því en flestar aðrar þjóðir að tekið verði á þeim vandamálum sem við blasa í umhverfismálum, umgengni við land, umgengni við haf, hvernig menn fara með úrgangsefni, hættuleg efni o.s.frv. Ég vil að Íslendingar taki að fullu þátt í þeirri varnarbaráttu. Ég held því fram að það sé varnarbarátta mannlífsins á jörðinni sem menn eru að heyja og þess vegna eigum við af fullum þunga að taka þátt í því starfi. Og við þurfum þess auðvitað líka hér heima.
Það skal auðvitað viðurkennt að okkar stærsta umhverfisvandamál er sú þróun sem hefur orðið hvað gróður og fleira varðar í landinu. Um orsakir þess hafa menn kannski allt of mikið deilt um. Ég hlustaði t.d. í gær á ágæta ræðu sem hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson flutti þar sem hann benti að ég held á helstu orsakir fyrir þeim uppblæstri sem hefur orðið. En það var að staða grunnvatnsins hefur lækkað og hann benti einmitt á að menn mundu kannski sjá það eftir þessa tvo snjóavetur að breyting mundi verða á hvað gróðurfar varðar. Mig langar að fara yfir þau atriði sem ég geri athugasemdir við og fara aðeins dýpra ofan í það hvers vegna ég fylgi ekki meiri hlutanum alfarið.
    Ef ég skoða frv. þá er þar hvað 1. gr. varðar að ég hef bæði í mínum þingflokki og ekki síður í nefndarstarfinu bent á að óæskilegt væri að setja tvö höfuð yfir Landgræðsluna. Út úr frv. þyrftu að fara orðin í 1. gr. að Náttúruverndarráði ,,ásamt

Landgræðslu ríkisins verði falið að vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs.`` Ég vil að orðin ,,vinna að gróðurvernd`` hverfi þarna út af ákveðnum ástæðum. Mér finnst það allt of algengt hér þinginu og í þjóðfélaginu að menn skilji ekki hvað þessi orð merkja.
    Ég get vel fallist á að Náttúruverndarráð komi inn í eftirlit með ástandi gróðurs og umhverfisráðuneytið hafi þar einhvern tillögurétt eins og lagt er til. En ég fellst ekki á að þeir vinni að gróðurvernd, eins og sagt er, því að það snýst um allt annað atriði. Það er eins og segir í umsögn frá Landgræðslu ríkisins:
    ,,Gróðurvernd er óaðskiljanlegur hluti af landgræðslu og í flestum tilvikum byggjast gróðurverndaraðgerðir á nýtingu tækja, mannafla og sérþekkingar sem Landgræðslan hefur yfir að ráða. Gróðurverndin er mjög umfangsmikið framkvæmdarstarf sem felst í margháttuðum verklegum framkvæmdum. Forræði gróðurverndar á að vera hjá fagráðuneyti sem hefur með nýtingu gróðurs og jarðvegs að gera. Nauðsynlegt er að þeir sem taka ákvarðanir í þágu gróðurverndar beri einnig ábyrgð á afleiðingum þeirra, t.d. gagnvart byggðarlögum og atvinnurekstri. Landgræðslan telur að það verði málefninu ekki til framdráttar að Náttúruverndarráði verði formlega falið framkvæmdahlutverk í gróðurverndarmálum. Landgræðslan hefur tiltrú almennings og þorra bænda á því sem verið er að gera.``
    Þetta er aðalatriðið, að menn eru með þessari tillögu, ef þetta verður að lögum, að taka ákvörðun um það að tveir aðilar fari að skipta sér af sömu hlutunum og með þessum hætti taka þeir þennan mikla þátt undan atvinnuveginum að hluta. Ég tel því að menn verði að átta sig á því að það er í lagi að Náttúruverndarráðið komi þarna inn og hafi eftirlit með ástandi gróðurs en ekki að það verði með afskiptasemi hvað snertir gróðurverndaraðgerðir, nýtingu tækja og mannafla, upprekstur o.fl. Ég held að þá skorti þá sérþekkingu sem Landgræðslan hefur yfir að ráða og hefur aflað sér á síðustu árum, fyrir utan hitt sem ég hef hér rakið, að það er auðvitað afskaplega óheppilegt þegar ábyrgðin fer að skiptast á milli margra aðila. Þess vegna minni ég þingheim á að skilja þetta rétt, hvað í þessu felst og hvað það væri rangt að kljúfa
Landgræðsluna með þessum hætti. Það er staðreynd að Landgræðslan hefur í flestum tilvikum náð mjög mikilli sátt við bændurna um að fara að þeim tillögum sem Landgræðslan leggur til hvað upprekstur og friðun varðar. Hún á því bæði tiltrú í þéttbýli og ekki síður úti í sveitunum. Þarna væri því mjög skakkt að farið ef menn færu að valda árekstrum og átökum.
    Í þessu efni má kannski segja að því miður hefur það blasað við að það eru ákveðin öfl sem vilja sækja fram í þessu máli fyrst og fremst með það í huga að finna einhvern ákveðinn óvin til að glíma við og þá í þessu tilfelli bændastéttina. Hún hefur verið borin röngum sökum því að ég þekki það nú vel að bændurnir eru stuðningsmenn gróðurverndar og

landgræðslu sem eðlilegt er.
    Ég get sagt það í þessu efni að hér sé ég að nokkrir þingmenn hafa lagt fram brtt. Það eru hv. þm. Ólafur G. Einarsson, Friðjón Þórðarson og Ingi Björn Albertsson sem hafa lagt fram brtt. sem ég get stutt, á þskj. 726. Ég get vel stutt a- og b-lið í þeim brtt. sem þeir leggja til hvað þetta varðar sem ég hef hér gert að umræðuefni, að orðin ,,vinna að gróðurvernd og`` í fyrri mgr. falli brott og síðan í b-lið: Í stað orðanna ,,vinna að verndun og eftirliti`` komi: hafa eftirlit.
    Ég var kominn að því að ræða 8. gr. frv. sem snertir hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Eftir að hafa hlustað á menn sem þekkja þau svið mjög hef ég sannfærst um það að umhverfisráðuneyti verður að hafa á sinni hendi hina ytri mengun, umhverfismengunina. Þess vegna hef ég hneigst frekar að þeirri skoðun að kljúfa beri Hollustuverndina í þessu tilfelli því að ég sé enga ástæðu til þess og það mun hvergi vera að heilbrigðiseftirlit hvað matvæli og fleira varðar sé undir umhverfisráðuneyti. Þess vegna hefur mín niðurstaða, eftir að hafa bæði reynt að lesa mér til og hlusta á menn í þessum efnum, verið sú að það bæri að kljúfa Hollustuverndina með það í huga að mengunarþátturinn færðist til umhverfisráðuneytis en heilbrigðiseftirlitið yrði aftur á móti áfram undir heilbrrn.
    Sama má segja um 14. gr. frv. sem er um Geislavarnir ríkisins. 80--90% af starfsemi Geislavarna ríkisins heyra undir heilbrrn., sjúkrahúsin, þannig að ég hefði talið eðlilegast að þær yrðu áfram hjá heilbrrn.
    Auðvitað mætti minnast á fleiri atriði. Menn ræða um eyðingu minka og refa og eyðingu vargfugls. Ég sá það í nýsettri reglugerð sem ég fékk í morgun að líklega er orðið tímabært að færa fuglaverndina undan menntmrn. því að ég sá að í reglugerðinni stendur að menn megi eyða hröfnum og öðrum mávategundum. Þeir eru ekki betur að sér í menntmrn. en það að þeir halda að hrafninn sé mávategund svo að það er nú kannski rétt að fara að koma hrafninum undir nýja húsbændur.
    Það sem hefur kannski komið mér á óvart, bæði í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar og hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar, er að nú hafa þeir snúið við blaði sínu. Nú viðurkenna þeir það sem þeir hafa ekki gert fyrr úr þessum ræðustóli, að umhvrh. hafi næg verkefni. Mánuðum saman hefur Sjálfstfl. hrópað úr þessum ræðustól að þetta væri ráðuneyti án verkefna. ( Gripið fram í: Hann fékk þau með reglugerðinni.) Það er hárrétt, hv. þm. En þegar hæstv. forsrh. sagði hér að reglugerðin mundi færa honum verkefni man ég ekki betur en þið hafið einnig mótmælt því. Auðvitað var það ljóst að hæstv. umhvrh. fékk næg verkefni með reglugerðinni og ég get vel tekið undir þær skoðanir ykkar að kannski hefði það verið eðlilegast um sinn að þau verkefni sem hann einmitt fær með reglugerðinni yrðu þau verkefni sem hann hefði út þetta kjörtímabil því að ég held að það sé gríðarleg vinna sem nú þarf að leggja í fræðsluþáttinn

sem hér hefur verið minnst á og ekki síður í samskiptin við erlendar þjóðir þannig að mér finnst hann hafa ærin verkefni og að sá málflutningur sem menn höfðu hér í frammi um þetta ráðuneyti hafi gert ógagn. Fræðslan og samstarfið við aðrar þjóðir eru mikil verkefni og rödd okkar Íslendinga á að hljóma sterkt í umhverfismálum. Við eigum mikið undir því, eins og ég gat hér í upphafi, ekki síst varðandi mengunina í hafinu, fiskstofnana o.s.frv.
    Hér er kominn í salinn einn af samstarfsmönnum mínum í allshn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson. Í stuttu máli hef ég gert athugasemdir við meirihlutaálitið sem við skrifuðum undir og þar vega langþyngst, af því að hv. þm. mætti ekki á síðasta fundi nefndarinnar, athugasemdir við 1. gr. frv. sem snýr að því að fella út fjögur lítil orð um gróðurverndina. Ég hef beðið menn að átta sig á því að gróðurverndin snýr fyrst og fremst að framkvæmdaratriðum sem Landgræðsla ríkisins hefur séð mjög vel um á síðustu árum og væri mjög óheppilegt að kljúfa Landgræðslu ríkisins upp með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.
    Ég vænti þess að þingheimur geri sér þá grein fyrir því að mitt sérálit snýr fyrst og fremst að þessu atriði, að fella í burtu þessi fjögur orð og sjá til þess að Landgræðsla ríkisins verði ekki klofin upp og þannig skapaður ófriður um þau mikilvægu málefni sem hún hefur sinnt með svo mikilli prýði.