Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst minna hv. 10. þm. Reykv. á það að Norðmenn hafa, þrátt fyrir Oslóarsamkomulagið í fyrra um fríverslun með fisk og afnám styrkja, tekið ákvarðanir um að stórauka styrki. Í stað þess að nota þennan umþóttunartíma til að draga úr og fella styrkina endanlega niður eins og samkomulagið gerir ráð fyrir hafa þeir verið að auka styrkina. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki séð ástæðu til að mótmæla þessum ákvörðunum innan EFTA. Með öðrum orðum, það liggur í augum uppi vegna þessarar ákvörðunar Norðmanna að þeir eru nú þegar búnir að veikja þann þunga sem ella hefði getað orðið á bak við sameiginlegar kröfur EFTA-ríkjanna. Þetta gerir það m.a. að verkum að það er mikilvægt að endurskoða afstöðu okkar í þessu efni. Niðurstaðan hlýtur alltaf að verða sú, ekki síst í ljósi þessara atburða, að allur þunginn af þessum málflutningi mun hvíla á okkar herðum. Og í Oslóarsamkomulaginu er beinlínis gert ráð fyrir því að hver einstök þjóð geti sinnt sínum sérhagsmunamálum í tvíhliða viðræðum.
    Vegna ræðu hv. 10. þm. Reykv. vildi ég koma þessu skýrt á framfæri.