Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun er viðamikið mál enda einn af þeim málaflokkum sem varða hverja fjölskyldu í landinu. Það er því þýðingarmikið að þannig sé staðið að þessum málum að þau komi eins réttlátlega niður og mögulegt er.
    Hér er til umræðu frv. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem fjallar um félagslega íbúðakerfið og breytingar á því. Ég dreg ekki í efa að þörf hafi verið á að endurskoða þann þátt laganna og markmiðið að gera það einfaldara og skilvirkara er af hinu góða. En ég lít svo á að það sé ekki heppilegt að taka einstaka þætti út úr lögunum í stað þess að taka á málinu í heild, endurskoða lögin í heild ef það mætti verða til þess að einfalda þau. Húsnæðislánakerfið er orðið svo flókið og margþætt að brýnt er að leita leiða til að auðvelda fólki að uppfylla þær frumþarfir sem húsnæðismálin og lán til þeirra eru. Vandamálin eru ekki síður í almenna húsnæðislánakerfinu en í því félagslega. Fólk þarf að bíða árum saman eftir því að komast inn í röðina til þess að fá lán og núverandi kerfi hefur því miður ekki uppfyllt þær vonir sem við það voru bundnar nema að litlu leyti.
    Stefna þarf að því að beina þessum málum inn í almennar lánastofnanir, að innan þeirra sé sérstakur lánaflokkur til húsnæðiskaupa og að slík viðskipti séu á sama stað, að ráðgjöf og lán til húsnæðiskaupa fari fram í banka sem viðkomandi umsækjandi á sín viðskipti við. Það væri hagræðing og einföldun og einnig hlytist af því meiri og betri þjónusta.
    Það hefur ætíð verið stefna okkar sjálfstæðismanna að sem flestar fjölskyldur og einstaklingar í þjóðfélaginu geti búið í eigin húsnæði og notið þess öryggis og sjálfstæðis sem því fylgir. Íslendingar eru í eðli sínu einstaklingshyggjumenn sem endurspeglast ekki síst í þeim metnaði að eignast eigið húsnæði. Enda er það svo að hér á landi búa hlutfallslega fleiri í eigin húsnæði en í ýmsum öðrum vestrænum ríkjum. Við sjálfstæðismenn viljum standa vörð um þessa stefnu okkar en stefna hæstv. ríkisstjórnar og félmrh. gengur þvert á þessa stefnu, þ.e. að byggja skuli þriðju hverja íbúð á félagslegum grunni eins og markmið hæstv. félmrh. er og kemur fram í 3. gr. frv. sem er til umræðu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, undir e-lið og varðar 64. gr. laganna:
    ,,Stefna skal að því að byggja félagslegt húsnæði sem nemur a.m.k. einum þriðja af árlegri íbúðaþörf landsmanna og skal fjáröflun til sjóðsins hagað samkvæmt því.``
    Það mætti spyrja af hverju áhersla er lögð á að minnka hóp þeirra sem falla undir almenna húsnæðislánakerfið? Væri ekki eðlilegra að leggja áherslu á að fækka þeim sem þurfa á slíkri félagslegri aðstoð að halda? Ég tel óeðlilegt að setja slíkt markmið inn í lagatexta. Það hlýtur að eiga að byggjast á þörfinni hverju sinni hve stór hluti af íbúðaþörf landsmanna fellur undir félagslega kerfið.

Ég trúi ekki öðru en hæstv. félmrh. sé mér sammála um að það væri gleðiefni ef hægt væri að fækka sem allra mest í þeim hópi fólks sem þarf á aðstoð að halda. En rétt er að taka fram að auðvitað þarf að sinna íbúðaþörf þess eins og annarra. Það þurfa að vera til leiguíbúðir. Það þurfa að vera valkostir og þessum félagslega þætti á að sinna af kostgæfni. Ég vil undirstrika það. Í því sambandi er hægt að nefna sérstaklega öryrkja og lágtekjufólk. Varðandi leiguíbúðir má nefna námsmenn, sem eru stór hópur leigjenda og væntanlega aðeins leigjendur tímabundinn hluta af ævi sinni, þ.e. meðan þeir eru í námi.
    En ég vil leggja ríka áherslu á að það þarf að vinna að þessum málum með þeim hætti að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, hjálpa fólki til þess að halda reisn sinni. Það á ekki að leggja áherslu á að ýta fólki að óþörfu undir þá forsjárhyggju og miðstýringu sem félagslega kerfið leiðir til og kallar á. Og ekki má gera það á kostnað almenna húsnæðislánakerfisins. Það verður að leggja áherslu á að sem flestir séu í hinu almenna lánakerfi og hagstæð lán sem venjulegir, almennir launþegar geta staðið undir en jafnhliða sé fullnægt þörfum þeirra sem aðstoðar þurfa á félagslegum grunni.
    Ég á sæti í félmn. sem fær frv. til umfjöllunar svo að ég ætla ekki á þessu stigi að fjalla um einstakar greinar þess enda hefur ekki gefist tími til að fara ítarlega yfir þær. Það mun gefast tími til að vinna vel í málinu í félmn. og að sjálfsögðu þarf að leita umsagnar fjölmargra aðila sem málið varðar. Hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða að ég læt mér ekki detta í hug að nefndin fái ekki þann tíma sem hún þarf til að vinna í málinu.
    Ég vil taka það fram að við sjálfstæðismenn höfum ekki átt aðild að því að semja frv. Við höfum ekki átt fulltrúa í nefndinni sem samdi frv. og við erum því ekki jafn undir það búnir og stjórnarflokkarnir sem væntanlega hafa fjallað um frv. áður en það var lagt fram hér á hv. Alþingi. En við fyrstu yfirferð vakna ýmsar spurningar sem nauðsynlegt verður að fá svör við. Það er nauðsynlegt að fá ítarlegar upplýsingar um áhrif þessarar lagasetningar áður en Alþingi afgreiðir frv. Það er útilokað að afgreiða svo viðamikið mál, sem
snertir beint hagsmuni svo margra, án þess að fyrir liggi upplýsingar um afleiðingar slíkrar lagasetningar. Það má spyrja hvaða áhrif það hefur á hag þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem eiga kost á fyrirgreiðslu félagslega húsnæðiskerfisins í dag. Hvort þetta kerfi verður víðtækara en núverandi kerfi í þeim skilningi að það leysi vanda fleira fólks en núverandi kerfi gerir. Og það er ástæða til að spyrja hvaða áhrif það hefur á íbúðamarkaðinn. Hver er í dag greiðslubyrði lána úr byggingarsjóðunum og húsbréfakerfinu? Hve há er húsaleiga á hinum ýmsu stöðum á landinu bæði á almennum markaði og fyrir félagslegar íbúðir? Hvernig er samanburðurinn á því að greiða húsaleigu annars vegar og afborganir af lánum til íbúðakaupa hins vegar? Og hvaða áhrif hefur frv. á útgjöld ríkissjóðs? Mig minnir að það

standi einhvers staðar að það auki ekki útgjöld ríkissjóðs en annars staðar stendur að ekki sé vitað hver kostnaðaraukinn sé af frv.
    Í frv. er gert ráð fyrir þeirri nýjung að fé verði veitt til byggingar leiguíbúða og er það réttlætt með því að sumir hafi ekki getað staðið í skilum með afborganir af lánum úr Byggingarsjóði verkamanna. Því er slegið föstu að viðkomandi geti ekki staðið í skilum vegna lágra tekna en það er ekki skýrt nánar eða færð rök fyrir því. Þá vaknar spurningin, hverjir eru það sem ekki hafa staðið í skilum? Eru það ákveðnir tekjuhópar, ákveðnir þjóðfélagshópar, ákveðnir aldurshópar eða jafnvel mislitur hópur úr ýmsum stéttum þjóðfélagsins og með misjafnar tekjur? Og hvers vegna fólkið hafi ekki getað staðið í skilum. Hvort það hafi verið vegna lágra tekna eða að fólk hafi e.t.v. fjárfest í einhverju öðru samhliða íbúðakaupunum, t.d. bíl svo eitthvað sé nefnt. Síðan er ástæða til að spyrja hvort eitthvert samband sé á milli vanskila og tíðni greiðslna því að auðvitað er það erfiðara fyrir fólk að greiða af lánum með fáum gjalddögum en t.d. lánum með mánaðarlegum greiðslum. Það segir sig sjálft. Upphæðirnar verða hærri þegar lengra er á milli gjalddaga. Í frv. er því slegið föstu að einhver hópur fólks geti ekki keypt íbúðir en ráði hins vegar við að leigja. Þá er stóra spurningin hver sú leiga er sem þetta fólk getur staðið undir sem getur ekki staðið undir lánum af félagslegum íbúðum með t.d. mánaðarlegum afborgunum. Frv. gengur í raun og veru út á það að fjölga eignalausu fólki og beina fólki inn á leigumarkaðinn. Það er óljóst hvort það væri hagkvæmara þegar til lengdar lætur. Því eins og ég sagði áðan er svo ríkt í okkur Íslendingum þetta einstaklingseðli að menn berjast fyrir því og láta það sitja í fyrirrúmi að eignast þak yfir höfuðið og hafa gert frá ómunatíð af litlum efnum. Auðvitað hefur það oft verið erfitt, allt of erfitt og þarf að leggja áherslu á að gera þessum lánamálum skil á þann hátt að hægt sé að auðvelda venjulegu fólki að eignast eigið húsnæði samhliða því að hinum sé hjálpað. En ég tel að ekki eigi að leggja áherslu á að fjölga slíkum hópum heldur þvert á móti.
    Ég veit ekki hvort ég ætti að fara svo ítarlega út í einstakar greinar frv. Það má segja að manni sýnist ýmislegt stangast á. T.d. varðandi 68. gr. og 95. gr. um vaxtaákvarðanir og breytingar á vöxtum. Það virðist ekki vera samræmi þar á milli en e.t.v. eru til skýringar á því. En ég vil ekki ljúka þessu máli mínu án þess að gera athugasemd við eitt, kannski þýðingarmesta atriðið, þ.e. það sem snýr að sveitarstjórnum og ábyrgð þeirra. Samkvæmt frv. er þeim falin ábyrgð á félagslegu húsnæði. Sveitarstjórn á að bera fjárhagslega ábyrgð á félagslegum íbúðum á vegum hennar og enn fremur ábyrgð á framkvæmdum. Þetta er samkvæmt f-lið um skipulag og stjórn á bls. 3 í frv. Þar segir:
    ,,Í sveitarfélögum með 400 íbúa eða fleiri skal sveitarstjórn skipa fimm manna húsnæðisnefnd og jafnmarga til vara að afloknum hverjum

sveitarstjórnarkosningum, þrjá kosna af sveitarstjórn og tvo fulltrúa tilnefnda af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu. Nefndin fer með stjórn og samræmingu félagslegs húsnæðis í sveitarfélaginu í umboði sveitarstjórnar og almennar upplýsingar og ráðgjöf varðandi húsnæðismál.
    Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.
    Í sveitarfélögum með færri íbúa en 400 er heimilt að skipa sérstakan húsnæðisfulltrúa í stað húsnæðisnefndar.``
    Ég held að sveitarstjórnarmenn, a.m.k. þeir sem ég hef spurt, séu sammála því að það sé til bóta frá núverandi fyrirkomulagi að fá þessar húsnæðisnefndir en að sveitarstjórn eigi ekki alfarið að skipa í nefndina er útilokað. Hún verður að hafa þessa ábyrgð alla leið. Við verðum að horfast í augu við það að með því að sveitarstjórn skipar aðeins þrjá menn af fimm þýðir það að meiri hluti sveitarstjórnar hefur aðeins tvo menn í þessari stjórn, minni hlutinn einn og síðan koma tveir frá launþegahreyfingum sem útilokað er að gera sér grein fyrir hvar þeir fylkja sér undir í ábyrgð á slíku starfi. Og það er óeðlilegt að sveitarstjórn, sem á að hafa svo mikla ábyrgð sem raun ber vitni, hafi ekki alfarið þennan meiri hluta. Það er ekkert athugavert við það ef sveitarstjórnin sjálf tryggir að launþegar eigi fulltrúa í slíkri nefnd. Það mætti líka hugsa sér að ekki væri óeðlilegt að sveitarstjórn tryggði einnig að fulltrúi atvinnurekenda væri í slíkri nefnd því að svo mikið varðar þetta afkomu og atvinnurekstur í viðkomandi byggðarlagi. Alla vega er
meginatriðið að sveitarstjórnin sem slík beri fulla ábyrgð á störfum þessara nefnda og það sé tryggt að hún eigi meiri hluta í slíkum stjórnum. Það væri hægt að nefna dæmi um fyrirkomulagið nú í stjórnum verkamannabústaða. Ég þekki dæmi þess að í stjórn verkamannabústaða í einu bæjarfélagi á sveitarstjórnarmeirihlutinn aðeins tvo fulltrúa af sjö vegna þess hvernig í þær er skipað. Og þetta er auðvitað óeðlilegt þar sem sveitarfélagið á að bera þessa fjárhagslegu ábyrgð á störfum og lánaúthlutunum. Þetta finnst mér vera mjög þýðingarmikið atriði og ég vil leggja á það þunga áherslu.
    Það er athyglisverð frétt sem er á baksíðu Morgunblaðsins í dag um umsóknir um lán til félagslegra íbúða í húsnæðismálastjórn. Það kemur fram að þessar fréttir eru samkvæmt upplýsingum Verktakasambandsins. Ég ætla ekki að lesa hana alla en hún skiptir talsverðu máli varðandi frv. sem hér er verið að fjalla um. Í næstsíðustu málsgrein fréttarinnar segir, með leyfi forseta,:
    ,,Þá segir enn fremur í skýrslunni: ,,Hinn gífurlegi fjöldi lánsumsókna til bygginga félagslegra íbúða er ekki síst umhugsunarverður í ljósi þess, að talið er að árleg þörf nýrra íbúða á landinu öllu sé um 1400--1500. Skýringuna er fyrst og fremst að finna í verulegri umframeftirspurn umsókna um byggingu slíkra íbúða utan höfuðborgarsvæðisins, en lauslega má áætla að þær séu 2--3 sinnum fleiri en heildarþörf

nýrra íbúða á landsbyggðinni.``
    Miðað við að þörf fyrir nýjar íbúðir á landinu öllu sé 1400--1500 er fjöldi umsókna um lánveitingar til félagslegra íbúða og til íbúða fyrir aldraða því 33--42% umfram þarfir landsmanna.`` Í fyrirsögn er talað um að um 2000 umsóknir um lán til félagslegra íbúða séu í húsnæðismálastjórn og aðalfyrirsögn er: ,,Lagt til að lánað verði til um 800 félagslegra íbúða.``
    Mér finnst það mjög athyglisvert sem þarna kemur fram, að það séu svo margar umsóknir sem raun ber vitni umfram þörfina. Og það væri nú fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. félmrh., hvort hún á einhverjar skýringar á þessu.
    Ég vil, hæstv. forseti, aðeins ljúka þessum orðum mínum með því að nefna það að auðvitað er margt í þessu frv. sem er til bóta miðað við núverandi kerfi, en eins og ég sagði áður eigum a.m.k. við sjálfstæðismenn eftir að kynna okkur þetta frv. ítarlega. Við höfum ekki haft tækifæri til þess fyrr en það hefur verið lagt hér fram á hv. Alþingi. Og þetta er það viðkvæmt og viðamikið mál og mikilvægt mál að við hljótum að fá góðan tíma til að vinna vel í þessu máli.
    Ég vil að lokum ítreka það sem ég hef sagt hér fyrr í minni ræðu að húsnæðislánakerfið má ekki vera þannig úr garði gert að það slævi sjálfsbjargarviðleitni fólks sem er svo rík í okkur Íslendingum, ekki síst sá metnaður að eiga eigið þak yfir höfuðið.