Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Jóhann Einvarðsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mikið, en það eru nokkur atriði sem ég vildi drepa á strax við 1. umr. Í fyrsta lagi vil ég taka undir megintilgang frv., þ.e. að koma betri skikkan og skipulagi á ýmislegt varðandi félagslegar íbúðabyggingar. Og vegna orða nokkurra fyrri ræðumanna um að það sé stórt hlutfall, þ.e. 1 / 3 af íbúðabyggingum í landinu, sem eigi að vera á félagslegum grundvelli vil ég vekja athygli á því að þetta er ekki nýtt ákvæði. Það er búið að vera í lögum lengi og ég hygg að allir flokkar hafi tekið þátt í að lögbinda það.
    En mér finnst þó, frá mínum bæjardyrum séð, frv. vera dálítið ruglingslegt að ýmsu leyti. Ég tel að það ætti að skoða það nokkru nánar að við settum heldur þrenn lög um húsnæðiskerfið. Það ætti að vera ein löggjöf um almenna húsnæðislánakerfið. Ég get tekið undir það, eins og ég hef oft haldið fram áður og m.a. á þeim tíma sem ég starfaði að þessu þó svo að það hafi ekki komist í gegn þá, að húsnæðismálastjórn á að setja almennar reglur um lán til hins almenna húsnæðislánakerfis og bankastofnanir eiga síðan að annast alla ráðgjöf og lánafyrirgreiðslu eftir þeim almennu reglum og húsnæðismálastjórn á síðan að kaupa þau skuldabréf af bankastofnunum þegar þær hafa metið lánsþörf og greiðslugetu lántakenda. Ég teldi að það væri til mikilla bóta.
    Ég er hins vegar á því að félagslegu íbúðalánin eigi að vera undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar og auðvitað sveitarfélaganna. Sjálfstæður lagabálkur ætti að skýra tilgang og markmið þeirrar löggjafar og á hvern hátt hún eigi að vera í framkvæmd. Ég tel hins vegar að það ætti að vera sjálfstæð löggjöf um leiguíbúðir og það sé afturför að taka þær inn í hið almenna kerfi.
    Ég vil taka það fram áður en ég held lengra að ég sit í félmn. og mun greiða götu þessa frv. og brtt. við það sem ég tel til bóta eftir því sem mögulegt er. En það er að sjálfsögðu rétt að það þarf að skoða frv. vel. Það er gríðarmikill lagabálkur og hinn flóknasti.
    Ég vil líka vekja athygli á því sem ég hygg að hafi valdið ýmsum vandkvæðum í húsnæðislánakerfinu á undanförnum árum en það eru þær öru breytingar á húsnæðislöggjöfinni sem við höfum gert ekki síst á þeim áratug sem er að ljúka. Ef ég fer rétt með hefur húsnæðislöggjöfinni sennilega verið breytt að meðaltali á tæplega tveggja ára fresti, þannig að raunverulega hefur aldrei náðst neitt jafnvægi í framkvæmd þeirra breytinga sem verið er að koma á. Eftir ár eða svo er alltaf farið að ræða um breytingar og í framkvæmd verður þetta afar erfitt. Ég minnist þess að þegar ég vann í félmrn. upphófst mikið af viðtölum og vissum erfiðleikum þegar það spurðist að breytinga væri von.
    Örfá orð um nokkur atriði í einstökum liðum frv. Í fyrsta lagi það sem snýr að sveitarstjórnunum. Ég er auðvitað mjög ásáttur á það að taka skipun nefndanna og verkamannabústaðakerfisins til breytinga. Ég tel hins vegar að í heild hefði verið hægt að ná

markmiðum frv. fram að verulegu leyti með því að endurskoða og lagfæra þann bálk betur en þarna er gert í staðinn fyrir að umbylta þessu svona mikið og láta verkamannabústaðakerfið lifa áfram hvort sem við breytum nafngiftinni á því eða ekki. Ég er hins vegar ekkert ósáttur við að tveir fulltrúar séu tilnefndir af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu. Mér finnst mjög eðlilegt að þau eigi aðild að þessu. En mér finnst vanta í frv. að það sé nægilega skýrt að sveitarstjórnin er lokaafgreiðsluaðili þeirra samþykkta sem húsnæðisnefndin gerir. Það þarf að mínu viti að vera alveg skýrt. Tekur það bæði til úthlutunar íbúða og annarra atriða sem mér finnst ekki vera alveg nógu ljós í frv. eins og það er. Að mínu viti er það nokkuð stórt sveitarfélag þar sem búa 200--400 manns og þar sem einn ,,kommissar`` á í raun að að annast þessi málefni. E.t.v. ætti nefndin að vera þriggja manna á þeim stöðum. Ég held að það sé mikið lagt á einn mann að taka að sér úthlutun íbúða eða gera einn tillögu til sveitarstjórnar um úthlutun, svo eitt atriði sé nefnt af þeim verkefnum sem hljóta að verða falin þessum húsnæðisfulltrúa.
    Að sjálfsögðu er til mikilla bóta að sveitarstjórn skuli ekki lengur þurfa að leggja óafturkræft framlag til byggingar verkamannabústaða eða félagslegra íbúða. Ég tel hins vegar eðlilegt og sjálfsagt að sveitarstjórnir fái af því skuldabréfi sömu vexti til baka og lífeyrissjóðirnir fá á sín skuldabréf. Það er ekki óeðlilegt að sveitarstjórnirnar sem eru flestar í --- kannski ekki fjárhagserfiðleikum en alla vega eru fjármál ekki það léttasta verk sem er til meðferðar hjá sveitarstjórnum og því ætti ekki að skylda þær til að lána út á 1% vöxtum ef við miðum við þá vexti sem eru í dag.
    Annað vandamál held ég að komi upp. Í 67. gr., r-liðnum er veitt heimild til þess að lána til bílskýla og til upphitunar í gangstétt og við hana eru settar vissar takmarkanir. Ég held, og svo segir reyndar neðarlega í þessari grein, að við endursölu á eignaríbúðum skal bílskýli fylgja íbúð. Ef einhverra hluta vegna ekki er, samkvæmt kostnaðarstaðlinum, unnt að lána til byggingar bílskýlis eða bílskúrs geta orðið vandkvæði þegar íbúðin er til sölu. Það eru mýmörg dæmi um að fólk hefur ákveðið að kaupa íbúð og náði samkomulagi við
stjórnina sem sér um endursöluna og fyrri eiganda um leið. En þar sem í upphafi var ekki lánað til bílskúrsins heldur einungis til íbúðarinnar hafa komið upp viss vandkvæði vegna þess að eigandi bílskúrsins hefur viljað fá hann greiddan sem fyrst, helst staðgreiddan en samkvæmt byggingarlöggjöfinni er óheimilt að aðskilja bílskúr og íbúð. Ég held því að það ætti að vera skýrt ákvæði um að ef þess er krafist af skipulagsástæðum að byggt sé bílskýli með hverri íbúð skuli lána til þess. Og hlýtur maður að taka undir það að ástæðulaust er að bílskýli sé byggt á dýrari hátt en þörf krefur. Það verður að gæta hagkvæmni í því eins og ýmsu öðru.
    Ég er líka sammála því að ríkisstjórnin taki ákvörðun um vexti af þessum lánum, það er mjög

eðlilegt, og hafi um það umsögn Seðlabankans. En eins og kemur fram í ákvæðinu um endurskoðun vaxta, s s. (95. gr.), hjá þeim sem fær lánið finnst mér átta ár ansi langur tími frá undirritun kaupsamnings þar til unnt er að endurskoða vextina og síðan á fimm ára fresti. Ég tel að tíminn ætti að vera skemmri og endurskoðunin síðan að fylgja skattframtali viðkomandi aðila. Ef hann er kominn vel upp fyrir þau tekjumörk sem sett eru á hann ekki að vera með vexti svona mikið niðurgreidda. Við þekkjum mörg dæmi þess að námsmenn og einstæðir foreldrar hafa farið inn í kerfið og síðan hafa aðstæður þeirra breyst. Við getum nefnt dæmi um presta, alþingismenn jafnvel og tannlækna sem hafa notið þessara kjara og það er auðvitað ástæðulaust að greiða niður vexti, jafnvel í 30--40 ár, á lánum þessa fólks þegar aðstæður hafa breyst mikið frá því sem var við úthlutun.
    Svo langar mig að spyrja í sambandi við framkvæmdalánin. Húsnæðismálastjórn er heimilt að fella niður vaxtagreiðslu framkvæmdaaðila við sérstakar aðstæður. Ég er forvitinn að vita hverjar þessar sérstöku aðstæður geta verið þannig að vaxtagreiðslur séu felldar niður af framkvæmdalánum.
    Eins er það í kaflanum um rétt einstaklings til úthlutunar á félagslegum íbúðum. Í fyrsta lagi má hann ekki eiga íbúð fyrir eða samsvarandi eign í öðru formi. Ég hef áhuga á að vita hvernig samsvarandi eign í öðru formi hefur verið skilgreind. Það er ljóst að viðkomandi gæti verið skráður fyrir íbúð, rétt á meðan úthlutun fer fram, sem hann er um það bil að missa vegna greiðsluskorts eða af einhverjum öðrum ástæðum þannig að ég veit ekki nema þarna sé svolítið hart tekið til orða.
    Síðan eru það meðaltekjurnar. Ég hef ekki fastmótaðar skoðanir á því hvort meðaltekjur hafi hækkað of mikið. Mér sýnist þó að hjá fjögurra manna fjölskyldu þar sem eru hjón með tvö börn geti meðaltekjur á þriggja ára tímabili verið komnar í 120 þús. kr. á mánuði. Það hlýtur í raun að þýða að rauntekjur síðustu mánuða hafi verið allmiklu hærri en 120 þús. Eins og menn vita hefur verið rætt um alþm. sem hátekjumenn, en ef ég man rétt er þingfararkaupið núna um 155 eða 158 þús. kr. og til þess að ná 120 þús. kr. meðaltekjum á þremur árum held ég að þetta sé að nálgast það hjá fjögurra manna fjölskyldu að þingmenn séu undir tekjumörkunum.
    Í sambandi við þetta atriði má nefna að auðvitað er nauðsynlegt að gætt sé fyllstu hagkvæmni við byggingu félagslegra íbúða. Sem betur fer hafa íbúðirnar farið batnandi. Þær voru hér áður fyrr svolítið spartískar, ef ég má nota það orð, en núna er, að mínu viti, kannski á mörkunum að hægt sé að segja að fyllstu hagkvæmni hafi ekki verið gætt í byggingunum. Ég hef skoðað nokkrar íbúðir bæði hér í Reykjavík og nágrenninu og ég dreg í efa að einstaklingur sem hefði byggt þær íbúðir hefði lagt jafnmikið í þær eins og raun ber vitni. Þetta segi ég án nokkurra athugasemda við það að fólk búi í eins góðum íbúðum og tök eru á, en það verður auðvitað

að gæta fyllstu hagkvæmni í því eins og öðru.
    Í sambandi við ráðstöfun íbúða hefði ég viljað skjóta inn í 83. gr. á bls. 9. Þar segir: ,,Húsnæðisnefnd úthlutar í umboði sveitarstjórnar ...`` Það umboð nær náttúrlega ekki nema til þess að gera tillögu til sveitarstjórnar um úthlutunina. Við þekkjum mörg tilfelli í litlum sveitarfélögum þar sem komið hefur upp ágreiningur. Það er því rétt að sá aðili sem í lokin ber ábyrgðina, þ.e. sveitarstjórnarmenn, því séu öll tvímæli tekin af um að þetta sé tillaga til sveitarstjórnarinnar.
    Í 4. gr. á bls. 14 er fjallað um kaflann um forkaupsrétt sveitarfélaga á íbúðum byggðum samkvæmt lögum fyrir gildistöku laga nr. 51/1980 og eru gerðar ýmsar breytingar á honum sem ég hef ekki alveg gert mér grein fyrir. Ég vil þó fullyrða að þar hafa skapast mjög mörg vandamál á undanförnum áratugum og alltaf öðru hverju verið að breyta reglugerðum og reyndar lagagreinum í þessu sambandi. Sum tímabilin hafa sveitarstjórnir eða raunverulega húsnæðismálastjórn orðið af með verulega mikið fjármagn og þeir sem áttu þessar íbúðir hafa nánast lent í veislu. Ég geri mér nú ekki alveg grein fyrir hvernig þessi breyting kemur fram en vænti þess að það sé miðað við raunverulegt söluverð íbúða á þeim stað sem um er að ræða og tekið tillit til fyrninga og áhvílandi lána.
    Ég vildi samt leggja megináhersluna á að þegar svo títt er breytt lögum í jafnviðamiklum lagabálki og húsnæðismálalöggjöf þjóðfélagsins verður að gæta
þess að gera það ekki það títt að menn nái aldrei að róast niður og gera sér grein fyrir hvernig þróun mála og framkvæmd laganna verður. Ég held að það að breyta lögum um svo viðamikinn málaflokk á tæplega tveggja ára fresti sé ansi langt gengið og valdi ýmsum erfiðleikum.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð mikið fleiri. Ég hef í félmn. möguleika á að fara yfir einstök atriði einstakra greina og mun reyna að greiða götu þess eftir því sem kostur er.