Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutt vegna ræðu hæstv. félmrh. Mér fannst sem hún hefði skilið mitt mál þannig að ég væri á móti því að félagslegar íbúðir væru byggðar. Þannig voru viðbrögð hennar og svör a.m.k. Það er að sjálfsögðu alrangt. Ég tók skýrt fram að vissulega yrði að sinna þessum þætti af kostgæfni, þ.e. félagslegu íbúðunum. En það sem ég var að leggja áherslu á var að ekki má slæva sjálfsbjargarviðleitni fólks, þess sem getur og vill eignast þak yfir höfuðið og vill og getur verið inni í almenna lánakerfinu, að ekki sé verið að draga úr því. Ég tók sérstaklega fram að sinna þyrfti þessu hvoru tveggja og leggja áherslu á að þeim, sem gætu verið í almenna húsnæðislánakerfinu og þyrftu ekki að falla undir félagslega aðstoð, væri líka sinnt. Það var það sem ég lagði áherslu á. Þetta vildi ég ítreka til þess að koma í veg fyrir að það mætti misskilja orð mín svo sem mér fannst koma fram af ræðu hæstv. ráðherra.
    Hæstv. ráðherra ræddi nokkuð um athugasemdir sem ég gerði m.a. um hvernig ætti að skipa í húsnæðisnefndirnar. Ég vil aðeins ítreka það viðhorf sem kom fram í mínu máli hér fyrr. Það er fyrst og fremst með tilliti til þess að sveitarstjórnir eiga að bera fjárhagslega ábyrgð á félagslegum íbúðum og enn fremur ábyrgð á framkvæmdum. Þess vegna er það brýnt að þeir sem sitja í þessum nefndum séu trúnaðarmenn sveitarstjórna. Við verðum að líta á það raunsæjum augum og við vitum að í svona stjórnum myndast bæði meiri hluti og minni hluti. Samkvæmt lýðræðinu á fulltrúi minni hluta í viðkomandi sveitarstjórn rétt á því að eiga einn fulltrúa af þeim þremur sem sveitarstjórn kýs. Þar með er viðkomandi meiri hluti sveitarstjórnar ekki lengur meiri hluti í þessari nefnd ef hann á ekki nema tvo fulltrúa og ekki fyrir séð hvaðan þeir tveir koma sem tilnefndir verða af launþegahreyfingunni. Þetta finnst mér að menn verði bara að horfa á raunsæjum augum. Við getum tekið eitthvert dæmi, sem
kannski þykir langsótt. Við getum hugsað okkur að félmrh. hefði t.d. skipað í nefnd til að semja þetta frv. eingöngu fulltrúa frá Sjálfstfl. og kannski einn frá Alþfl. Ég býst við að henni hefði ekki fundist að hún ætti þá trúnaðarmenn sína sem væru að semja það frv. sem hún legði fyrir slíka nefnd. Þannig vil ég að það sé litið á þetta raunsæjum augum og það sé skilningur á því að sveitarstjórnir sem eiga að bera þessa fjárhagslegu ábyrgð og hafa framkvæmdina með höndum séu þá líka ábyrgar í þessum nefndum og eigi þar meiri hluta. Mér finnst ekkert athugavert við það þó að jafnvel væri gert ráð fyrir því í lagaákvæði að sveitarstjórn bæri að tryggja að einn eða tveir af fulltrúum þeirrar fimm manna nefndar væru úr samtökum launafólks í viðkomandi sveitarfélagi.
    Það var annað atriði sem ég gleymdi að taka fram. Það var talað um að nefndin sjálf eigi að skipta með sér verkum. Enn þá síður væri það réttlætanlegt ef skipan í nefndina væri með þeim hætti sem frv. gerir

ráð fyrir. Auðvitað hlýtur sveitarstjórn að skipa formann slíkrar nefndar sinn trúnaðarmann. Þetta vildi ég ítreka hér aftur og ég vænti þess svo sannarlega að það takist að breyta þessu í meðförum nefndarinnar, að meiri hlutinn í slíkum nefndum sé trúnaðarmenn meiri hluta viðkomandi sveitarstjórnar.
    Ég get alveg tekið undir með hæstv. ráðherra þegar hún nefndi einstæða foreldra og húsnæðisvandamál þeirra. Við vitum að oft eru þau vandræði tilkomin vegna skilnaðar. Það er ljóst að þetta fólk lendir oft í tímabundnum vandræðum. Auðvitað er þetta hópur sem þarf að sinna og fellur undir það sem ég sagði hér áðan, það á að gera það af kostgæfni.
    En svo er aftur hinn þátturinn sem við höfum kannski ekki fjallað hér um og kannski ekki heldur beinlínis ástæða til en væri þó auðvitað freistandi. Hvers vegna eru svona margir sem þurfa á þessari hjálp að halda og hvers vegna er ekki leitað annarra leiða til að bæta kjör fólksins almennt í landinu, bæði einstæðra foreldra og annarra? Það mætti gera það með ýmsum hætti til að þetta fólk héldi sjálfsvirðingu sinni og væri sjálfbjarga og þyrfti ekki að leita félagslegrar aðstoðar. Það væri kannski líka ekki síður mikilvægt mál að leggja áherslu á.
    Hæstv. ráðherra upplýsti um leiguhúsnæði að leigan væri líklega 40--50 þús. kr. á almenna markaðinum en 15--20 þús. kr. held ég að hún hafi nefnt, mánaðarleiga leiguhúsnæðis í félagslegum íbúðum. Ég held að ég hafi skilið það rétt. Mig langaði til þess að spyrja hana hvernig sú tala kæmi út ef viðkomandi hefði hug á því að kaupa sér íbúð í félagslega kerfinu þegar húsaleiga er 15--20 þús. kr. með tilliti til þess að það væru afborganir sem mættu greiðast mánaðarlega. Ég kom aðeins inn á það. Hún svaraði því ekki hér áðan, sem er kannski ekki við að búast, en ég kom aðeins inn á það hvort kannað hefði verið varðandi afborganir af lánum, ef afborganir væru tíðari og kæmu frekar út eins og mánaðargreiðslur, hvort það mundi ekki auðvelda mörgum að standa í skilum.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en mér þótti miður að
heyra þann málflutning hæstv. ráðherra að hún gerði því skóna að við værum að gera lítið úr þessum félagslega þætti. Við vorum ekki að því en við viljum ekki að það sé gert lítið úr þeim þætti sem snýr að því fólki sem á að vera inni í almenna húsnæðislánakerfinu.