Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að ég gleymdi síðustu breytingum á tekjuskatti. Það er þannig að nú eru komnar vaxtabætur í stað húsnæðisbóta. Það er alltaf verið að breyta. Húsnæðisbæturnar eru að vísu 110 þús. kr. en vaxtabætur mega að hámarki vera 174 þús. kr. hjá hjónum. Það er heimilt samkvæmt skattalögum að telja til vaxtabóta áfallnar verðbætur en ekki greiddar. Væri kannski fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá húsnæðisráðherra ef ég fer rangt með þessar tölur. Ég held ég skilji þetta rétt, að eins og lögin líta nú út er ekki um það að ræða að fólk hafi ekki ráð á að kaupa verkamannabústaði. Það væri fróðlegt að fá þetta athugað í nefnd. Ekki skal standa á mér, hæstv. forseti, að biðjast afsökunar á því ef ég hef misskilið lögin, en ég held að ég fari rétt með það að vaxtabætur séu að hámarki 174 þús. kr. Ég held að ég fari líka rétt með að það ákvæði stendur í lögum að heimilt sé að draga frá áfallna vexti og verðbætur. Það þýðir að auðvitað hefur fólk ráð á því að kaupa verkamannabústaði nú sem jafnan fyrr.