Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. um breytingu á lögum nr. 77/1979, um Háskóla Íslands.
    Hér er um að ræða breytingar sem sérstaklega lúta að stjórn Háskólans og eru þáttur í víðtækum breytingum á starfsemi Háskólans sem við höfum beitt okkur fyrir á undanförnum missirum.
    Það má segja að þær breytingar hafi m.a. birst með því að á síðasta þingi var ákveðið, með frv. sem samþykkt var að frumkvæði menntmrn., að auka mjög verulega sjálfstæði Háskólans við mannaráðningar og að sama skapi að skerða vald ráðherra. Á þessum vetri má segja að þrennt hafi gerst sem þarna skiptir máli. Í fyrsta lagi það að hér er lagt fyrir frv. til laga um nýja stjórnskipun Háskóla Íslands, í öðru lagi það að 1. mars sl. gaf ég út reglugerð um breytingu á reglugerð um Háskóla Íslands þar sem gert er ráð fyrir viðamiklum breytingum á háskólareglugerðinni og í þriðja lagi með því að margvísleg afgreiðsluverkefni sem til þessa hafa verið í ráðuneytinu munu nú flytjast til Háskólans.
    Ég ætla að gera grein fyrir þessum þáttum áður en ég kem að frv. sjálfu og þá fyrst þeim síðastnefnda, þ.e. þeim verkefnum sem flutt verða nú á þessu ári frá menntmrn. til Háskólans.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að allar auglýsingar um stöður í Háskóla Íslands verði framvegis afgreiddar í skólanum sjálfum. Þessar auglýsingar eftir stöðum og starfi í Háskólanum hafa til þessa verið afgreiddar í ráðuneytinu.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Háskólinn sjálfur fjalli um starfsmannaráðningar að verulegu leyti. Hann mun óska
eftir fulltrúum í dómnefnd og annast skipan dómnefnda að fengnum tillögum réttra aðila, m.a. ráðuneytisins. Hann mun taka við niðurstöðum dómnefnda. Háskólinn mun sjálfur ganga frá ráðningarsamningum, nýráðningu og breytingu á ráðningum, og senda menntmrn. Háskólinn mun fjalla um synjun í stöðu og skipanir. Háskólinn mun fjalla um leyfaveitingar allar, m.a. beiðnir um launalaus leyfi eða skemmri tíma leyfi sem til þessa hafa verið afgreiddar í ráðuneytinu. Þetta fer allt til Háskólans. Beiðni um lausn frá stöðu verður hins vegar send menntmrn. og beiðni um greiðslur til dómnefndarmanna verður send til menntmrn. Að öllu öðru leyti mun Háskólinn fjalla um þessi mál sjálfur. Þessi ákvörðun er í samræmi við þá almennu stefnu sem við höfum rekið í skólamálum, að flytja valdið út til skólanna, bæði grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.
    Við þessar breytingar er svo því að bæta að hinn 1. mars. sl. gaf ég út breytingu á reglugerð um Háskóla Íslands þar sem opnað er fyrir það að unnt verði að stunda nám til doktorsprófs í Háskólanum. Í þessari reglugerð er gert ráð fyrir því að unnt verði að þreyta meistarapróf í dönsku, ensku, íslenskum bókmenntum, íslenskri málfræði, íslenskum fræðum og sagnfræði og síðan doktorspróf, eins og ég sagði, í

íslenskum bókmenntum, íslenskri málfræði og sagnfræði. Hér er sem sagt um að ræða mjög mikilvæga breytingu á háskólareglugerðinni sem á að styrkja hann sem höfuðháskóla íslenskra fræða, sem hann þarf að vera, ekki aðeins fyrir Íslendinga heldur einnig fyrir þá útlendinga sem þurfa og vilja leggja stund á íslensk fræði en þeir eru margir og fer fjölgandi.
    Að því er varðar frv. um breytingu á lögum um Háskóla Íslands er þar til að taka að 6. júlí sl. samþykkti háskólaráð tillögur um breytingar á lögum nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, með miklum meiri hluta atkvæða. Þessar tillögur voru lagðar fram af rektor Háskólans og þær byggjast á tillögum stjórnsýslunefndar Háskóla Íslands, lokaskýrslu. En á fundi háskólaráðs 18. des. 1986 hófst undirbúningur að þessum breytingum með því að skipuð var vinnunefnd til að undirbúa endurskoðun á stjórnsýslu Háskólans.
    Þessar tillögur sem fjallað hefur verið um í Háskólanum í fjögur ár beinast fyrst og fremst að því að auka sjálfræði eininga Háskólans og þar með valddreifingu, skilvirkni og ábyrgðarskil í almennri stjórnsýslu og deildum auk þess sem þátttaka háskólaþegna í ákvörðunum Háskólans verður ríkari en verið hefur.
    Segja má að tillögurnar flokkist að því er markmið varðar í fjóra þætti.
    Í fyrsta lagi gera tillögurnar ráð fyrir að stefna beri að aukinni valddreifingu og sjálfræði rekstrareininga innan Háskólans. Allar deildir Háskólans hafa nú náð þeirri stærð og þroska að tímabært er að auka sjálfræði þeirra.
    Í öðru lagi miða tillögurnar að því að starfsmenn Háskólans, hvort sem þeir sinna fyrst og fremst kennslu og rannsóknum eða stjórnsýslustörfum, vinni saman að stefnumótun og framkvæmd málefna Háskólans.
    Í þriðja lagi er lögð á það áhersla í þessum tillögum að eðlilegri verkaskiptingu og sérhæfingu verði komið á innan hinnar sameiginlegu
stjórnsýslu Háskólans þannig að skyld verkefni falli undir sömu stjórnunareiningar.
    Og í fjórða lagi miða tillögurnar að því að treysta sjálfstæði Háskólans með lýðræðislegu stjórnskipulagi og sveigjanleika í starfsháttum.
    Eins og ég sagði í upphafi eiga þessar tillögur sér langan aðdraganda og má finna glögga lýsingu á þessum aðdraganda m.a. í skýrslum sem
Háskólinn hefur birt. Í upphaflegri vinnunefnd um þetta mál voru Þórir Einarsson prófessor, formaður, Valdimar K. Jónsson prófessor, Ásmundur Brekkan prófessor, Jónatan Þórmundsson prófessor og Jón Gunnar Grétarsson stud. phil.
    Í tillögunum er lögð á það megináhersla að auka valddreifingu og sjálfræði rekstrareininga Háskólans. Stjórnsýsla háskóladeildanna hefur í raun og veru vaxið út úr hinni sameiginlegu stjórnsýslu Háskólans og lotið fyrirmælum og leiðbeiningum hennar. Nú er hins vegar svo komið, að okkar mati, að stjórnsýsla

deilda getur staðið á eigin fótum og þess vegna er talið rétt að fella hana stjórnunarlega að fullu inn í heildarstjórnkerfi skólans. Deildir þurfa að axla fjárhagslega ábyrgð á rekstri sínum þannig að stjórnsýsla sem greidd hefur verið af sameiginlegu fé kemur á rekstur deilda. Samfara þessu er nauðsynlegt að styrkja bæði starf deildaforseta og skrifstofustjóra deilda.
    Það gegnir í raun og veru furðu að í háskólalögunum frá 1979 skuli háskóladeildir ekki vera taldar upp sem einn af stjórnaraðilum Háskólans í upphafi 2. gr. háskólalaga, heldur aðeins háskólaráð, rektor, háskólaritari og kennslustjóri. Deildir Háskólans stjórna þó aðalstarfsemi hans þar sem þær einar rækja meginverkefni Háskólans, að vera vísindaleg rannsóknastofnun og vísindaleg fræðslustofnun, en hin almenna stjórnsýsla Háskólans er einungis stoðstarfsemi við þessa aðalstarfsemi.
    Deildarforseti á að vera í fyrirsvari deildar út á við og inn á við. Í dag er staða deildarforseta ekki nægilega vel skilgreind. Um hana eru margvísleg ákvæði dreifð um háskólalög og reglugerðir. Deildarforseti á sæti í háskólaráði og tekur þannig þátt í ákvarðanatöku þess. Hann getur orðið varaforseti háskólaráðs og þar með staðgengill rektors. Hann boðar deildarfundi og atkvæði hans ræður úrslitum ef atkvæði deildarfundar falla jöfn. Forseti deildar metur að hve miklu leyti erlend háskólapróf stúdenta skuli viðurkennd. Þessi ákvæði eru ófullnægjandi því að samkvæmt þeim er helsta verksvið deildarforseta nánast að vera fundarstjóri.
    Deildir þurfa að okkar mati að vera sjálfstæðar kostnaðareiningar. Það þarf að vanda betur gerð fjárlagatillagna og fjárhagslegt eftirlit á ráðstöfunum fjárlagaheimilda fyrir deildir í samráði við fjármálastjórn Háskólans. Þótt hægt sé að flytja ýmis verkefni til deilda frá hinni almennu stjórnsýslu án laga- og reglugerðarbreytingar er þó æskilegt að til séu skýr, formleg ákvæði um sjálfræði deilda.
    Það er nauðsynlegt að gefa gaum að stjórnskipulagi deilda með það í huga að fá fram skilvirkari ákvarðanatöku en verið hefur til þessa. Slík stjórnsýsla nýtir að sjálfsögðu vel ráðstöfunarþætti sína og aflar sér trausts. En auknu sjálfræði fylgir aukin ábyrgð og þess vegna er í þessum tillögum gert ráð fyrir að fram fari reglulega mat á starfsemi deildanna um leið og þær eru gerðar sjálfstæðari í starfi sínu frá degi til dags. Allt þetta krefst þess að deildarforsetastarfið verði eflt og skrifstofur verði alfarið færðar undir stjórn deildanna.
    Þessi þáttur sem ég hef hér rakið þjónar fyrsta meginþættinum í þessum tillögum sem lýtur að valddreifingu og sjálfræði rekstrareininga innan Háskólans.
    Í öðru lagi miða tillögurnar að því, eins og ég gat um, að starfsmenn Háskólans, hvort sem þeir sinna fyrst og fremst kennslu og rannsóknum eða stjórnsýslustörfum, vinni saman að stefnumótun og framkvæmd málefna Háskólans. Skilvirkni í starfi háskólaráðs hefur aukist með tilkomu fastra

starfsnefnda í einstökum málaflokkum. Þær hafa undirbúið mál fyrir ráðið ýmist að eigin frumkvæði eða ráðsins og dæmi eru um að ráðið hafi framselt ákvörðunarvald til starfsnefndanna, t.d. úthlutun úr rannsóknasjóði Háskólans. Sumar þessara nefnda fjalla um mjög breiða og víðtæka málaflokka er tengjast öllum skólanum. Hafa þær í daglegu tali verið kallaðar starfsnefndir háskólaráðs. Hér er um ræða kennslumálanefnd, vísindanefnd, þróunarnefnd, kynningarnefnd, alþjóðasamskiptanefnd, starfsnefnd og starfsnefnd byggingarmála. Aðrar háskólanefndir sinna afmarkaðri verkefnum eins og lögskýringarnefnd, áfrýjunarnefnd, sáttanefnd og fleiri slíkar nefndir. Þessi tilhögun með stafsnefndirnar hefur gefist vel og er talin ástæða til að finna því starfi farveg í formlegu skipulagi Háskólans. Þessu markmiði er reynt að ná í frv. þessu, m.a. með því að fella starfsnefndir á kerfisbundinn hátt inn í stjórnskipulag Háskólans.
    Í þriðja lagi er, eins og ég gat um áðan, markmið þessa frv. að koma á eðlilegri verkaskiptingu og sérhæfingu innan hinnar sameiginlegu stjórnsýslu þannig að skyld verkefni falli undir sömu stjórnunareiningar. Núgildandi háskólalög gera ráð fyrir þrískiptingu stjórnsýslunnar í svið háskólaritara,
kennslustjóra og byggingarstjóra. Á báðum fyrri ábyrgðarsviðum hefur verkefnum og starfsfólki fjölgað að undanförnu þótt því fari fjarri að fjöldi starfsfólks í stjórnsýslu Háskóla Íslands nálgist það sem tíðkast í sambærilegum skólum annars staðar. Út frá skilgreindu starfssviði háskólaritara hafa t.d. orðið til tvö veigamikil störf, fjármálastjóri og starfsmannastjóri. Enn fremur hefur bæst við aðstoðarmaður rektors og prófstjóri. Mikið af tíma hins fyrrnefnda hefur farið í störf fyrir vísindanefnd og þróunarnefnd háskólaráðs. Þá hefur ný starfsemi verið tekin upp á undanförnum árum, eins og endurmenntunarstofnun, námsráðgjöf, nemendaskrá Háskólans og rannsóknaþjónusta Háskólans. Þetta hefur leitt til breytinga á skipulaginu án þess að hugað hafi verið að því að samræma þær lögum og reglugerðum fyrr en nú að gerð er tilraun í þessa átt.
    Hér er gert ráð fyrir þeim breytingum að stjórnsýslusvið Háskólans verði sem hér segir: Bygginga- og tæknisvið, fjármálasvið, kennslusvið, rannsóknasvið, samskiptasvið og starfsmannasvið.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri fjármálasviðs, þ.e. í raun og veru sama embætti og til þessa hefur verið háskólaritari, hafi í umboði rektors og háskólaráðs heimild til að skuldbinda Háskólann og háskólastofnanir fjárhagslega, hafi yfirumsjón með fjármálastjórn Háskólans, bókhaldi og samræmdri innkaupastarfsemi. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs á að undirbúa gerð fjárhagsáætlunar skólans að fengnum tillögum deilda og stofnana og hann á að hafa eftirlit með notkun fjárveitinga og að hún sé í samræmi við fjárlög. Enn fremur á framkvæmdastjóri fjármálasviðs að hafa eftirlit með sjóðum Háskólans.
    Framkvæmdastjóri samskiptasviðs á hins vegar í umboði rektors að hafa yfirumsjón með rekstri almennrar skrifstofu, upplýsingum til aðila innan

skólans og utan, kynningu á Háskólanum og samskiptum Háskólans við aðra háskóla og stofnanir. Framkvæmdastjóri starfsmannasviðs hefur í umboði rektors yfirumsjón með sameiginlegum málefnum Háskólans er lúta að launum og öðrum starfsmannamálum í samræmi við lög, reglugerðir, stefnu skólans og kjarasamninga.
    Framkvæmdastjóri bygginga- og tæknisviðs hefur í umboði rektors yfirumsjón með viðhaldi fasteigna og lóða, rekstri verkstæða, húsvörslu og ræstingu. Í samráði við starfsnefndir háskólaráðs á bygginga- og tæknisviði skipuleggur hann tæknilegan undirbúning og eftirlit með nýbyggingum.
    Framkvæmdastjóri rannsóknasviðs hefur í umboði rektors yfirumsjón með sameiginlegum málefnum Háskólans er lúta að rannsóknum, svo sem ráðgjöf og aðstoð við kennara og stofnanir, gerð rannsóknaskrár, stjórnsýslu rannsóknasjóðs og rannsóknaþjónustu við atvinnulífið.
    Framkvæmdastjóri kennslusviðs hefur hins vegar í umboði rektors yfirumsjón með sameiginlegum málefnum skólans er snerta nemendur, kennslu, prófhaldi, skráningu stúdenta og ráðstöfun á húsnæði Háskólans til kennslu.
    Í fjórða lagi, eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, miða tillögurnar að því að treysta sjálfstæði Háskólans með lýðræðislegu stjórnskipulagi og sveigjanleika í stjórnarháttum. Sjálfstæði háskóla um eigin málefni er forsenda fyrir frjórri starfsemi hans og er viðurkennd meginregla í öllum lýðræðisríkjum. Í reynd eru sjálfstæði Háskóla Íslands auðvitað takmörk sett með fjárveitingum Alþingis og stjórnvaldsaðgerðum ráðherra menntamála og fjármála á hverjum tíma.
    Eldri reglur um aðild að ákvörðunum í Háskólanum sýna að litið hafi verið á Háskólann sem samfélag kennara, fyrst og fremst. Nýrri hugmyndir eru þær að Háskólinn sé samfélag kennara, sérfræðinga, nemenda og stjórnsýslufólks sem deilir stjórnunarábyrgð með sér samkvæmt nánar skilgreindum reglum í háskólalögum og reglugerð. Reglur um sjálfsstjórn Háskólans koma fram í lögum þegar skipað er fyrir um ákvarðanatöku í einstökum málum eins og stöðuveitingum. Þar fyrir utan ræðst sjálfsstjórn hans af stjórnsýsluhefð sem byggist á því að menntmrn. og ráðherra eru alla jafna ekki með beina íhlutun í einstök málefni Háskólans. Auk þess hefur háskólaráð umsagnarrétt um breytingar, viðauka og nýmæli er varða lög og reglugerðir um skólann.
    Í þeim tillögum sem hér liggja fyrir er leitast við að styrkja enn frekar sjálfræði Háskólans og lýðræðisleg vinnubrögð innan hans. Í háskólaráði, sem hefur æðsta ákvörðunarvaldið í sjálfsstjórnarmálefnum skólans, mætast fulltrúar háskólasamfélagsins. Þar sitja nú rektor, níu deildarforsetar, fjórir fulltrúar stúdenta og tveir frá Félagi háskólakennara. Auk þess sitja ráðsfundi háskólaritari og kennslustjóri með málfrelsi og tillögurétti en án atkvæðisréttar. Einn hópur háskólasamfélagsins er þó undanskilinn beinum áhrifum í háskólaráði, en það er starfsfólk Háskólans

að öðru leyti. Tillögurnar gera ráð fyrir að einn fulltrúi starfsmanna stjórnsýslunnar auk háskólaritara taki sæti í háskólaráði með málfrelsi og tillögurétti en án atkvæðisréttar. Verði hann kjörinn skriflegri kosningu af starfsfólki stjórnsýslu til tveggja ára í senn. Einnig er lagt til að fjöldi stúdenta í skorarstjórn og deildarráði sé hlutfall af fjölda manna í stjórn en ekki föst tala eins og verið hefur.
    Samkvæmt upplýsingum þeim sem fyrir liggja um þetta mál og að höfðum þessum inngangi er rétt að víkja að því, virðulegi forseti, að kostnaður af þessum breytingum er óverulegur. Það kemur t.d. fram á bls. 8 í grg. frv. þar sem gert er ráð fyrir að stofnaðar verði eftirtaldar nýjar stöður: Framkvæmdastjóri byggingarsviðs, kennslusviðs, samskiptasviðs, starfsmannasviðs, rannsóknasviðs og loks framkvæmdastjóri fjármálasviðs sem er háskólaritari. Á móti þessum stöðum falla niður byggingarstjóri, kennslustjóri, aðstoðarháskólaritari, starfsmannastjóri, háskólaritari og ráðgjafi rektors í byggingamálum sem hefur verið í 80% stöðu.
    Ég hef nú, virðulegi forseti, gert almenna grein fyrir frv. og meginforsendum þess. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla ítarlega um einstakar greinar frv. Ég vek athygli á að í 1. gr. er gert ráð fyrir að ákvæðið um stjórn Háskólans í 1. mgr. 2. gr. verði útvíkkað þannig að það nái yfir deildir, deildarforseta og framkvæmdastjóra stjórnsýslusviða og orðin háskólaritari og kennslustjóri falli niður í samræmi við ný starfsheiti.
    Ég vil einnig vekja athygli á þeirri breytingu sem fram kemur í 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að háskólaráð ráði framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs til fimm ára en áður höfðu háskólaritari og kennslustjóri verið forsetaskipaðir. Með öðrum orðum er hér verið að fækka þeim embættismönnum sem eru forsetaskipaðir og um leið að fela háskólaráði það vald að ráða framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðanna sem ég nefndi áðan til fimm ára í senn, takmarkaðs tíma í senn.
    Þá er einnig gert ráð fyrir að rektor en ekki menntmrn. ráði annað starfslið almennrar stjórnsýslu eftir því sem fé er veitt til. Þá er gert ráð fyrir að deildarforsetar ráði starfslið deildarskrifstofa að höfðu samráði við rektor eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni. Hér er um að ræða mikilvæga grein sem skiptir miklu máli varðandi það atriði að styrkja einingarnar og styrkja Háskólann sem sjálfstæða stofnun.
    Þá vil ég einnig vekja athygli á því að um leið og aukið er sjálfstæði Háskólans og styrkt hlutverk deildanna er í 5. gr. frv. kveðið á um, sem er nýmæli, reglubundið mat á starfi deildanna.
    Þá er vert að vekja athygli á nafnbreytingu á viðskiptadeild sem fram kemur í 2. mgr. 9. gr. háskólalaganna, 5. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að deildin heiti framvegis viðskipta- og hagfræðideild í samræmi við reglugerðarbreytingar sem gerðar hafa verið.
    Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að fjöldi stúdenta í

skorarstjórn og deildarráði sé hlutfall af fjölda manna í stjórn en ekki föst tala eins og ég gat um áðan.
    Í 7. gr. er fjallað um það ákvæði, sem ég rakti aðeins fyrr, að auka fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð deilda með því m.a. að efla starf deildarforseta og kveða skýrar á um það en verið hefur.
    9. gr. kveður á um stöðu deildarforseta. Þar segir að þeir eigi rétt til að vera leystir undan skyldum sínum í föstu starfi að nokkru eða öllu leyti meðan þeir gegna starfi deildarforseta.
    Þá er rétt að vekja athygli sérstaklega á 10. gr. frv. en þar er gert ráð fyrir að tvær nýjar málsgreinar bætist við 36. gr. háskólalaganna. Sú fyrri fjallar um endurmenntunarstofnun en endurmenntunarstofnun hefur verið starfrækt um nokkurt skeið í samstarfi Háskólans, Tækniskóla Íslands, Bandalags háskólamanna og þriggja félaga háskólamanna. Á fundi háskólaráðs 27. júní 1989 samþykkti ráðið að koma á fót endurmenntunarstofnun og óskaði eftir heimild ráðuneytisins fyrir reglugerðarbreytingu þar að lútandi. Við féllumst ekki á þá beiðni Háskólans vegna þess að við töldum ekki að stoð fyrir slíkri stofnun væri að finna í lögum Háskólans og því þyrfti lagabreyting að koma til áður en sett yrði reglugerð um þessa starfsemi. Þessari beiðni Háskólans var með öðrum orðum synjað. 5. jan. sl. samþykkti háskólaráð svo tillögu um lagabreytingu og var hún send ráðuneytinu 9. mars sl. ásamt viðeigandi gögnum.
    Síðari málsgreinin sem bætist við 36. gr. háskólalaganna samkvæmt frv. fjallar um námsráðgjöf. Í henni segir að námsráðgöf sem hingað til hefur fallið undir yfirstjórn Háskólans skuli starfrækt sem háskólastofnun undir háskólaráði, en náms- og starfsráðgjöf gegnir veigamiklu hlutverki í öllu nútíma skólastarfi og það er óhjákvæmilegt að þjálfa fólk til að geta sinnt þeim verkefnum, bæði í framhaldsskólum og grunnskólum landsins.
    Ég hef þá, virðulegi forseti, gert grein fyrir efnisatriðum frv. og tel í sjálfu sér óþarfa að bæta þar neinu við öðru en því að ég ítreka að frv. er liður í þeirri almennu stefnumótun í skólamálum sem menntmrn. hefur beitt sér fyrir á undanförnum mánuðum og missirum, sem sagt þeirri að styrkja sjálfstæði skólanna, auka vald þeirra, fækka skriffinnskuverkefnum á borðum ráðherranna og ráðuneytanna og skapa ráðuneytinu þannig svigrúm til að sinna stefnumótun og þróun í staðinn fyrir pappírsvinnu af margvíslegu tagi. Þessi stefnumótun okkar birtist í þessu frv., í ákvæðum framhaldsskólalaganna sem við samþykktum hér á síðasta þingi og í ákvæðum grunnskólafrv. sem lagt var fram á þingi nú fyrir nokkrum sólarhringum.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að þessu frv. verði vel tekið á hinu háa Alþingi og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.