Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mál. Eins og kom fram, að ég held, í máli hæstv. menntmrh. er þetta frv. lagt fram að tillögu háskólaráðs Háskóla Íslands. Voru þessar tillögur unnar af stjórnsýslunefnd Háskóla Íslands sem skilaði lokaskýrslu og frv. er grundvallað á þeirri vinnu. Ég hef kynnt mér þessa skýrslu en reyndar ekki borið hana gaumgæfilega saman við frv. en hygg þó að þar hafi í meginatriðum verið farið eftir vinnu nefndarinnar.
    Frv. tel ég vera af hinu góða. Þar er lögð áhersla á aukna valddreifingu og sjálfræði rekstrareininga innan Háskólans og öll skipan mála í þessu plaggi er með mun nútímalegra sniði en stjórnsýslan hefur tíðkast í Háskólanum. Ég fagna því að þetta mál er komið fram. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum að því að ræða efnisatriði þess en tek undir þau í grundvallaratriðum og mun síðar hafa tækifæri til að fjalla um málið í menntmn. þar sem ég á sæti.