Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það kemur fram í athugasemdum með frv. sem hér er til 1. umr., þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands, að það er lagt fram að tillögum háskólaráðs Háskóla Íslands. Og í fljótu bragði sé ég ekki annað en það sé til bóta sem frv. fjallar um, ekki síst, eins og segir í athugasemdum með frv., að tillögurnar ,,beinast fyrst og fremst að því að auka sjálfræði eininga Háskólans og þar með valddreifingu, skilvirkni og ábyrgðarskil í almennri stjórnsýslu og deildum, auk þess sem þátttaka háskólaþegna í ákvörðunum verður virkari. Allt þetta stuðlar að því að háskólinn ræki hlutverk sitt betur og ekki verður gengið á sjálfstæði hans``. Þetta eru auðvitað mikilvæg atriði og það ber að fagna því að hæstv. menntmrh. hefur tekið tillögur háskólaráðs til greina og flytur þær hér í frumvarpsformi.
    Ég á sæti í menntmn. og ætla því ekki að taka afstöðu eða fjalla hér um einstaka þætti frv. nú við 1. umr. Ég fæ tækifæri til þess í störfum nefndarinnar. En ég vildi aðeins koma hér upp og lýsa því að ég mun leggja mitt af mörkum til þess að frv. fái góða afgreiðslu í nefndinni og fagna því að það er komið hér fram.