Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær góðu undirtektir sem frv. hefur fengið og ábendingar. Ég tel að margt væri hægt að segja um það sem fram kom í máli hv. 4. þm. Vestf. varðandi þá hugmyndafræði sem liggur að baki frv. og það sem ég lagði áherslu á í minni ræðu að öðru leyti um það mál. Ég tel að það sé óðum að verða til, bæði í formi lagafrumvarpa, laga, reglugerða og stjórnvaldsákvarðana, stefna í málum Háskóla Íslands, málum hins íslenska háskóla, þar sem valddreifing og sjálfstæði stofnunarinnar eru grundvallaratriði og ég vænti þess að um þá stefnu geti verið samstaða. Ég ætla mér ekki hér að fara út í það að ræða, þó ég gæti það býsna vel, hvar sú stefna varð til en bendi á að það er kannski fyrst núna sem menn eru af ýmsum ástæðum, bæði vegna áhuga í Háskólanum sjálfum og í ráðuneytinu, að hjálpast að við að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd.
    Mér finnst athyglisvert það sem hv. þm. sagði um þessa sviðsstjóra alla. Þetta er svona svipuð tilfinning og ég upplifði meðan ég var í stjórnarnefnd ríkisspítalanna þar sem forstöðumenn eru núna kallaðir sviðsstjórar, og voru kallaðir sviðahausar, sem ég vona nú að verði strikað út úr þingtíðindum eftir ráðherranum, sem er náttúrlega óheimilt, herra forseti. Mín vegna mega menn velta fyrir sér einhverjum betri orðum í þessu efni. En aðalatriðið á bak við tillöguna er það að nafngiftirnar séu samræmdar og þær bendi ekki til mismunandi stöðu mannanna. Það er hugsunin á bak við það að þetta er kallað framkvæmdastjóri þessa sviðs og framkvæmdastjóri hins. Þess vegna, ef menn ætluðu á annað borð að breyta þarna til, yrði að huga að því þannig að titlarnir gæfu ekki til kynna mismunandi stöðu þeirra innbyrðis og gagnvart háskólarektor og háskólaráði.
    Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. fyrir þessa umræðu sem hér hefur farið fram.