Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að minna hv. 5. þm. Norðurl. v. á að frv. það sem hér er til umræðu er stjfrv. og það var tillaga stjórnarflokkanna allra og þar á meðal Alþfl. að leggja til við Alþingi að þessar ríkisábyrgðir yrðu veittar. Breytingarnar sem gerðar hafa verið í samkomulagi við hæstv. fjmrh. gera frv. og væntanleg lög sveigjanlegri og líklegri til þess að þjóna tilgangi sínum. En það var tillaga Alþfl. að leggja til við Alþingi að ríkisábyrgðir yrðu veittar í þessum tilgangi.
    Ég vil svo vegna orða hv. 5. þm. Norðurl. v. rifja það upp að ráðherra viðskiptamála á að gæta hagsmuna viðskiptabankanna. Það er hans embættislega skylda. Ráðherra landbúnaðarmála fer með fiskeldismálefni og á að gæta þeirra hagsmuna. Það liggur þess vegna alveg í augum uppi að hér er verið að gefa þeim aðilum sem líklegir eru til þess að túlka aðra hagsmuni en þá að sýna aðhald að því er varðar ákvarðanir um ríkisábyrgðir aukin áhrif um þær ákvarðanir sem taka á á grundvelli þessara laga. Ég er ekki að halda því fram að væntanlegir fulltrúar þessara ráðherra eða þessir ráðherrar, hvorki þær persónur sem nú gegna þessum embættum eða þeir sem síðar kunna að gegna þeim, muni sýna ábyrgðarleysi í störfum. Þvert á móti eru skyldur þeirra, embættislegar skyldur þeirra að gæta annarra hagsmuna.
    Og þá er ég kominn að þeim rökum sem hv. 18. þm. Reykv. færði fyrir sínu máli. Þetta er spurning um hagsmunaárekstra. Þetta er ekki spurning um hvort einn aðili sýni meira ábyrgðarleysi en annar. Þetta er spurning um að þarna mætast fulltrúar aðila sem hafa mismunandi hagsmuna að gæta. Fyrir fram ætla ég ekki að væna neinn þeirra um annað en að gæta þeirra hagsmuna sem honum er falið samkvæmt lögum og stjórnarskrá. En hér er um að ræða ráðherra sem gæta ólíkra hagsmuna og það eru þeir sem togast á. Þeir sem gæta hagsmuna bankanna annars vegar, sem auðvitað hafa hagsmuni af því að ríkið taki á sig meiri
ábyrgðir, og þeir sem gæta hagsmuna fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra, sem auðvitað hafa hagsmuni af því að ríkið taki á sig meiri ábyrgðir, þeir fá aukin völd og aukin áhrif með þessari skipan. Það er þetta sem ég tel vera varhugavert. Og það er þess vegna sem ég tel eðlilegt að hafa hina fyrri skipan. Ekki vegna þess að ég treysti hæstv. núv. fjmrh. betur en hæstv. viðskrh. Þvert á móti gæti ég fært að því nokkuð gild rök að það væri ástæða til þess að hafa meira traust á hæstv. núv. viðskrh. en hæstv. núv. fjmrh. Það kemur hins vegar bara þessu máli ekkert við. Það eru hinar embættislegu skyldur þessara ráðherra á hverjum tíma sem skipta máli þegar ákvarðanir af þessu tagi eru teknar. Ég vildi gjarnan í þessari umræðu óska eftir því að fá álit hæstv. fjmrh. á þeirri tillögu sem hér hefur verið flutt. Hvort hann hefur skipt um skoðun eða hvort hann leggur fyrir sitt leyti áherslu á að gæta hér aðhalds með þeim

hætti sem ákveðið var í upphafi þegar frv. var lagt fyrir Alþingi. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri grein fyrir sínum skoðunum í þessu máli.