Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Herra forseti. Ég lýsi nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingar á lögum um bifreiðagjald. Nefndin fjallaði um frv. og fékk á sinn fund til viðræðna um það Ásmund Stefánsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hannes Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Stefán Magnússon og Björn Pétursson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og Braga Sigurjónsson og Stefán A. Finnsson frá Landssambandi vörubifreiðastjóra. Þá sátu einnig fund nefndarinnar frá fjmrn. þeir Bolli Þór Bollason og Snorri Olsen.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á þskj. 744.
    Þessar brtt. eru á þá leið að bifreiðagjald skuli vera 3,91 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar. Sé bifreiðin þyngri en 1000 kg skal að auki greiða 1,96 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar sem er umfram 1000 kg. Þó skal aldrei greiða lægra gjald en 2000 kr. né hærra gjald en 11.500 kr. af hverri bifreið á hverju gjaldtímabili, sbr. 1. mgr. 3. gr. Hér er um það að ræða að gjaldið hækki frá 1. júlí með gjalddaga þann 1. okt. um sem svarar 15% frá fyrra gjaldtímabili.
    Þá er breyting við 2. gr. Í stað orðanna ,,1. nóv. 1989, þ.e. 155,5 stig`` komi: 1. júní 1990. Þ.e. reikningsgrundvellinum verður breytt.
    Þá er breyting við 3. gr. sem orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1990. Þó skal ákvæði til bráðabirgða I öðlast þegar gildi og innheimta bifreiðagjalds samkvæmt því koma til framkvæmda fyrir gjaldtímabilið 1. jan. 1990 til 31. júní 1990. Þetta ákvæði skýrir sig að mestu leyti sjálft.
    Síðan kemur nýtt bráðabirgðaákvæði I svohljóðandi: Bifreiðagjald fyrir gjaldtímabilið 1. jan. 1990 til 30. júní 1990 skal vera 3,40 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar. Sé bifreið þyngri en 1000 kg skal að auki greiða 1,70 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar sem er umfram 1000 kg. Þó skal aldrei greiða lægra gjald en 1.700 kr. né hærra gjald en 10.000 kr. af hverri bifreið á hverju gjaldtímabili, sbr. 1. mgr. 3. gr.
    Álagningu gjaldsins samkvæmt þessum lið verður breytt þannig að það verði áfram föst krónutala upp að 1000 kg en fyrir hvert umframkíló komi 50% álag. Áfram verði hámarksgjald fyrir þyngstu bílana. Þetta er breyting frá upphaflegri ætlun, þ.e. samkvæmt forsendum fjárlaga, þar sem var gert ráð fyrir 83% hækkun þann 1. mars, en hækkunin samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði verður lægri eða 50%.
    Bráðabirgðaákvæði II er einnig í brtt. og þar segir: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. skal gjalddagi og eindagi fyrir gjaldtímabilið 1. júlí 1990 til 31. des. 1990 vera 1. okt. 1990.
    Umsögn Alþýðusambands Íslands er prentuð með þessu nál. en þar kemur fram álit fulltrúa Alþýðusambandsins og undirritað af forseta ASÍ. Þar

segir:
    ,,Ég hef kannað áhrif frumvarps til breytinga á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, á framfærsluvísitölu. Þó málið hafi ekki verið yfirfarið í Kauplagsnefnd tel ég allt benda til þess að með breytingunum sé uppfyllt það fyrirheit ríkisstjórnarinnar að náð verði verðlagsáhrifum sem svara 0,3% á mælikvarða framfærsluvísitölu.`` Undir þetta ritar forseti Alþýðusambands Íslands, Ásmundur Stefánsson.
    Að meirihlutaáliti fjh.- og viðskn. standa og undir það rita Páll Pétursson, formaður nefndarinnar, Ragnar Arnalds, Guðmundur G. Þórarinsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.