Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 1. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. en hann skipar ásamt mér hv. þm. Matthías Bjarnason.
    Tvívegis hefur það gerst að afgreiðslu þessa máls hefur verið frestað, fyrst fyrir síðustu jól þegar hæstv. ríkisstjórn gafst upp á því að koma þessu máli í gegnum þingið en ákvað að fresta gjalddaga bifreiðagjalds til 1. mars. Þegar leið að þeim tíma var málinu enn frestað og gjalddaga frestað til 1. apríl. Nú loks hefur hæstv. ríkisstjórn komið sér saman um það hvernig afgreiða skuli þetta mál og er það gert í tengslum við kjarasamninga. En eins og alþjóð er kunnugt og öllum hv. þm. voru það aðilar vinnumarkaðarins sem mótuðu heildarstefnu í efnahagsmálum sem hæstv. ríkisstjórn hefur síðan neyðst til þess að fylgja.
    Sú ákvörðun að lækka þetta fyrirhugaða gjald sem átti að hækka um 100%, hækkar ekki nema um 50%, er tekin vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins kröfðust þess að fallið yrði frá nokkrum fyrirhuguðum hækkunum á sköttum á þessu ári, eða sem nemur 0,3% í framfærsluvísitölu.
    Þegar fyrst var rætt um hækkun á þessu gjaldi í haust og rætt var um skatt á bifreiðaeigendur þá stóð hæstv. fjmrh. hér í ræðustól og sagði að nú væri kominn tími til þess að leggja mengunarskatta á umferðina --- eco taxis, með c-i --- og sagði að á næstu árum yrðu hv. alþm. uppteknir af því að ræða um hvernig bregðast skyldi við aukinni mengun og nú væri komið að því að finna aðferð til að draga úr þessari mengun. Þetta var út af fyrir sig ágætis ræða en þegar á hólminn kom reyndist þessi mengunarskattur vera nákvæmlega sams konar kílóaskattur af bifreiðum og áður hafði verið lagður á en átti nú að vera tvöfalt hærri. ( Gripið fram í: Þetta var bara egó ráðherrans.) Já, þetta var reyndar skrifað með c-i en ekki með g-i, ég varð að taka það sérstaklega
fram af því að ég vissi að nokkrir hv. þm. mundu eflaust misskilja það vegna framburðar míns. En það er skýrt tekið fram að þetta er eco-skattur með c-i.
    Það er alveg augljóst hver tilgangurinn er með þessu frv. Tilgangurinn er sá að svíkjast um að láta þá fjármuni sem koma af umferðinni og af bifreiðum ganga til framkvæmda í vegamálum, en að ná í aukna skatta af bifreiðaeigendum og láta þá renna til ríkissjóðs. Þetta kemur skýrt fram í gögnum frá fjmrn. og sést skýrlega þegar menn líta á það fjármagn sem á að renna til vegamála og síðan þá fjármuni sem innheimtast af bifreiðagjöldum, og þá er talað um bifreiðagjald í þrengstu merkingu, auk þungaskatts og bensíngjalds.
    Það er nú svo að núv. hæstv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. fjmrh. hefur sífellt verið að hækka skatta. Ávallt hefur rökstuðningurinn verið hinn sami, útgjöldin hafa verið svo mikil að það þarf að hækka skattana til að endar nái saman. Ég rifja það upp að

þegar fjárlög síðasta árs voru samþykkt rétt fyrir jólin 1988 agði hæstv. ráðherrann að nú væri kominn tími til að hv. Alþingi samþykkti raunhæf fjárlög. --- Raunhæf fjárlög, og ég giska á að samþykktar hafi verið þá skattahækkanir upp á u.þ.b. 7 milljarða króna. Og hæstv. ráðherra sté hér í pontu og sagði: Nú skulu Íslendingar fá að sjá það, nánast í fyrsta skipti að kominn er maður við stjórnvölinn sem ætlar að taka á þessu máli. Og hann bætti við og sagði: Það er nú líklega betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og borð fyrir báru því ég ætla að skila rekstrarafgangi upp á u.þ.b. 600 millj. kr. --- Framan af síðasta ári var hæstv. ráðherra æði borubrattur og sagði að þetta gengi allt saman upp. Við árslok kom hins vegar í ljós að hallinn var 6 milljarðar. Með öðrum orðum, tekjuafgangurinn sem átti að vera 600 millj. breyttist í halla upp á 6 milljarða. Og þá er ég kannski kominn að kjarna málsins og hann er þessi: Það er engin trygging fyrir því að hægt sé að loka svokölluðu fjárlagagati með aukinni skattheimtu. Það skiptir nefnilega langsamlega mestu máli að takast á við sjálft vandamálið sem er útgjaldaþensla ríkissjóðs. Ef menn takast ekki á við það vandamál þá er alveg sama hvað menn leggja á mikla skatta, útgjöldin munu hækka meira en skattarnir. Það er einmitt í þessari súpu sem hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn situr, það er að takast ekki á við hin raunverulegu vandamál heldur að eltast við sífellt meiri tekjur í ríkissjóð sem koma að engu gagni vegna þess að útgjöldin vaxa jafnt og þétt.
    Þess vegna, virðulegur forseti, er það álit okkar sjálfstæðismannanna sem sitjum í hv. nefnd að við eigum að mæla gegn þessu frv. og þess vegna leggur 1. minni hl. hv. nefndar til að frv. verði fellt.
    Með nál. eru birtar ýmsar umsagnir, bréf nokkurra aðila til fjmrh. og formanna þingflokka. Að auki eru upplýsingar frá fjmrn., annars vegar nýjar upplýsingar um aðgerðir til að lækka framfærsluvísitölu, eins og það heitir, og hins vegar gamlar upplýsingar sem komu fram í svari við fsp. hv. þm. Hreggviðs Jónssonar um bifreiðagjald, þar sem kemur fram að álagning bifreiðagjalds á árinu 1989 var 805 millj. kr. Ég nefni þetta sérstaklega hér vegna þess að því er haldið fram að bifreiðagjaldið hækki tekjur ríkissjóðs um 350 millj. og nái 1000 millj. kr. á yfirstandandi ári.
    Það er athygli vert að álagningin er miklu hærri en þær greiðslur sem koma inn á árinu og virðist það benda til þess að gjöldin hafi greiðst bæði seint og illa. Væri þess vegna full ástæða til að spyrjast fyrir um það hvernig á því stendur að enn vantar sjálfsagt hundruð milljóna á að bifreiðagjaldið hafi skilað sér og hvort einhver vandræði hafi verið með þá innheimtu eða hvort um ofáætlun hafi verið að ræða.
    Þetta er að sjálfsögðu aukaatriði, lítils háttar atriði í málinu sjálfu, aðalatriðið er það að hér er á ferðinni nýtt skattahækkunarfrumvarp. Nú á að skattleggja bifreiðaeigendur miklu meira en gert hefur verið. Nú á að sjá til þess að fjármunirnir sem koma af umferðinni lendi ekki í framkvæmdum til vegamála

heldur inn til hæstv. fjmrh. Þetta er gert til þess að láta tekjur mæta gjöldum hjá ríkissjóði þótt ljóst sé að hæstv. ríkisstjórn hafi gefist upp á því að takast á við útgjaldavandamál ríkissjóðs sem er það vandamál sem blasir við þessari hæstv. ríkisstjórn. En hún hefur gefist upp við það eins og flest annað sem viðkemur stjórn efnahagsmála, öðru en því sem hún hefur tekið frá þeim aðilum vinnumarkaðarins sem samþykktu kjarasamninga fyrir skömmu og lögðu hæstv. ríkisstjórn lífsreglurnar. Í þeim efnum hefur ríkisstjórnin fengið sæmilegt vegakort en þar sem því korti sleppir er hæstv. ríkisstjórn á villigötum um eðlilega stefnumótun og stefnumið.