Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér hefur verið til umræðu eitt af helstu hugsjónamálum hæstv. fjmrh. Ég tók eftir því að undir umræðunni var hann niðursokkinn fyrri hluta umræðunnar, fyrst við að lesa Þjóðviljann og síðan við að lesa Alþýðublaðið. Þegar þeim lestri lauk tók hæstv. ráðherra til við að lesa dagblaðið Tímann. En það er alkunna að sá fjmrh. sem óumdeilanlega hefur hlotið viðurnefnið besti fjármálaráðherra landsins, Jón Þorláksson, hafði þá meginreglu að lesa aldrei dagblaðið Tímann.
    En það var nú ekki fyrst og fremst þetta sem ég ætlaði að varpa hér fram hæstv. ráðherra til aðvörunar. Hann eyddi talsverðum tíma af þessari umræðu til að sökkva sér ofan í skrif Þjóðviljans og Alþýðublaðsins í dag. Þau blöð eru fleytifull af frásögnum af framboðserfiðleikum Alþfl. og Alþb. vegna borgarstjórnarkosninganna sem nú fara í hönd. Hæstv. ráðherra ætti að leiða svolítið hugann að því hvers vegna þeir flokkar standa nú frammi fyrir þessum miklu erfiðleikum. Ég skil að hann hefur mikinn áhuga á því að fá útlistanir á því í blöðunum hvernig stríðið stendur frá degi til dags, hver er með hverjum í dag og hver er á móti hinum á morgun og hverjir eru í framboði fyrir marga flokka eða tvo flokka og þar fram eftir götunum. Öll er þessi revía hin skemmtilegasta fyrir þá sem utan við standa. En ég hygg að ástæða væri fyrir hæstv. ráðherra að velta þessum erfiðleikum og ógöngum sósíalista fyrir sér. Kannski á hann sjálfur svolitla sök á því og kannski svolítið meira en svo litla sök á því hvernig komið er málum hjá þessum tveimur stjórnmálaflokkum.
    Hæstv. ráðherra hefur gengið hér fram á tveimur þingum með berserksgangi í skattheimtu. Hann hefur gengið lengra fram í því efni en nokkur annar með skefjalausu tillitsleysi og skilningsleysi á högum almennings, því að allir hafa þessir skattar bitnað með mestum þunga á launafólki og einna helst þeim
sem við kröppust kjör búa. Og nú, þegar aðilar vinnumarkaðarins hafa nýlokið gerð kjarasamninga, þegar aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt efnahagsgrundvöll fyrir hæstv. ríkisstjórn, þegar launafólkið í landinu hefur varist þeirri árás ríkisstjórnarinnar sem stefndi að því að lækka kaupmáttinn um 5% og með samningum við atvinnurekendur komið því svo fyrir að kaupmátturinn á þessu ári ætti ekki að skerðast nema um 1%, þá kemur hæstv. fjmrh. og reiðir hér eitt höggið til viðbótar. Nú á að hækka bifreiðagjöldin um 50%. Og hæstv. ráðherra kemur hér og ver þessa gjörð eins og ekkert hafi gerst, eins og ekkert hafi í skorist. Ég hygg að í þingsögunni séu engin dæmi um slíka óskammfeilni og fá dæmi um slíma glámskyggni á raunveruleikann eins og þessi málatilbúnaður og þessi tillöguflutningur hæstv. fjmrh. hér á hinu háa Alþingi. Það kann að vera að það hafi verið afsakanlegt þegar ráðherra hóf stríð sitt gegn almenningi í landinu með hinum stórkostlegu skattahækkunum að hann hafi ekki séð fyrir afleiðingar þess. En nú liggur fyrir að honum

hefur ekki tekist að minnka bilið milli gjalda og tekna með þessari herferð gegn almenningi í landinu. Þetta hefur ekki leitt til þeirrar niðurstöðu. Og frá mínum bæjardyrum séð er það í meira lagi kynlegt af formannni í stjórnmálaflokki sem kennir sig við alþýðu landsins að koma hér fram, eftir þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið, eftir að forustumenn launafólksins í landinu hafa sýnt þann skilning sem raun hefur orðið á og lagt jafnmikið af mörkum í minnkandi kaupmætti til að draga úr viðskiptahalla og koma hér á nýjum efnahagsgrundvelli, þá skuli það vera launað, þá skuli endurgjald og þakklæti hæstv. ríkisstjórnar vera sýnt með því að koma hér fram með tillögu um 50% hækkun á bifreiðagjöldum. Það er eins og hæstv. ráðherra hafi ekki vaxið upp úr gamla skólanum hjá Eysteini sem hélt að bílar væru lúxus. Bílar eru almenningseign í dag. Þeir eru eign nánast hverrar einustu fjölskyldu. Þessi skattur kemur þess vegna með mestum þunga niður á þeim sem kröppust hafa kjörin og þola síst viðbótarálögur.
    Það sem eftir stendur í lok þessarar umræðu er þetta: Þegar launafólkið hefur fært sínar fórnir til þess að leggja hér grundvöll að bættum efnahag þjóðarinnar flytur hæstv. fjmrh. þakkir sínar með því að hækka bifreiðagjöldin á launafólkinu um 50%. Ég held að hann ætti að leggja aðeins við hlustir. Ég held að hann ætti að hugleiða þegar hann les Alþýðublaðið og Þjóðviljann á hverjum degi þar sem fjallað er um framboðsraunir þessara tveggja A-flokka svokölluðu, Alþfl. og Alþb., að það kynni ekki að vera að þessi styrjöld hæstv. ráðherra við launafólkið í landinu sé nokkur ástæða fyrir þeim erfiðleikum. Þetta er ég ekki að segja vegna þess að ég hafi einhverja sérstaka ástæðu til þess að flytja hæstv. ráðherra heilræðaboðskap eða að ég hafi einhverja ástæðu til þess að leggja honum til ráð til þess að bregðast við þeim mikla vanda sem flokkur hans stendur nú frammi fyrir. Þetta er ég aðeins að segja vegna þess að mér finnst það óhæfa að Alþingi Íslendinga samþykki þær tillögur í þessu efni sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér fyrir.