Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Vegna þeirrar skattheimtu sem hér er boðuð vil ég gera þá grein fyrir atkvæði mínu að við kvennalistakonur erum ekki endilega andvígar þessari skattheimtuleið heldur fyrst og fremst framkvæmd hennar og hvernig þessum skattpeningum skal varið. Það verður ekki öllu betur orðað en í minnihlutaáliti sem lagt var fram hér á Alþingi fyrir tveimur árum og undirritað var af þeirri sem hér stendur og hæstv. núv. samgrh. og hljóðar svo:
    ,,Minni hlutinn er andvígur þessu gjaldi á bifreiðar, ekki vegna þess að fráleitt þurfi að vera að leggja gjald á bifreiðar heldur vegna þess að ekkert á að fara til vegaframkvæmda af þeirri skattheimtu sem hér um ræðir.`` Í ljósi þessa segi ég nei.