Bifreiðagjald
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. hefur af því áhyggjur að sinnaskipti hafi orðið hjá mér sem ég skil hann svo að hann telji vera til hins verra. Ég vil þá hughreysta hv. þm. með því að í raun og veru hafa nú ekki orðið stór sinnaskipti hvað það snertir að sem mikill áhugamaður um samgöngubætur í landinu kysi ég helst að öllum álögum á bifreiðar og umferð yfir höfuð væri unnt að verja til þeirra framkvæmda, til þess málaflokks, og teldi í raun og veru á engan hátt of í lagt þó að mestöllum tekjum, svo að ég segi ekki öllum, sem hið opinbera hefur af innflutningi bifreiða og af umferð í landinu sem eru þó allverulegar, yrði varið til þessa málaflokks. Svo hefur reyndar ekki verið um langt skeið og reyndar aldrei eins og hv. þm. þekkja. Þvert á móti hafa innflutningsgjöld og tollar, aðflutningsgjöld af bifreiðum, sem og gjöld af því tagi sem hér um ræðir, bifreiðagjöld, og nokkurra ára hefð er fyrir, runnið í ríkissjóð.
    Þegar við skiluðum umræddu nál. minni hl., ég og hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir, var að ljúka því ári á þessum áratug sem vegaframkvæmdir hafa orðið minnstar í landinu að raungildi. Það var því í nokkuð öðru samhengi sem við ræddum þessi mál en nú er. Þá verður líka að hafa í huga þær aðstæður í ríkisfjármálum sem verið hafa uppi á hinum tveimur síðustu árum við þær þröngu efnahagslegu kringumstæður sem við höfum búið við og einkennst hafa af samdrætti í efnahagslífinu og minnkandi tekjum hjá ríkissjóði eins og öðrum aðilum reyndar. Allt þetta verður að hafa í huga vilji menn gera sanngjarnan samanburð á þeim aðstæðum sem móta afstöðu manna og viðhorf þegar tekin er afstaða til mismunandi tillagna.
    Við þær aðstæður sem uppi voru á sl. vetri, þegar reynt var að ná saman endum í ríkisbúskapnum og lokafjárlögum, varð það einfaldlega fyrir valinu sem ein af tekjuöflunarleiðum ríkisins að hækka talsvert þessi
nefndu bifreiðagjöld og afla þannig tekna og dugði þó ekki til eins og alkunnugt er og var fjárlögunum lokað með verulegum halla, verulegu gati, engu að síður. Síðan hefur reyndar aftur orðið þarna breyting á og verið horfið að hluta til frá fyrirhugaðri hækkun sem lið í aðgerðum til að lækka sérstaklega framfærsluvísitölu í tengslum við kjarasamninga. Allt er þetta hv. þingmönnum kunnugt. Og það er alveg rétt, ég hef átt aðild að þessu og ber fulla ábyrgð á þessari afgreiðslu eins og aðrir hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og vísa til aðstæðna þegar ég útskýri það hvers vegna ég hef tekið þá ákvörðun að eiga aðild að þessu og bera á því ábyrgð og vona að þetta svar dugi hv. 1. þm. Suðurl. og öðrum sem á mál mitt hlýða og að þeim sé þá nokkuð rórra eftir að ég hef gefið þessar útskýringar.