Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (frh.) :
    Allt er þegar þrennt er, virðulegi forseti, og vonast ég til að geta lokið ræðu minni í þriðju atrennu.
    Ég var einhvers staðar þar kominn að ég var að ræða athugasemdir hæstv. fjmrh. við frv. og var raunar búinn að víkja að öllum athugasemdum hans nema þeirri síðustu en þá athugasemd gerði hann við 9. gr., um takmörkun tímabundins yfirdráttar, en í þeirri grein er lagt til að ríkissjóði sé heimilt að yfirdraga viðskiptareikning sinn í Seðlabanka Íslands að tilteknu hámarki sem ákveða skal í fjárlögum hverju sinni. Þetta er m.a. gert til þess að menn geri raunhæfari greiðsluáætlanir en gerðar eru núna. Sú greiðsluáætlun er gerð í upphafi árs, síðan er samið um það við Seðlabanka Íslands hversu mikið ríkissjóður hugsar sér að yfirdraga viðskiptareikning sinn á hverjum mánuði á þeim tíma sem eftir lifir af árinu og fari ríkissjóður fram úr því samkomulagi ber honum að standa skil á refsivöxtum. Þessir refsivextir hafa verið mjög háir og skipt mjög verulegum fjárhæðum, þannig að það er full ástæða til þess annaðhvort að gera raunhæfari samning við Seðlabanka Íslands um yfirdráttarheimildir en gert hefur verið og losna þannig við mjög háa refsivaxtagreiðslu ellegar þá hitt að reynt sé að setja mörk um hvaða yfirdrátt ríkissjóður má hafa við Seðlabanka Íslands og ekki sé heimilt að fara fram úr því. Okkar tillaga er sem sé sú að við fjárlagaafgreiðsluna sé tekið sérstaklega fram hvað yfirdráttarheimildin sem ríkissjóður mun óska eftir við Seðlabanka Íslands megi vera há og er þetta miðað við það sem fram hefur komið hjá mér áður og miðað við þá reynslu sem menn hafa fengið.
    Ég ætla svo, virðulegi forseti, að víkja að þeim 14 atriðum sem hæstv. fjmrh. birti þingheimi í sérstöku plaggi, dags. 7. mars 1990, sem kallast ,,Tillögur fjármálaráðherra um umbætur við fjármálastjórn ríkisins, nýskipan í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds á vettvangi ríkisfjármála og um aukið aðhald í ríkisrekstri.``
    Ég tek fram í þessu sambandi að margt af því sem er talið í þessum 14 punktum er gamalkunnugt, hefur verið hér oft í umræðu á hv. Alþingi en aldrei náð neitt lengra. Gallinn við þessa umræðu alla saman sem hefur verið í þingsölum og utan þeirra um nauðsyn aðhaldsaðgerða í ríkisrekstri er einmitt sá að menn hafa gjarnan fjallað um það í almennum orðum en hins vegar heykst á því eða alla vega hefur sú umræða aldrei náð lengra en svo að þetta hefur verið rætt í almennum orðum, stundum nokkuð háfleygum, en þegar komið hefur að því að setja niður tilteknar reglur um það hvernig þessum almennu orðum skuli beitt, þá hefur vantað það sem við á að éta. Og það er enn svo að í þessum 14 tillögum, sem hér eru fram lagðar, er raunar ekkert sem ekki er lýst í svo almennum orðum að erfitt er að fá á því handfestu. Vil ég í því sambandi sérstaklega benda á 9. töluliðinn þar sem segir að allar greiðslur úr ríkissjóði verði annaðhvort samkvæmt heimildum í fjárlögum

eða fjáraukalögum og aukafjárveitingar lagðar niður. Þarna er orðað í almennum orðum það sem sett er í lagatexta í frv. okkar um fjárgreiðslur úr ríkissjóði og er það í fyrsta skipti sem reynt er að orða þessa almennu yfirlýsingu í ákveðinn lagatexta.
    Það er oft svo með okkur Íslendinga að við hneigjumst til að haga orðum okkar í almennum yfirlýsingum sem eru ósköp áferðarfallegar en engjumst hins vegar eins og ormar á túni þegar að því kemur að þarf að festa niður einhverjar grundvallarreglur til að fylgja eftir þessum almennu yfirlýsingum. Okkur lætur það afskaplega illa að hugsa sértækt. Okkur lætur afskaplega illa að koma niður í lagatexta þeim almennu hugleiðingum sem við erum með og sýnum þá gjarnan þau viðbrögð að sjá á öllu löst en á engu kost og snúa síðan umræðunni á ný upp í þær almennu yfirlýsingar og háfleygu orðræður sem okkur þykir svo gaman að viðhafa bæði hversdags og á tyllidögum. Það er einmitt þetta sem kemur fram í þessum 14 punktum hæstv. fjmrh. Þetta er allt saman ósköp gott, á allt gott skilið og flestallir ef ekki allir landsmenn gætu tekið undir flest af því sem þar er sagt. En þetta er búið að segja mjög oft áður og menn hafa aldrei fylgt því öllu lengra úr hlaði en með þessum almennu yfirlýsingum og svo bregðast menn við, hæstv. forseti, eins og stunginn grís þegar lagður er fram lagatexti til þess að fullnægja þessum almennu orðum og yfirlýsingum.
    Nú langar mig til að víkja nokkuð að þessum punktum hverjum fyrir sig sem eru flestir gamalkunnir og byrja á þeim fyrsta. Þar leggur hæstv. ráðherra
til að fjallað verði um útgjaldahlið fjárlaga og tekjuhlið fjárlaga á sama tíma og af sömu aðilum á Alþingi. Þingsköpum verði breytt til að tryggja slík samhæfð vinnubrögð. Nú er það sannast sagna, herra forseti, að þetta er ekki framkvæmanlegt eins og það er orðað í þessum almenna texta. Það nægir ekki að breyta þingsköpum heldur verður að breyta stjórnarskránni því hún kveður á um að fjárlög skuli rædd og afgreidd í sameinuðu Alþingi en tekjuöflunarfrumvörp skuli rædd og afgreidd í deildum. Án þess að þessu ákvæði stjórnarskrár sé breytt er ekki hægt að framkvæma þá hugmynd að útgjaldahlið fjárlaga og
tekjuhlið séu ræddar á sama tíma og af sömu aðilum á Alþingi. Þetta er einfaldlega ekki hægt nema með breytingu á stjórnarskrá og virðist hæstv. fjmrh. ekki alveg hafa gert sér það ljóst þegar hann leggur tillögurnar fram. Eins og allir vita hefur í áratugi verið umræðuefni stjórnmálamanna að gera þær breytingar sem hér er verið að ýja að. Með öðrum orðum að gera þær breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins að sameina hinar tvær deildir Alþingis í eina. Því aðeins að það sé gert er hægt að tryggja þá breytingu sem hæstv. ráðherra er hér að ýja að. Menn vita að þrátt fyrir mikla umræðu um nauðsyn þess að breyta Alþingi úr tveimur deildum í eina hefur það aldrei náðst fram og verður ekki séð, a.m.k. eins og sakir standa, að sú breyting sé neitt nær okkur í tíma nú en verið hefur. Því er harla lítils virði í sambandi

við frv. sem hér er til umræðu að drepa því máli á dreif með því að tala um þessa gömlu hugmynd sem hefur verið rætt um í sambandi við breytingu á stjórnarskrá.
    Í tölul. 2 í tillögum ráðherrans er sagt að í stað fjvn. verði sett upp með breytingu á þingsköpum fjárlaganefnd sem hafi það verkefni að fjalla bæði um útgjaldahlið fjárlaga og tekjuhlið fjárlaga. Og það er sama um þetta að segja. Þetta nær ekki fram að ganga nema með stjórnarskrárbreytingu og a.m.k. hingað til hefur Alþingi Íslendinga ekki verið reiðubúið til að gera þá breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins sem þessi hugmynd kallar á, þ.e. að breyta þjóðþinginu úr tveimur deildum yfir í eina. Og þó vissulega megi vel ræða þessar hugmyndir, sem hafa lengi verið ræddar og eru ekkert nýjar út af fyrir sig, í svipuðum dúr og gert hefur verið hingað til er engin ástæða til að ætla að framkvæmdin standi nær okkur í tíma nú en hún hefur gert undanfarin ár og áratugi.
    Þá er 3. liður í tillögunum ákvæði um að ákveðin verði verkaskipting hinnar nýju fjárlaganefndar, sem ekki er hægt að stofna nema með breytingu á stjórnarskrá, og einstakra fagnefnda Alþingis. Fjárlaganefndin hafi það verkefni að fjalla um heildargjöld fjárlaganna og stærstu drættina í gerð þeirra. Fagnefndir þingsins fjalli um þann þátt fjárlaganna sem snýr að þeirra vettvangi, þ.e. menntamálafjárlögin, heilbrigðisfjárlögin o.s.frv. Og enn er um þetta það sama að segja. Þetta er ósköp áferðarfalleg hugmynd. Hún hefur oft verið rædd. Forsenda hennar er sú að Alþingi starfi í einni deild. Því aðeins er hægt að tryggja að hin svokallaða nýja fjárlaganefnd geti starfað.
    Mig langar til að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að hér er lýst því kerfi sem viðgengst í Svíþjóð. Því kerfi er nánar lýst á bls. 14 í fylgiskjali II með frv. til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði sem fjárveitinganefndarmenn hafa flutt. Í fljótu bragði mætti ætla að lýsingin á fjárlagavinnunni í sænska þinginu, eins og hún er sett þar fram, hafi verið tekin nærfellt stafrétt upp í þessa tillögu. Það er út af fyrir sig ánægjuefni að vinna fjárveitinganefndarmanna við upplýsingaöflun skuli hafa orðið til þess að einhverjir fengju nýjar hugmyndir sem hafa kannski ekki verið mikið til umræðu fyrr hér á landi.
    Hins vegar er í þessu sambandi horft fram hjá því að þessi vinnubrögð við fjárlagaafgreiðsluna eru að takmörkuðu leyti viðhöfð á Alþingi Íslendinga. Eins og allir vita er það samvinnunefnd samgöngumála, þ.e. samgöngumálanefndir beggja þingdeilda, sem fjallar um þann þátt fjárlagagerðarinnar sem lýtur t.d. að flóabátastyrkjum og ýmsum smærri styrkjum til samgöngubóta. Þannig að þessar tvær þingnefndir koma að því máli. Menntamálanefndir beggja deilda fjalla um heiðurslaun rithöfunda þannig að menntamálanefndir koma að því leyti við fjárlagaafgreiðsluna. Og það er alkunna að kjördæmahóparnir sem skipaðir eru þingmönnum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu hafa síðasta orðið um framkvæmdaframlög, t.d. til hafnamála, skólamála og

vegamála, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Þannig að þó sænska kerfið, sem miklu betur er lýst á bls. 14 í fylgiskjali með frv. því sem hér er flutt, sé að vísu ekki tíðkað hér hefur sá háttur verið hafður á við fjárlagaafgreiðsluna að miklu fleiri hafa komið að þeirri afgreiðslu og ráðið um tillögugerð í því efni en bara fjvn. Kjördæmahóparnir hafa haft þar mikið að segja og eins tvær af nefndum deildanna, samgöngunefndirnar og menntamálanefndirnar.
    Fjórða tillaga lýtur að því að samin verði fjárlagaáætlun til þriggja ára í senn, hún samþykkt á Alþingi og síðan notuð sem viðmiðun og grundvöllur fyrir fjárlagagerð hvers árs. Hæstv. fjmrh. kom með þessa tillögu, að mig minnir við síðustu fjárlagagerð, og lýsti henni þar í fjárlagaræðu sinni. Svona áætlun, þriggja ára fjárlagaáætlun, hefur áður verið gerð og lögð fram á Alþingi þó að hún hafi ekki verið formlega staðfest. Og hæstv. ráðherra hefur látið vinna slíka áætlun í ráðuneyti sínu og hún er að mestu tilbúin og ættu því ekki að vera nein vandkvæði á því að leggja hana fram ef verkast vill en það hefur að sjálfsögðu ekkert að gera með það frv. sem hér er lagt fram. Það stendur sjálfstætt án tillits til þess hvað er gert eða ekki gert í sambandi við gerð þriggja ára fjárlagaáætlunar.
    Fimmti liður í tillögum hæstv. fjmrh. um að hlutverk, markmið og starfshættir ákveðins hluta allra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja verði metinn árlega frá grunni er einnig ágæt hugmynd sem er ekki ný af nálinni. Hún
hefur iðulega verið rædd, m.a. orðuð í fjvn. af ýmsum nefndarmönnum þar. Þar er um að ræða einbert framkvæmdaratriði og þarf ekki neina lagasetningu til. Hæstv. fjmrh. og fjmrn. geta framkvæmt þetta nákvæmlega svona ef framkvæmdarvaldið vill og ekkert stendur í vegi fyrir því að þetta sé gert og framkvæmt nema það eitt að það er eftir að taka formlega ákvörðun og sú ákvörðun er á valdi hæstv. fjmrh.
    Sjötti liðurinn í tillögum fjmrh. er að til þess að tryggja aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds verði starfsvettvangur fjvn. bundinn við setningu fjárlaga. Þátttöku fjvn. í framkvæmd fjárlaga sem tíðkast hefur á undanförnum áratugum og bundin er í ýmsum lögum verði hætt með öllu og þannig dregnar skýrar línur milli framkvæmdarvalds og fjárveitingavalds. Þetta er í sjálfu sér góðra gjalda vert og ekkert nema gott um þetta að segja, enda vek ég athygli á því að frv. sem við, þm. í fjvn., flytjum stefnir einmitt í þá átt að skerpa skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Hins vegar mun fjvn. eða hver sú nefnd sem Alþingi felur tillögugerðina um fjárlagaafgreiðsluna af sinni hálfu, slík nefnd mun aldrei geta komist hjá því, enda er það liður í sjálfsögðum starfsháttum, að fylgjast með framkvæmd fjárlaga til þess að gera sér grein fyrir því hvort þær áætlanir sem gerðar eru séu raunhæfar eða ekki og hvort framkvæmdarvaldið hafi virt þær ákvarðanir sem löggjafinn tekur í fjárlagaafgreiðslunni. Þess vegna er ekki hægt að gera svo glögg skil milli

löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að löggjafarvaldið áskilji sér ekki rétt til þess að fylgjast með því hvernig framkvæmdarvaldið stendur að framkvæmd fjárlaga. Með nákvæmlega sama hætti verður heldur ekki hægt að gera slík skil milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að framkvæmdarvaldið reyni ekki að fylgjast með og óska upplýsinga um hvaða ástæður liggja til grundvallar ákvörðun löggjafarvaldsins um fjárveitingar til einstakra viðfangsefna og verkefna.
    Sjöundi liðurinn í tillögum hæstv. ráðherra er að innan sérhvers ráðuneytis verði komið upp öflugum fjármálaskrifstofum. Þetta er verið að gera. Hin einstöku ráðuneyti hafa verið að vinna að þessu hin síðari ár og hefur orðið nokkuð ágengt.
    Áttunda tillagan kveður á um að fjárlagagerðin fari fram á grundvelli rammafjárlaga þar sem heildarupphæð fyrir hvert útgjaldaráðuneyti verði ákveðin fyrir fram og ráðuneytunum síðan falið að gera tillögur um útgjöld innan þessa ramma. Þessi hugmynd hefur einnig oft verið rædd og er út af fyrir sig ekkert sem stendur í vegi fyrir því að framkvæmdin sé nákvæmlega svona. Hæstv. fjmrh. getur, ef hann vill, hagað undirbúningi fjárlagagerðar af sinni hálfu og ríkisstjórnar svona. Það þarf enginn lagaatbeini til að koma til þess að hægt sé að taka upp þessi vinnubrögð heldur aðeins það að ríkisstjórnin samþykki að vinna þannig að verkinu eða að fjmrh. leggi fjárlagagerðina þannig fyrir hæstv. ríkisstjórn.
    Um níundu tillöguna hef ég rætt. Tíunda tillagan gerir ráð fyrir að með hverju því þingmáli, stjórnarfrumvarpi eða þingmannafrumvarpi sem leitt gæti til aukinna útgjalda fylgi tillaga eða greinargerð um það hvernig þeirra viðbótarútgjalda skuli aflað með breytingum á skattalögum eða með niðurskurði á öðrum ríkisútgjöldum. Hæstv. heilbrrh. hefur getið þess í ræðu sinni um þetta efni að það væri náttúrlega hægur vandinn fyrir fagráðherra sem legði fram frv. hér á Alþingi um verulega útgjaldaaukningu að gera tillögu um að skera niður í einhverju öðru ráðuneyti á móti. Það er væntanlega ekki það sem vakir fyrir hæstv. fjmrh. með þessari tillögu. Hins vegar eru í gildandi lögum ákvæði um að sérhverju frv. skuli fylgja áætlun um útgjöld því samfara. Þessi lagaákvæði hafa ekki verið virt og flestöll þingmál sem fyrir Alþingi hafa komið, hvort heldur frá ríkisstjórn eða þingmönnum, hafa verið því marki brennd að vantað hefur þá áætlun um útgjöld þeim samfara sem lög gera ráð fyrir að þeim fylgi.
    Ellefta tillagan er einnig gamalkunn, þ.e. að breyta skuli fjárlagaárinu frá almanaksári yfir í fjárlagaár sem hefjist t.d. að vori til þegar framkvæmdatímabilið hefst og standi til næsta vors þar á eftir. Um þetta hefur mikið verið rætt og sýnist þar sitt hverjum. Það er aðeins eitt land á öllum Norðurlöndum sem hefur annað fjárlagaár en almanaksár. Það er Svíþjóð. Öll hin ríkin hafa fjárlagaár og almanaksár eitt og hið sama. Þau þeirra sem ekki höfðu það, önnur en Svíþjóð, hafa breytt sínu fjárlagaári frá því að vera ekki almanaksár yfir í almanaksár. Mér er mjög vel

kunnugt um að Svíar sjá ýmsa vankanta á því að sameina ekki almanaksárið og fjárlagaárið.
    Þá er tólfta brtt. um að fjvn. verði gerð að heils árs nefnd. Um þetta hafa menn yfirleitt verið sammála sem að störfum í fjvn. hafa komið þannig að um þetta ríkir ekki ágreiningur en engu að síður hefur það ekki náð fram að ganga.
    Þrettánda tillagan er um að ríkisreikningsnefnd verði falið að endurskoða og meta hvaða úrbótum megi ná fram á þáttum eins og geymdum fjárveitingum og verðuppfærslu. Þetta er einnig ágæt tillaga og ekkert í lagasetningu sem kemur í veg fyrir að hún verði framkvæmd svona. Hæstv. fjmrh. getur falið ríkisreikningsnefnd að framkvæma svona endurskoðun. Þá væri mjög nauðsynlegt
að skoða annað og fleira en hann nefnir og má t.d. nefna hvernig fara eigi með skuldbindingar sem ríkissjóður tekur á sig á tilteknu ári en gjaldfalla á mörgum árum eða einhvern tíma síðar. Hvort eigi að skrá það í ríkisreikningi sem skuldbindingu sem í heild er tekin á því árinu sem hún er gerð eða hvort eigi að skrá það í ríkisreikningi eins og nú er gert, að aðeins útborgunin sjálf er færð til gjalda en skuldbindingin að öðru leyti ekki.
    Þá er fjórtánda tillaga hæstv. fjmrh. um að myndaður verði vettvangur fyrir samráð og skoðanaskipti milli fulltrúa framkvæmdarvalds og löggjafarvalds með því að endurvekja ríkisfjármálanefnd þar sem sitji fulltrúar úr fjmrn. og fjvn. Þessi nefnd, ríkisfjármálanefnd, er starfandi og hefur starfað lengi, ég veit ekki hversu lengi. Hún hefur starfað misjafnlega vel. Sl. 1 1 / 2 ár hefur nefndin nánast ekki starfað. Hún starfaði nokkuð vel árin þar á undan og það er að sjálfsögðu mjög einfalt að endurvekja nefndina ef vilji er fyrir því að hafa samráð milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds um málefni er varða fjárlagagerðina. En spurningin er náttúrlega hvort það sé vilji fyrir því, hvort sá vilji er í reynd. Ef svo er er hægur vandi að endurvekja þessa nefnd því að hún er raunar til.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir frv. og svarað þeim athugasemdum sem við það hafa verið gerðar. Ég hef farið yfir tillögur fjmrh. lið fyrir lið og vonandi sýnt fram á að þó að þær séu ágætar og góðra gjalda verðar varða þær ekki afgreiðslu frv. sem hér er lagt fram. Þetta er tilraun til þess að setja í lagatexta eina af þeim mörgu hugmyndum sem menn hafa verið að ræða um aðgerðir og aðhald í ríkisfjármálum, eina af þeim 14 hugmyndum sem fjmrh. hefur sjálfur reifað í almennum orðum.
    Að lokum, herra forseti, örfá orð um það sem hv. þm. Páll Pétursson sagði hér fyrr þegar frv. var til umræðu. Hann lýsti því yfir að frv. væri um að búa til 10 fjármálaráðherra og virtist líta svo á að þessir 10 fjármálaráðherrar, fyrir utan þann sem sæti í Arnarhvoli, væru meðlimir í fjvn. Það er ekki rétt. Fjvn. er ekki í þessu frv. færð meiri völd en hún hefur í dag. Henni eru t.d. ekki færð þau völd sem fjvn. hefur víða í nágrannalöndum okkar. Hér á Alþingi hefur t.d. verið flutt tillaga um að ekki væri

heimilt að greiða fé úr ríkissjóði nema fjvn. samþykkti það. Það skipulag er einnig í gildi í nálægum löndum að fjvn. viðkomandi þjóðþings afgreiðir allar aukafjárveitingar en ekki fjmrh. og fjmrn. Ef við hefðum lagt til slíka skipan mála, þ.e. að fjmrh. yrði að bera allar ákvarðanir sínar um greiðslur undir fjvn. og fá samþykkt hennar fyrir því, hvað þá heldur ef við hefðum lagt til að það vald yrði tekið úr höndum fjmrh. og aukafjárveitingavaldið fengið fjvn., væri með réttu hægt að segja að við værum að taka vald úr höndum fjmrh. og gera fjvn. að hálfgerðu fjmrn. En við leggjum það ekki til. Við leggjum ekki til að aukafjárveitingavaldið verði fengið fjvn. Og við leggjum heldur ekki til að fjmrh. verði að bera aukafjárveitingar sínar undir fjvn. og fá þær þar samþykktar. Við gerum það ekki vegna þess að við lítum svo á að með því værum við bara að fara úr öskunni í eldinn. Með því værum við bara að flytja aukafjárveitingavaldið frá fjmrh., sem ekki hefur það, til fjvn. sem ekki hefur það heldur. Vegna þess að fjárveitingavaldið er vald Alþingis en hvorki ráðherra né einstakra starfsnefnda á vegum þingsins. Því er það gersamlega út í hött og sýnir það að hv. þm. hefur ekki lesið frv. þegar hann heldur því fram að með frv. sé fyrst og fremst verið að styrkja vald fjvn. Það erum við ekki að gera. Það sem við erum að gera er að styrkja völd Alþingis sem stofnunar.
    Hv. þm. lýsti því yfir að það bæri nú ekki að taka 41. gr. stjórnarskrárinnar svo bókstaflega vegna þess að gildandi stjórnarskrárákvæði hefðu verið sett við allt aðrar aðstæður en nú ríkja. Nú er það svo að hver og einn þingmaður verður að vinna drengskapareið að stjórnarskránni.
Stjórnarskráin kallast ,,grundlov`` á dönsku. Þetta er sú lagasetning sem leggur grundvöll að öllum öðrum lagasetningum í landinu. Þetta eru þær metaskálar sem öll önnur lög verða að vegast á. Og alþingismenn sverja drengskapareið að stjórnarskránni. Þess vegna kemur mér mjög á óvart þegar alþingismaður sem hefur svarið þess eið að viðlögðum drengskap að virða ákvæði stjórnarskrárinnar kemur í stól og segir að það sé ástæðulaust að gera sér rellu út af ákvæðum stjórnarskrárinnar sem hann hefur unnið eið að vegna þess að þau eigi ekki lengur við af því að þau hafi verið sett á allt öðrum tíma en við nú lifum á. Þá væri forvitnilegt að fá því svarað hvaða greinar í stjórnarskránni það eru sem hv. þm. telur sig ekki þurfa að virða. Hvaða greinar í stjórnarskránni telur hann sig vera eiðbundinn að standa vörð um og hvaða greinar í stjórnarskránni telur hann sig ekki þurfa að virða? Hins vegar er alveg satt að það getur verið að á þeim tíma þegar stjórnarskráin var gerð hafi menn tekið meira mark á drengskaparheitum en menn gera í dag. En það breytir ekki því að þeir alþingismenn sem unnið hafa drengskaparheit að stjórnarskránni eiga að sjálfsögðu að virða hana og gera sér far um það að gefa ekki yfirlýsingar eins og hv. þm. Páll Pétursson gaf hér úr ræðustól sem
getur vart sagt manni annað en að það sé harla lítið upp úr drengskaparyfirlýsingum að leggja sem menn

gefa hér á Alþingi.
    Hv. þm. sagði einnig að hann teldi að vísu rétt að hæstv. fjmrh. færi ekki einn með aukafjárveitingavaldið heldur ætti hann, eins og hv. þm. sagði, að hafa um það samráð við einhvern hóp manna. Hvaða hóp manna á hann að hafa samband við? Hv. þm. nefndi formann og varaformann fjvn. Þá er hv. þm. a.m.k. búinn að gera þá að ígildi ráðherra ef hæstv. fjmrh. má ekki gefa út aukafjárveitingar nema að formaður og varaformaður fjvn. gefi honum til þess leyfi. Og er hann þá þar kominn í mótsögn við sjálfan sig.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, benda mönnum á eitt sem ég hef ekki heyrt menn ræða um í þessum umræðum enn sem komið er. Í stjórnarskrána eru sett nákvæmlega sömu ákvæði um tekjur ríkisins og þau sem sett eru um gjöld ríkisins. Í stjórnarskránni segir að það megi ekki leggja á skatta nema með lögum. Og í stjórnarskránni segir að það megi ekki greiða úr ríkissjóði nema með lögum. Mönnum finnst sjálfsagt að virða fyrra atriðið. Enginn lætur sér til hugar koma að fjmrh. eða ríkisstjórn geti lagt á skatta með einhvers konar aukaskattlagningarvaldi, þ.e. með ákvörðunum sem ekki eigi sér stoð í lögum. Fjmrh. hefur ekki heimild til að hækka, skulum við segja tekjuskatt um 10% eða bifreiðagjald um 5% eða eignarskatt um 20%, nema leita eftir lagaheimildum frá Alþingi. Og engum finnst þetta neitt einkennilegt. Enginn talar um að það takmarki olnbogarými fjmrh. að geta ekki lagt á skatta með aukaskattlagningarvaldi. Ég er hræddur um að það kæmi svipur á marga þingmenn, þar á meðal hv. þm. Pál Pétursson, ef fjmrh. núv. tæki sér það vald að leggja á skatta með aukaskattlagningarvaldi. En menn eru bara orðnir svo vanir því að nákvæmlega sams konar ákvæði í stjórnarskránni sem bannar greiðslur úr ríkissjóði án lagasetningar og það ákvæði sem bannar tekjuöflun í ríkissjóð án lagasetningar, menn eru orðnir svo vanir því að þetta ákvæði í stjórnarskránni sé ekki virt að menn sjá ekki lengur hversu óeðlilegt það er. En ég bið menn bara einfaldlega að hafa í huga að það er það sama. Stjórnarskráin setur framkvæmdarvaldinu sömu reglurnar um inngreiðslur í ríkssjóð, um tekjuöflun í ríkissjóð, og stjórnarskráin setur framkvæmdarvaldinu um útgreiðslur úr ríkissjóði. Og finnist mönnum óeðlilegt að fjmrh. geti lagt á skatta með einhliða ákvörðun sinni í fjmrn. hlýtur mönnum að finnast jafnóeðlilegt að fjmrh. geti ráðstafað fé úr ríkissjóði, jafnvel svo milljörðum skipti, án þess að hafa fyrir því tilskildar heimildir frá Alþingi. Finnist mönnum í lagi að virða ekki þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem banna greiðslur úr ríkissjóði án lagaheimilda hlýtur mönnum líka að finnast allt í lagi að virða ekki þau ákvæði í stjórnarskránni sem banna álagningu nýrra skatta án lagaheimilda.
    Herra forseti. Ég hef þessi orð ekki fleiri. Það er ástæða til að koma þessu máli fram. Það hefur legið hér síðan fyrir jól. Við flm. þess höfum verið mjög liprir að verða við óskum um að fresta umræðum um málið. Nú verður það ekki tafið lengur ef á að gefa

möguleika á að afgreiða það. Og ég vil beina því eindregið til hæstv. forseta að hann reyni að ljúka afgreiðslu málsins á þessum fundi. Takist það ekki þá verði það ekki fyrir frekari töfum og verði tekið sem allra fyrst til umræðu á næsta fundi þessarar hv. deildar.