Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að að byrja mál mitt með því að harma þau mistök sem hafa átt sér stað í þessu máli þar sem ég fékk heimild 14. mars til að tala í fjórar mínútur gegn því að ég gæti haldið ræðu minni áfram þegar málið yrði tekið fyrir næst. En af einhverjum orsökum hefur hæstv. forseta sést yfir þetta en ég tek að sjálfsögðu afsökun hans til greina.
    Eigi að síður setur það svolítið annan blæ á það mál sem ég hefði viljað flytja hér því hv. 3. þm. Vestf., formaður fjvn., hann hefur í raun og veru stytt mér leið þannig að ég get sleppt stórum hluta þeirrar ræðu sem ég ætlaði að flytja. Því hann hefur bókstaflega farið lið fyrir lið yfir allt það sem ég ætlaði að koma inn á. Það er ekki nema gott um það að segja því að við erum að sjálfsögðu samherjar í þessu máli og höfum sömu skoðun á því sem hér er til umræðu.
    Það verður að segjast eins og er að umræðan fer fram við dálítið merkilegar aðstæður, þar sem hér er ábyggilega um að ræða eitt af þýðingarmestu málum sem liggja nú fyrir Alþingi, miðað við bæði fortíð og nútíð, að hinn almenni þingmaður skuli ekki hafa meiri áhuga fyrir þessum málum. Svo ekki sé talað um að þeir sem veita forustu ríkisfjármálum mega ekki vera að því að ræða þessi mál nema þá helst í einhverjum styttingi um að þetta sé mál sem jafnvel hefur ekkert að gera inn á Alþingi og mætti margt um það mál segja.
    Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði í hinni stuttu ræðu minni 14. mars sl. Þá var einmitt tilefni til að svara hv. 1. þm. Norðurl. v. sem flutti hér alveg dæmalausa ræðu um þessi mál. Alveg í þversögn við þá þinglegu ábyrgð sem hann hefur bæði sem formaður fjh.- og viðskn. Alþingis í mörg ár og forustumaður fyrir heilum þingflokki. Og ég harmaði í orðum mínum 14. mars að þurfa að vera vitni að því að hv. þm. hafði ekki lesið frv. Jafnframt því hafði hann staðið í vegi fyrir að það væri tekið til umræðu í þingflokki
Framsfl. alveg frá því að frv. var lagt fram. Hvort tveggja er því miður staðreynd.
    Ég ætla að stytta mál mitt mikið, herra forseti, einmitt vegna þessara mistaka sem urðu hér í dag. Ég hef ekki nema gott um það að segja því hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti mál sitt með miklum ágætum og fór nákvæmlega yfir þessi mál svo ekki verður betur gert af okkur hinum. En ég vildi aðeins árétta það hér, til þess að það komi fram a.m.k. í þingtíðindum ef einhver skyldi leita til þeirra síðar, að mér finnst nauðsynlegt að skýra aðeins frá aðdraganda málsins. Það kemur einnig til af því sem hæstv. fjmrh. kom inn á með nýjum tillögunum sem ég ætla tala um síðar. Við sem höfum átt sæti í fjvn. vitum að þar hefur oftar en einu sinni verið lögð gífurleg áhersla á hversu mikil þörf væri á að breyta meðferð fjárlaga og ríkisfjármála almennt.
    Eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði áðan

er að vísu hægt að segja að hér hafi verið meira um að menn hafi lýst skoðunum sínum á þessu sviði með almennum orðum, þingmenn með þáltill., stjórnmálaflokkar með samþykkt ályktana o.s.frv., en ekki í alvöru verið tekist á við að breyta þessum málum til betri vegar. Ákvæðin í stjórnarskrá lýðveldisins eru skýr og þarf ekki að efast um hvernig á að meðhöndla þessi mál á hv. Alþingi. En samt sem áður vantar allt sem er þar á milli.
    Til að stytta mál mitt, herra forseti, væri nóg, sem rök fyrir því í hvaða ógöngum við höfum verið að þvælast með þessi mál ár eftir ár, að vísa bara í nýjustu skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 1989. Ég ætla aðeins að koma inn á það sem stendur í áliti Ríkisendurskoðunar. Í sambandi við A-hluta ríkissjóðs í samanburði við fjárlögin er tekið mjög rækilega á þessum málum til þess að skýra hvernig þetta hefur verið á undanförnum árum. Og ég vil benda hv. þm. á að lesa á bls. 37 í þessari skýrslu. Þar kafar Ríkisendurskoðun mjög djúpt ofan í málið og ber saman fjárlög fyrir tímabilið 1975 til 1989. Eins og þar kemur fram er þetta allt á sömu bókina lært. Oftast nær hefur það mistekist sem hefur verið lagt upp með í sambandi við fjárlög á öllu tímabilinu. Aðeins í fjögur skipti á tímabilinu 1975--1989 hefur afkoma ríkissjóðs verið aðeins betri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Árin 1981, 1982, 1984 og 1987. Allt hitt tímabilið hafa fjárlög farið úr böndunum. Og eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar er um allverulegar fjárhæðir að ræða, þar sem rauntekjur á tímabilinu frá 1975--1989 hafa farið 72,6 milljarða fram úr, eða 9% og gjöld 114,7 milljarða, eða 14,1%. Það þýðir að gjöld umfram tekjur á þessu tímabili hafa verið rúmir 42 milljarðar kr. og rekstrarhalli á A-hluta ríkissjóðs á þessu tímabili því numið að meðaltali 4,8% af tekjum.
    ,,Framangreindar upplýsingar,,, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég er að vitna hér til, herra forseti, ,,gefa ótvírætt til kynna að áform Alþingis og stjórnvalda um afkomu ríkissjóðs, eins og þau koma fram í afgreiðslu fjárlaga hafa ekki náð fram að ganga. Það sem m.a. vekur athygli er að á þessu 15 ára tímabili virðist sem afkoma ríkissjóðs hafi haft takmörkuð áhrif á áætlanagerð næsta ár. Á þessu tímabili gerðu fjárlög ráð fyrir að hækkun tekna og gjalda
yrði hlutfallslega sú sama eða 95%. Hins vegar var reyndin sú að raunhækkun tekna varð um 95,1% en gjalda aftur á móti um 79,7%. Hækkun tekna umfram gjöld dugði þó ekki til að A-hluti ríkissjóðs yrði rekinn með tekjuafgangi, þar sem hallinn í upphafi samanburðartímabilsins nam 17,6% af tekjum``, segir orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Og mér þykir ástæða til að ljúka þessari tilvitnun með því að lesa niðurlag á bls. 38 og 39: ,,Orsakir verri afkomu A-hluta ríkissjóðs en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir má einkum rekja til: Ákvarðana stjórnvalda um útgjöld umfram tekjur innan fjárlagaársins. Vanáætlana fjárlaga. Skorts á að framkvæmdarvaldið virði heimildir fjárlaga. Áform stjórnvalda um sparnað náðu

ekki fram að ganga. Rangra verðlagsforsendna fjárlaga.
    Niðurstöður ríkisfjármála frá árinu 1975 sýna að viðvarandi rekstrarhalli er á A-hluta ríkissjóðs og hefur hann að meðaltali verið 4,8% af rauntekjum sl. 15 ár eða sem nemur um 2,8 milljörðum kr.
    Með vísan til framangreindra niðurstaðna telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að eftirfarandi atriði verði tekin til athugunar í sambandi við áætlanagerð ríkisfjármála og framkvæmd þeirra.
    Í fyrsta lagi að bætt verði til muna öll áætlanagerð og hún gerð raunhæfari bæði er varðar umfang og verðlagsforsendur.
    Í öðru lagi að framkvæmdarvaldið virði þær ákvarðanir Alþingis varðandi ríkisfjármálin sem birtast í fjárlögum.
    Í þriðja lagi að Alþingi setji skýrari reglur um fjárgreiðslur úr ríkissjóði.
    Í fjórða lagi að fagráðuneyti beri ríkari ábyrgð á framkvæmd fjárlaga en nú tíðkast.``
    Herra forseti. Mér fannst eðlilegt að vitna í þessa skýrslu til viðbótar því sem kemur fram síðar í sambandi við að fjvn., sem nú situr, vildi ræða í alvöru hvernig hugsanlega mætti snúa þessari þróun við sem hefur verið neikvæð á öllu tímabilinu. Þessu til viðbótar er að sjálfsögðu hægt að vísa til ýmissa samþykkta sem gerðar hafa verið. Vegna þess að hv. 1. þm. Norðurl. v., sem því miður er ekki hér staddur, vildi gera heldur lítið úr frv., sem var óvenjulegt þar sem það hafði ekki fengið neina meðferð í okkar þingflokki, vil ég bara benda á í umræðunni að einmitt þingflokkur, miðstjórn og efnahagsnefnd þingflokksins hafa samþykkt mjög ákveðnar ályktanir á undanförnum þremur árum,
og jafnvel fyrr, um að breyta þurfi meðferð ríkisfjármála. Til að stytta mál mitt vísa ég til mjög ítarlegra tillagna sem efnahagsnefnd þingflokksins gerði á sl. ári einmitt um ríkisfjármálin. Tillögurnar, sem voru í 12 liðum, hafa sennilega vakið athygli hæstv. fjmrh. því að sumt af þeim 12 tillögum sem eru hans innlegg í umræðuna eru fengnar að láni úr tillögum efnahagsnefndar flokksins sem voru samþykktar á síðasta miðstjórnarfundi flokksins.
    Þar að auki höfum við, nokkrir þingmenn flokksins sem eigum sæti í svokallaðri efnahags- og byggðamálanefnd, flutt á Alþingi þáltill. sem varðar þessi mál einnig og heitir ,,Tillaga til þingsályktunar um uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu`` á þskj. 386. Þar setjum við fram ákveðna áhersluþætti sem allir varða einmitt það mál sem hér er til umræðu.
    Ég tel nauðsynlegt að nefna hér örfá atriði sem eru undanfari þess að allir fulltrúar fjvn. samstilltir gerðu tilraun til að hætta að tala um ríkisfjármálin í almennum orðum, yfirlýsingum eða samþykktum og ráðast heldur að verkefninu með því að semja lagafrv. sem tæki í raun á vandamálunum. Og meira var gert og einmitt þeim sem ekki hafa lesið frv., hvort sem þeir heita hæstv. ráðherrar eða forustumenn í stjórnmálum, má benda á að nefndin starfaði ekki á þröngu sviði. Hún leitaði til nágrannaþjóðanna og tók

upp, eins og stendur í fylgiskjali með frv., öll aðalatriði sem sýna hvernig Norðurlöndin, nágrannar okkar sem við berum okkur saman við, meðhöndla ríkisfjármál hjá sér og hvernig þeirra þjóðþing standa að þessum mikilvæga málaflokki. Þess vegna er ástæða til að leggja áherslu á að auðvitað er þetta ekkert lítið atriði. Við höfum annars vegar okkar ágætu stjórnarskrá og hins vegar hvernig við höfum meðhöndlað ríkisfjármál á undanförnum árum og hvernig nágrannaþjóðirnar meðhöndla þau og hvað hefur farið úrskeiðis. Þess vegna er tími kominn til að finna leiðir til að snúa þessu dæmi til betri vegar.
    Mig langaði aðeins, herra forseti, að koma inn á mál er varða hæstv. fjmrh. Í sjálfu sér var ég ekkert undrandi yfir innleggi hans hér en ég verð að segja honum til hróss að þegar hann tók við embætti fjármálaráðherra hóf hann máls á því við starfandi fjvn. að hafa mjög náið og gott samstarf við nefndina um fjárlögin og meðferð ríkisfjármála. Og hann fékk áreiðanlega mjög hreinskiptnar umræður frá fjárveitinganefndarmönnum strax á árinu 1988 og ekki síður í byrjun sl. árs um það hvernig menn teldu að væri hægt að breyta áherslum við meðferð fjárlaganna almennt til að færa þau að raunveruleikanum. Og hann tók fyllilega til greina, að því er mér virtist, þær ábendingar sem fram voru settar og reyndi að koma til móts við sjónarmið fjárveitinganefndarmanna og annarra sem hafa haft áhyggjur af meðferð fjármála á undanförnum árum með því að koma með fjáraukalög fyrir árið 1989 samhliða fjárlögum fyrir árið 1990. Og þó að ég sé ekkert að gera honum neinn
dýrðarbaug í sambandi við þetta mál er þetta þó alla vega viðleitni af hálfu hæstv. fjmrh. til að reyna að komast nær því að gera eitthvað í málunum en áður hefur tíðkast, það má segja honum til hróss. Ég efast ekki um að allt þetta tal og öll þessi áform sem fjárveitinganefndarmenn hafa reynt að stilla upp á þessum viðræðufundum hafa haft sín áhrif. Og ég vil einnig undirstrika þátt Ríkisendurskoðunar. Ég er alveg viss um að það var eitt besta verk sem gert var á sínum tíma þegar Alþingi tók þá ákvörðun að færa Ríkisendurskoðun undir Alþingi. Ég er í engum vafa um það. Það er alveg ljóst, þó að menn greini á um ýmislegt sem frá stofnuninni kemur, að hún hefur haft gífurleg áhrif nú þegar á meðferð ríkisfjármála, bæði í hinum ýmsu ríkisstofnunum og ráðuneytum og vonandi á stjórn Alþingis.
    Þrátt fyrir það misvægi sem er í ríkisfjármálum að því er varðar 1989 og jafnvel á árinu 1990 hafa lagfæringar greinilega orðið og tel ég að bæði umræðan um meðferð þessara mála á Alþingi og ekki síst hjá Ríkisendurskoðun hafi haft þau áhrif að margar ríkisstofnanir eru á góðri leið með að rétta af sína meðferð á ríkisfjármálum og koma þeim í betra og skýrara form en áður hefur verið og er það af hinu góða.
    Mig langar aðeins til að koma inn á tillögur hæstv. fjmrh. sem hann lagði hér fram. Ég þarf ekki að endurtaka það sem 1. flm., formaður fjvn., sagði um þetta áðan. Þetta eru tillögur sem hann leggur hér

fram sjálfsagt með þær hugmyndir að baki að trufla meðferð þessa máls í nefnd. Ég hef a.m.k. grun um það þar sem hér er um að ræða hugmyndir í 14 liðum sem nærri því allar hafa verið til meðferðar en sumar þess eðlis, eins og hér kom fram áður, að það þarf stjórnarskrárbreytingu til þess að gera þær að veruleika. Ef menn vilja gera það er náttúrlega hægt að fara út í það að gera hér eina málstofu og haga málum í samræmi við þetta. Og ekki þarf að vitna frekar í það sem kom fram hjá hv. 1. flm. að gildandi stjórnarskrá okkar er alveg skýr hvað þetta snertir þannig að breytingar eins og hæstv. fjmrh. leggur til eru ekki framkvæmanlegar öðruvísi en að breyta stjórnarskrá.
    Mér kom svolítið á óvart í fyrsta lagi að í öllum þessum tillögum hæstv. fjmrh. tekur hann af skarið í tillögu nr. 9. Þetta er það sem hann var sjálfur, hæstv. ráðherra, að mæla gegn í athugasemdum sínum við frv. Hann leggur sem sagt til miklu harðaði afgreiðslu á þessum málum en við sem erum aðilar að frv. gerðum okkur grein fyrir. ,,Allar greiðslur úr ríkissjóði verða annaðhvort samkvæmt heimildum í fjárlögum eða fjáraukalögum og aukafjárveitingar lagðar niður.`` Þetta segir hæstv. fjmrh. sjálfur í 9. tillögunni. Eins og kom hér fram í umræðunum fyrr, mig minnir hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., gerir í raun og veru þessi tillaga hans nr. 9 allar hinar að aukaatriði. Og ég vil endurtaka það sem ég sagði hér í upphafi að allar þessar tillögur eru annaðhvort teknar upp úr greinargerð frv. á þskj. 399 eða tillögum efnahagsmálanefndar Framsfl. eða öðrum samþykktum sem hafa verið gerðar frá hendi fjvn. eða ræðum sem hér hafa komið fram og í umræðum við hæstv. ráðherra þegar samstarfið var í lagi. Svo að þetta er náttúrlega atriði sem væri hægt að ræða mikið.
    Ég tel ástæðu til að koma aðeins inn á síðustu tillögu hans, nr. 14, og skerpa það sem kom fram hjá hv. 1. flm. frv. áðan að ríkisfjármálanefnd á að vera til og er til og sjálfsagt ein þýðingarmesta nefnd sem fjallar um ríkisfjármálin eða a.m.k. fjárlögin og meðferð þeirra. Hún á sem sagt að fjalla um ýmsa þætti þessara mála og taka upp ýmis vandamál sem upp geta komið en því miður hefur núv. hæstv. fjmrh. ekki kallað þessa nefnd saman. Það voru aðeins örfá skipti 1988 og mig minnir einu sinni í ársbyrjun 1989 en síðan ekki meir. Þar af leiðandi hefur ekkert raunverulegt formlegt samband, sem er til í gildandi reglum, verið milli fjvn. og framkvæmdarvaldsins um framkvæmd fjárlaga. Þetta ber að harma en um leið viðurkenni ég það að alla vega kemur hér fram, miðað við tillögu hans nr. 14, að hann hefur gert sér grein fyrir þeirri eyðu, bókstaflega eyðu sem hefur orðið milli fulltrúa Alþingis, þ.e. fjvn. og fjmrn. á árinu 1989. Það var mjög slæmt að svo skyldi þurfa að vera vegna þess að undirbúningur fjárlaga bæði um skýringar á fjárlögum 1988 og undirbúningur fjárlaga fyrir 1990 voru alls ekki að neinu leyti á vegum fjvn. Og þessi ríkisfjármálanefnd hefði getað brúað það bil að verulegu leyti. Þess vegna var það að fjárlögin fyrir árið 1990 voru ekki undirbúin með venjulegum

hætti því að það var ekkert samráð haft við sitjandi fjvn. fyrr en Alþingi kom saman á sl. hausti. Þess vegna legg ég þann skilning í orð og tillögur hæstv. fjmrh. að hann ætli sér að breyta hér um og koma öðruvísi inn í þessi mál en hefur verið undanfarin missiri og að sjálfsögðu hægt að fagna því ef það verður eins og lítur út fyrir að hann vilji vera láta.
    Herra forseti. Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að halda langa ræðu því að þetta atvik sem kom fyrir í dag gerði eiginlega ræðu mína, sem ég var búinn að undirbúa, óþarfa og ég flyt hana ekki. En ég vil aðeins segja í sambandi við þetta mál að það er eitt af stærri málum sem rætt er á Alþingi og verður að harma að alþm. almennt skuli ekki hafa fundið hvöt hjá sér til þess að vera viðstaddir og taka þátt í umræðunni. Það er af því verra og ég vil segja það
hér að ég óttast að það þurfi að takast á við fjh.- og viðskn. Nd. undir forustu hv. 1. þm. Norðurl. v. til þess að þeir taki þannig á þessu máli að það verði rætt af alvöru. Mikivægi málsins og þungi er það mikill að ef menn vilja ekki taka það til slíkrar umræðu veit ég ekki hvernig á að halda á mikilvægum málum inni á Alþingi. Þess vegna treysti ég því að skynsamir menn, sem sjálfsagt allir í fjh.- og viðskn. eru, átti sig á því að hér er um stórmál að ræða. Ef þetta mál verður svæft, ég er ekki að halda því fram að það megi ekki breyta einhverju í frv., óttast ég að það verði talsverð bið á því að hægt verði að taka upp ný vinnubrögð, nýjar leiðir í meðferð ríkisfjármála sem ég hygg þegar grannt er skoðað að allflestir alþm. átti sig á að er brýn þörf fyrir. Ég vitna til þeirra viðbragða og umræðna sem urðu úti í þjóðfélaginu sl. haust þegar þetta kom fram. Það voru merkilegar umræður og ég er alveg handviss um að ef þetta mál hefði getað verið fyrr á dagskrá en raun ber vitni hefði orðið meiri fyrirferð á því hér inni á hv. Alþingi en því miður varð í dag.
    Þess vegna eru mín lokaorð að ég skora á hv. alþm. að átta sig á mikilvægi þessarar breytingar. Jafnvel þó að þeir gerðu ekki annað en lesa fylgiskjölin með þessu frv. og átta sig á hvernig við á Íslandi látum okkur hafa það að framkvæmd fjárlaga sé ekki samkvæmt stjórnarskrá og algerlega í andstöðu við það sem gert er á hinum Norðurlöndunum. Þar breytast fjárlög ekki um 1--2% frá því að þau eru lögð fram þangað til þau eru afgreidd sem lokalög frá þjóðþingunum. Við vitum hvernig það er hér, það út af fyrir sig er fullgild ástæða til að menn átti sig á því hvað mikilvægi þessa máls er mikið. Ég vona að menn taki þetta frv. í alvöru. Menn skulu átta sig á að með því er verið að auka vald Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að það sé full ástæða til að menn átti sig á þessum atriðum og frv. verði afgreitt á yfirstandandi þingi. Og ég skora á þá sem eiga sæti í fjh.- og viðskn. Nd. að þeir láti ekki glepjast af þeim sem halda að þetta sé eitthvert hégómamál. Það er það ekki. Þetta er eitt af stærri málum.