Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Þriðjudaginn 20. mars 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna þess sem fram hefur komið í umræðu um 3. dagskrármálið, fjárgreiðslur úr ríkissjóði, hjá ýmsum hv. þm. sem hér hafa talað í dag, þar sem kvartað hefur verið undan losaralegum umræðum í þessu mikilvæga máli og áhugaleysi hv. þingmanna, vill forseti taka það fram að hann ræður ekki við áhugaleysi þingmanna. Þegar málið barst inn í þessa deild gerði forseti ráðstafanir til þess að það kæmi á dagskrá eins fljótt og unnt væri. En það var ljóst að hæstv. fjmrh. og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerðu tilraunir til samkomulags um dagsetningu á 1. umr. þessa máls eða um það hvenær það kæmi fyrst á dagskrá. Þær áætlanir brugðust m.a. vegna fjarveru hæstv. fjmrh. og á endanum varð forseti deildarinnar að knýja fram þessa umræðu svo að hún mætti fara fram með skikkanlegum hætti. Það var alveg ljóst að hv. fjárveitinganefndarmenn voru orðnir leiðir á biðinni og forseti skildi það mjög vel.
    Forseti vill taka það fram að hann mun gera það sem í hans valdi stendur til að reyna að fá málið afgreitt í hv. fjh.- og viðskn. en bendir á, eins og hv. síðasti ræðumaður hefur líka gert, að þar situr í forsæti sá hv. þm. sem harðast hefur talað gegn frv.