Fundir í nefndum og deild
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það hefur verið mjög létt verk og löðurmannlegt að vera í nefndum þingsins nú eftir áramót. Mjög hefur staðið á því að nefndafundir hafi verið kallaðir saman þar sem stjórnarandstæðingar hafa átt mál í nefndum og greinilegt að stjórnarandstaðan hefur ekki íþyngt meiri hlutanum með því að óska eftir því að þeirra mál séu athuguð eins og önnur.
    Nú er aftur komin upp sú undarlega staða að einstakir ráðherrar eru farnir að senda frá sér mörg frumvörp í einu og þá er niðurstaðan sú að skyndilega eiga sömu mennirnir að sitja á mörgum fundum samtímis. Boðaður hefur verið fundur í menntmn. kl. 8.30 á föstudag, boðaður hefur verið fundur í sjútvn. kl. 9 á föstudag og tilkynnt hefur verið að fundir verði í deildum kl. 11 á föstudagsmorgun.
    Af þeim sökum er það, vegna þess að hæstv. forseti m.a. vill ekki standa við venjulegan fundartíma kl. 2, sem sú staða er komin upp að svo þröngt er um nefndirnar að ekki er gert ráð fyrir því að þingmenn geti gegnt þingskyldum sínum með því að þeir fái að sitja í þeim nefndum sem eiga að fjalla um mál sem til þeirra er vísað. Mér finnst þetta vera fullmikill ákafi í hæstv. forseta. Það hefur ekki komið til fram að þessu að nefndastörf hafi rekist á. Það hefur ekki verið svo mikið um að vera. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. forseti endurskoði hug sinn um það að hefja fund hér í deildinni kl. 11 á föstudagsmorgun. Bíði með hann til kl. 2 og reyni síðan að nota lagni sína og lipurð til að sjá um til þess að við getum báðir sótt fund í sjútvn. og menntmn. á föstudagsmorgun. Mig minnir að við eigum báðir sæti í báðum þeim nefndum. (Gripið fram í.) Ekki hæstv. forseti í menntmn. Þá fór ég rangt með eins og oftar, en það breytir ekki hinu að ég legg á það áherslu að reynt sé að haga þinghaldi þannig að þingmenn stjórnarandstöðu geti haft möguleika á því að rækja sín störf með sómasamlegum hætti.