Fundir í nefndum og deild
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er rétt sem hv. 5. þm. Norðurl. e. segir, ég hef ekki mætt á öllum fundum í menntmn. Á næstsíðasta fundi nefndarinnar var mér sagt að einungis yrði vísað málum til umsagnar af formanni nefndarinnar, formanni þingflokks Alþfl. sem hér er ekki mættur í deildinni. Við þetta var ekki staðið heldur voru mál tekin til efnislegrar meðferðar, sem er auðvitað mjög ámælisvert. Það sem er þó enn þá verra er að síðar þann sama dag, þegar ég var í húsakynnum þingsins við þingstörf, var boðaður annar fundur í menntmn., öllum nefndarmönnum nema þeim sem hér stendur. Og það sem var kannski enn alvarlegra við það mál var að á þeim fundi var mál afgreitt úr nefndinni. Þó svo að ég bæði formann nefndarinnar um að taka málið upp að nýju þar sem ég hefði ekki verið boðaður á fundinn, þá var synjað um það. Það væri kannski fróðlegt að fá úrskurð forseta af þessu tilefni hvort það sé þinglega rétt að fundir séu haldnir hér í hliðarherbergjum þinghússins, mál séu afgreidd frá þingnefndum án þess að einstakir þingmenn, sem þó eru staddir í húsakynnum þingsins, séu boðaðir til slíkra funda. Það má spyrja forseta þingsins hvort slíkt séu mannasiðir og hvort slíkt séu vinnubrögð sem bræðraflokkarnir, Alþfl. og Framsfl., séu sammála um að viðhafa hér í deildinni.
    En það er gott að vita að samþingmaður minn úr Norðurlandskjördæmi eystra hefur vakandi auga með því sem ég geri.