Útvarpslög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum við þessa 1. umr. þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um útvarpslagafrv. Þakka fyrir þær ábendingar sem hér hafa komið fram, sem eru margar gagnlegar og sjálfsagt að taka til skoðunar. Ég held að það sé mjög mikilvægt atriði af minni hálfu að leggja á það áherslu að mér er það nokkurt kappsmál að niðurstaðan af umræðum um frv. verði sú að sem allra best samstaða takist. Ég heyri í þeim umræðum sem hér hafa farið fram, þar sem hafa talað fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka sem hér eiga sæti í þessari virðulegu deild, að fram kemur samstaða um meginatriði málsins og það er aðalatriðið.
    Ég tel í sjálfu sér ekki beina ástæðu til þess að fara yfir einstök atriði í ræðum hv. þm. sem tekið hafa til máls þó að ég hafi að sjálfsögðu hlustað á þá alla með athygli og skráð niður athugasemdir þeirra. Sumt af því sem þeir nefndu vildi ég fá kannski að hugleiða aðeins nánar. Ég vil aðeins leyfa mér að taka mjög eindregið undir margt af því sem hv. 4. þm. Vestf. sagði hér áðan varðandi afnotagjöldin, varðandi Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsa fleiri þætti sem hann nefndi. Varðandi Sinfóníuhljómsveit Íslands er það auðvitað alveg ljóst að það þarf að breyta þeim lögum samhliða ákvörðun um breytt útvarpslög. Það er í raun og veru mjög einföld breyting sem þarf þá að gera á lögunum um Sinfóníuhljómveitina en ég vil eftir sem áður láta það koma hér fram að ég tel að þrátt fyrir breytingar á fjárhagslegum samskiptum Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar eigi Ríkisútvarpið áfram að eiga fulltrúa í stjórn hljómsveitarinnar. Því eins og hv. 4. þm. Vestf. benti skilmerkilega á, þá er það einu sinni þannig að Sinfóníuhljómveitin varð í raun og veru til að frumkvæði þeirra manna sem störfuðu hjá Ríkisútvarpinu á sínum tíma.
    Varðandi ábyrgðarþáttinn á dagskránni sem hv. 4. þm. Vestf. gerði mjög að umtalsefni með málefnalegum hætti og skýrum kann vel að vera að þau atriði þurfi að vera ljósari. Ég segi þó sem mína skoðun að ég held að við þurfum að átta okkur á því að við erum hér að tala um stofnun, Ríkisútvarpið, sem nú orðið lifir í margbreytilegu samkeppnisumhverfi. Ég held að við eigum ekki að reyra stjórn hennar allt of fasta í lagaviðjar. Aðalatriðið sé að það liggi fyrir hver ber í raun og veru ábyrgð gagnvart þjóðinni og stjórnvöldum á hinum endanlega efnisflutningi. Það atriði kemur út af fyrir sig fram í 3. gr. 7. tölul. þar sem fjallað er um að útvarpsstjóri beri ábyrgð á þessu efni rétt eins og t.d. ábyrgðarmenn á dagblöðum. Og ég held að við verðum að venja okkur við þann veruleika að áður en mjög langur tími líður mun tækninni hafa fleygt svo fram að það verður í rauninni með svipuðum hætti eða mjög líkum fjallað um
ljósvakamiðla og fjallað er um prentmiðla. Lagaramminn er rúmur eða lítill og veruleikinn verður í raun og veru að ráða úrslitum um málin þá og þá.

Það sem öllu máli skiptir er það að þessir miðlar, bæði ljósvakamiðlar og prentmiðlar, ræki sína skyldu við íslenska menningu en það er algerlega útilokað að mínu mati að róa í lögum og lagatexta fyrir hverja vík sem kann að koma upp í mannlegu samfélagi á þeirri hraðfara öld tæknibreytinga sem við nú lifum.
    Ég legg þess vegna á það megináherslu í sambandi við þetta frv. og meðferð þess að málin séu eins sveigjanleg og kostur er og menn reyni ekki að búa til allsherjar mataruppskrift í lagatextanum gagnvart öllu því sem hugsanlega kann að koma upp í mannlegu lífi.
    Ég vil aðeins varðandi afnotagjöldin, sem hér hafa talsvert verið rædd, segja að það er út af fyrir sig alveg eðlilegt sjónarmið sem fram kemur hjá hv. 8. þm. Reykn. að það er nokkuð sérkennilegt að unnt sé að loka á viðskipti við aðrar stöðvar þegar menn uppfylla ekki skuldbindingar sínar við Ríkisútvarpið. Það er í raun og veru gallinn við stöðuna eins og hún er í dag. Vandinn er hins vegar sá að ef menn tækju upp nefskattskerfi óttast ég það í hreinskilni sagt að tekjustofnar Ríkisútvarpsins yrðu skertir með almennum stjórnvaldsákvörðunum á hverjum tíma og þess vegna legg ég alla vega á það megináherslu af minni hálfu að Ríkisútvarpið hafi sjálfstæðan tekjustofn sem það ráði í raun og veru sjálft. Og það besta í þeim efnum væri auðvitað að við kæmum þessum hlutum þannig fyrir að þeir væru teknir út af borði ráðherra á hverjum tíma nema það séu teknar um það sérstakar ákvarðanir í lögum um efnahagsmál eða verðlagsmál eða kjaramál eða hvað menn vilja kalla það en almenna reglan sé sú að Ríkisútvarpið hafi þetta vald.
    Varðandi umræðuna um starfsmannaútvarp og ekki starfsmannaútvarp verð ég að segja það að ég er þeirrar skoðunar að það sé best fyrir menningarstofnun að starfsmennirnir ráði þar sem allra mestu án íhlutunar pólitískt kjörinna fulltrúa. Hvort sem sú útvarpsstöð eða menningarstofnun er í eigu einstaklinga eða ríkisins. Það dettur engum manni hér í hug að flytja tillögu um að það verði pólitískt kjörin stjórn yfir Stöð 2. Þó ræður hún í raun og veru miklu líka um hið menningarlega umhverfi íslensks samfélags, þó ekki eins miklu að vísu og Ríkisútvarpið. Til þess hins vegar að koma í veg fyrir að starfsmannastofnun breytist í einokunarstofnun lítillar klíku sem stýrir henni
þarf að setja mjög strangar endurnýjunarreglur varðandi yfirmenn stofnunarinnar, eins og hv. þm. Halldór Blöndal og Þorv. Garðar Kristjánsson komu hér inn á, hvort sem það er Ríkisútvarpið, Sinfóníuhljómsveitin eða Þjóðleikhúsið eða aðrar slíkar menningarlegar stofnanir. Reglur um endurnýjun til að koma í veg fyrir stöðnun, til að koma í veg fyrir einokun hjá lítilli klíku. Nú geta menn hins vegar sagt sem svo: Þetta dugir ekki. Þá höfum við einn varnagla enn í þessu efni og á það ætti ég ekki að þurfa að minna hina hörðu talsmenn hinnar frjálsu samkeppni hér um áratuga skeið. Varnaglinn er auðvitað sá að þeir sem framleiða vont útvarpsefni og

eru með lélegt útvarp missa áhorfendur og áhuga þjóðarinnar og þar með tekjur. Þar með er stofnunin í raun og veru sett í aðhald bæði lýðræðislegra endurnýjunarreglna í lögum og eins það aðhald sem felst í hinu almenna markaðsumhverfi sem viðkomandi stofnun býr við. ( Gripið fram í: Ekki markaðsþingdeild.) Ég er að lýsa veruleikanum, hv. þm., og hef í raun og veru ekkert með neitt annað að gera. (Gripið fram í.) Hv. þm. má kalla það hvaða nafni sem hann vill sér til hugarhægðar.
    Svo að lokum af minni hálfu aðeins nokkrar upplýsingar um tekjur Ríkisútvarpsins aðallega út af ummælum hv. 2. þm. Norðurl. e. Ef við segjum að tekjur Ríkisútvarpsins samtals hafi á árinu 1987 verið 100 --- þær voru 1513 millj. kr., 1 1 / 2 milljarður --- voru þessar tekjur 1988 116. Þær hækkuðu um 16%. 1989 höfðu þær hækkað um 25% frá árinu 1987 og 1990 er hækkunin frá árinu 1987 23%. Ef við tökum bara afnotagjöldin hækka þau á árinu 1988 um 31,6% frá fyrra ári að raunvirði. Á árinu 1989 um 44,5% að raunvirði og á árinu 1990 um 40,5% frá árinu 1987 að raunvirði. Tekjuhækkun Ríkisútvarpsins á árunum 1988, 1989 og 1990 nemur samtals 1180 millj. kr. á þremur árum, nærri 1,2 milljörðum kr. Ég held því að útilokað sé að halda því fram að ekki hafi verið gert það sem unnt var til þess að tryggja Ríkisútvarpinu eðlilegan tekjuramma til að starfa eftir.
    Ég endurtek að lokum, virðulegi forseti, þakkir mínar til hv. þm. fyrir góða og málefnalega umræðu og þarfar ábendingar og ég vænti þess að hv. menntmn. takist að vinna úr málinu þannig að um það takist sem allra sterkust samstaða hér á þinginu og að því verði lokið á yfirstandandi þingi.