Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um ábyrgðadeild fiskeldislána. Þetta frv. er komið til deildarinnar frá hv. Nd. og hefur tekið þar nokkrum breytingum sem ég vænti að hv. deildarmönnum séu kunnugar.
    Fyrir rösku ári síðan voru samþykkt hér á Alþingi lög um Tryggingasjóð fiskeldis og í ljósi reynslunnar af störfum hans og með hliðsjón af því að ákveðið fæðingarskeið ríkir í málefnum fiskeldis á Íslandi var talið rétt að vandlega athuguðu máli að leggja til að stofnuð yrði um nokkurra ára bil ábyrgðadeild fiskeldislána þar sem fiskeldisfyrirtækjum sem uppfylla ákveðin skilyrði verði veittur réttur til ríkisábyrgða á lánum um ákveðinn tíma. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að þessi skipan mála leggist af eftir nokkurt árabil og er því ekki verið að leggja til viðvarandi skipulag á þessu sviði.
    Í frv. er einnig að finna ákvæði sem fela í sér að þessar ríkisábyrgðir verða takmarkaðar með ýmsu móti. Í fyrsta lagi er ákveðið töluvert hámark á upphæðunum. Í öðru lagi rennur ríkisábyrgðin fyrir hvert fyrirtæki út að loknum sex árum og fer minnkandi strax að loknu fjórða ári. Í þriðja lagi verður sett upp sérstök matsnefnd sem á að yfirfara mjög vandlega þær umsóknir sem til ábyrgðadeildarinnar berast og meta þau fyrirtæki sem til hennar sækja.
    Í umræðum í hv. Nd. komu fram þau sjónarmið að það þurfi að fara mjög varlega í ríkisábyrgðir af þessu tagi. Ég er þeirrar skoðunar að í þessum efnum sé nauðsynlegt að við reynum að hverfa frekar frá því ríkisábyrgðakerfi sem hér hefur tíðkast og það eigi eingöngu að vera skipulag sem beitt er í undantekningartilvikum. Ég tel hins vegar eðlilegra að fjalla nánar um þau sjónarmið á almennum grundvelli þegar hv. fjh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til þess að kynna sér þetta frv. og þær breytingar sem gerðar voru í hv. Nd. og mun geyma mér að fjalla um það fyrr en nefndin hefur haft tækifæri til þess að skoða málið.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara lengri orðum um þetta frv. nú en mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði því vísað til fjh.- og viðskn.