Dræm fundasókn og nefndastörf
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Eins og forseti lýsti í upphafi þessa fundar voru aðeins 17 þm. mættir hér þegar fundur var settur klukkan tvö og ekki var hægt að ná hér fram atkvæðagreiðslu. Síðdegis í gær gerðist það sama, það varð að slíta hér fundi vegna þess að ekki var hægt að ná fram atkvæðagreiðslu. Þetta er auðvitað afar slæmt og ekki til fyrirmyndar fyrir þingmenn. Það sem vekur þó sérstaka athygli í þessu er það hvað þingmenn hæstv. ríkisstjórnar mæta orðið illa hér til þingfunda. Það er auðvitað á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar og þeirra þingflokka sem að henni standa að koma málum hér fram á hv. Alþingi en ég veit satt að segja ekki hvernig á að túlka það sem hér er að gerast. Hvort er að grafa um sig svo mikil óánægja meðal hv. þm. hæstv. ríkisstjórnar, eins og maður sér reyndar í fjölmiðlum og maður heyrir hér í umræðum, að menn vilja ekki mæta orðið á þingfundum til þess að koma fram málum hæstv. stjórnar. Á þessu vil ég vekja athygli. Ég vil líka vekja athygli á því að það heyrir til undantekninga ef einhver hæstv. ráðherra eru mættir hér klukkan tvö þegar þingfundur er settur. Hæstv. forsrh. var mættur hér klukkan rúmlega tvö og hæstv. félmrh. er mættur hér núna en engir aðrir hæstv. ráðherrar láta sjá sig hér í salnum.
    Við fengum afhent á þingflokksfundum á mánudaginn lista frá hæstv. ríkisstjórn yfir þau mál sem hún vill láta afgreiða það sem eftir lifir þessa þings sem eru ekki margar vikur. Og það sjá allir að ef hæstv. ríkisstjórn og hæstv. stjórnarflokkar sýna ekki þingstörfum meiri áhuga er það borin von að
hægt sé að afgreiða nema lítið brot af þeim málum sem hæstv. ríkisstjórn vill láta ná hér fram.
    Mér þótti ástæða til þess, virðulegi forseti, að láta þessi orð falla hér úr ræðustól því að það vekur óneitanlega athygli --- ég sé t.d. ekki nema þrjá hv. þm. Framsfl. hér í grenndinni --- fjóra með hæstv. forsrh. og þannig mætti reyndar áfram telja. Þetta er afar sérkennileg staða sem er komin upp í þinginu.