Dræm fundasókn og nefndastörf
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég held að þessi umræða gefi tilefni til þess að drepa á nokkur fleiri atriði hér í störfum þingsins upp á síðkastið. Ég er einkum með hugann við framgang mála í fastanefndum þingsins. Ég hef neitað mér um það í nokkur skipti að koma hér upp til þess að gagnrýna hv. formann fjh.- og viðskn. Nd. fyrir það hvernig mál eru afgreidd eða réttara sagt ekki tekin fyrir og afgreidd í nefndinni. Síðast þegar ég sagði honum frá þessu bað hann mig um að bíða því það stæði til að taka fyrir eitthvað af þessum málum.
    Ég er sérstaklega með í huga, herra forseti, þingmál sem var vísað til fjh.- og viðskn. hinn 21. nóv. sl. og snertir breytingar á skattlagningu í Framkvæmdasjóð aldraðra. Mál sem var mikið til umræðu í lok síðasta þings og sem vissulega eru skiptar skoðanir um í þinginu en sem engin ástæða er til annars en að fái hér eðlilega meðferð og afgreiðslu. Þegar ég hafði orð á því við hv. formann fjh.- og viðskn. fyrir tveimur vikum að nú mundi ég taka þetta mál upp utan dagskrár hér, í umræðum um þingsköp, hafði málið aldrei verið rætt í nefndinni, aldrei verið tekið fyrir. Þetta er auðvitað ekki boðlegt og það gengur ekki og ég hlýt að taka undir gagnrýni hv. 16. þm. Reykv. á þessi vinnubrögð. Þingmenn eiga rétt á því að mál þeirra séu tekin fyrir í nefndum þingsins. Þeir eiga ekki kröfu á því að málin séu samþykkt eða að allir fallist á þau en þeir eiga kröfu á því að þau séu tekin fyrir efnislega og rædd. Nú skilst mér að þetta mál sem ég hef hér í huga hafi einu sinni verið tekið fyrir eftir samtal mitt og hv. þm. Páls Péturssonar og síðan staðið til að ræða það aftur. Nú er hann ekki lengur í þinginu en varaformaður hefur ekki boðað fund út af þessu máli og hlýt ég að harma það og óska eftir því sérstaklega að þetta mál fái afgreiðslu út úr fjh.- og viðskn. og geti komið til atkvæða hér í hv. deild. Og þetta gildir auðvitað líka um önnur mál sem þar hafa legið vikum og mánuðum saman.