Dræm fundasókn og nefndastörf
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Herra forseti. Það er hárrétt ábending hjá hv. 17. þm. Reykv. að það munu vera nokkur mál sem eru óafgreidd inni í fjh.- og viðskn. Mér þykir svolítið miður að hv. þm. kom hér upp í þetta skiptið og kvartaði undan þessu á þessum tímapunkti, einmitt þegar formaður nefndarinnar er ekki við á þinginu. Ég hefði heldur viljað að þessi umræða hefði farið fram að honum viðstöddum. Ég er sjálfur formaður í tveimur nefndum, sjútvn. og heilbr.- og trn. Þar liggur ekki eitt einasta mál fyrir, þ.e. við höfum afgreitt þau öll. Ég hef þegar boðað fund í fjh.- og viðskn. Fundarboðið var borið út núna í hádeginu. Við ætlum okkur að hittast á föstudag. Það liggur kannski ekki alveg ljóst fyrir hvort allir geta mætt þá þannig að það er aðeins óljóst um fundartímann en við höfum í hyggju að ganga í þau mál sem liggja fyrir nefndinni. Hvort þetta mál sem hv. þm. nefndi verður einmitt fyrst á dagskrá er ekki alveg ljóst en röðin kemur áreiðanlega að því meðan nefndin starfar undir minni formennsku. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram. Það hafa verið haldnir fundir í nefndinni eftir að ég tók þar við formennsku, við héldum stuttan fund í gær og afgreiddum þar tvö mál og það er sem sagt búið að boða fund n.k. föstudag og það verður starfað í þessari nefnd.