Dræm fundasókn og nefndastörf
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Jón Kristjánsson:
    Herra forseti. Það voru þrjú atriði sem urðu til þess að ég tek þátt í þessari umræðu um þingsköp. Í fyrsta lagi tel ég að þessi umræða sé þörf og tímabær. Menn verða að mæta hér á fundum og taka þátt í störfum. Ég þekki það af eigin reynslu sem forseti þessarar deildar hvað það er óþægilegt að koma ekki fram málum, sem er kannski enginn ágreiningur um, vegna mætinga.
    Í öðru lagi vil ég beina því til þingflokksformanna að það gerist æ algengara að þingmenn séu boðaðir á hina og þessa fundi úti í bæ á þingtíma. Ég held það væri rétt fyrir þingflokksformenn að benda þeim mönnum, sem senda boð til þingflokka trekk í trekk og boða þingmenn á fundi á reglulegum fundartíma þingsins, vinsamlega á að það sé ekki heppilegt að gera það. Þetta veit ég að er mjög algengt og ýmsir þingmenn kunna ekki við annað en að sinna þessu.
    Í þriðja lagi vil ég gera grein fyrir því að ég gegni formennsku hér í einni nefnd þingsins, allshn. Nd. Það er tiltölulega gott ástand þar varðandi afgreiðslu mála og þau mál sem þar eru til meðferðar enn þá eru teljandi á fingrum annarrar handar.