Læknalög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Margt í þessu frv. virðist mér fljótt á litið horfa til bóta. Þó sakna ég eins hlutar og hef þegar sent hæstv. ráðherra það erindi. Mér finnst að enga læknisaðgerð, læknisvitjun eða aðra læknisþjónustu eða heilbrigðisþjónustu sé í rauninni hægt að inna af hendi nema kvittanir komi fyrir. Þ.e. allt þetta stóra heilbrigðiskerfi sem tekur einna stærstan hluta af okkar fjárlögum er rekið þannig að sjúklingurinn, neytandinn eða greiðandinn, veit í rauninni sjaldnast fyrir hvað hann er að greiða. Þess vegna sendi ég hæstv. ráðherra hugmynd um breytingu á þessu frv. í þá veru að kvittanir verði jafnan gefnar þar sem greiðsla er innt af hendi eða þar sem millifærslur eru, þannig að sjúklingur viti hvað það kostar sem er verið að framkvæma.
    Það er sama eiginlega hvar maður kemur í almennum rekstri, hvort maður kaupir sér heita pylsu eða fer út í apótek og kaupir sér eitt box af plástrum, alls staðar eru kvittanir gefnar. Hins vegar er ekkert sem skyldar lækna til þess að gefa kvittanir fyrir þeirra vitjanir og þegar maður er lagður inn á spítala kemur hvergi fram hvað aðgerðin, legan og allt sem því fylgir, kostar. Þetta fer bara sjálfkrafa og hljóðlaust inn í kerfið og enginn veit neitt. Þetta slævir að mínu mati dómgreind fólksins og verðskynið þegar maður veit ekki hvað hver dagur sem maður nýtur þjónustu heilbrigðiskerfisins kostar ríkið.
    Ég held að það yrði strax til þess að fólk færi að hugsa sig um tvisvar ef það fengi reikninginn með sér heim, hundruð þúsunda eftir skamma dvöl. Fólk færi að velta fyrir sér hvort það sé ekki ómaksins vert að reyna að gera eitthvað sjálft í eigin málum til þess að draga úr sjúkrahúsvist á landinu. Mundi þetta ekki auka forvarnir svokallaðar? Ef fólkið sér svart á hvítu hvað það eyðir miklum peningum úr öðrum vasanum þegar það þarf að nota okkar ágætu heilbrigðisþjónustu. Ég held að kvittun af þessu tagi sé tvímælalaust til bóta þannig að fólk viti alltaf nákvæmlega hvað það er að borga þó það sé greitt úr okkar sameiginlegu sjóðum.