Læknalög
Miðvikudaginn 21. mars 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu en aðeins út af þeim athugasemdum sem komu fram hjá hv. 16. þm. Reykv. um það að hann hefði sent mér ábendingar varðandi þetta frv. Það er rétt. Ég hef fengið frá honum hugmyndir um hvernig hægt sé að standa að upplýsingum um kostnað við heilbrigðisþjónustuna. Ég taldi hins vegar að það væri mál sem við þyrftum að skoða betur en að skella því inn í frv. sem þá þegar var komið í vinnslu og til þingflokka til umsagnar og athugunar og yrði að skoðast nánar og e.t.v. í nefnd. En ég vil segja við hv. þingmann og þingmenn að þetta er auðvitað mál sem við höfum ítrekað skoðað og rætt við heilbrigðisstéttirnar og forsvarsmenn heilbrigðisstofnana hvernig hægt sé að standa að. Hvernig sé hægt að auka verðskyn manna varðandi kostnað við heilbrigðisþjónustuna ef nota má það orðalag. Við höfum t.d. verið með hugmyndir um sjúklingakort svokölluð og það er að fara á stað tilraun með slíkt form. Við höfum einnig rætt um það að sjúklingar eða einstaklingar sem leita til heilbrigðisþjónustunnar og þurfa á henni að halda fái yfirlit yfir það síðar hvað þjónustan hafi kostað viðkomandi. En um þetta eru allt saman mjög skiptar skoðanir og jafnvel skiptar skoðanir um það hvaða áhrif slíkar upplýsingar hefðu á heilsufar einstaklinganna og viðhorf þeirra til þjónustunnar almennt. Svo að ekki er hér um einfalt mál að ræða. En ég vildi aðeins láta það koma hér fram og segja við hv. þm. að þetta er vissulega mál sem við höfum skoðað og erum með í athugun og ég held að það sé mjög brýnt að reyna með öllum tiltækum ráðum að gera einstaklingana betur meðvitaða um hvað heilbrigðisþjónustan kostar.